Bestur Birnir Snær Ingason fór á kostum hjá Víkingi á síðasta ári og var valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar.
Bestur Birnir Snær Ingason fór á kostum hjá Víkingi á síðasta ári og var valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tilfinningin er mjög góð. Þetta var alltaf draumurinn, að komast í atvinnumennsku,“ segir knattspyrnumaðurinn Birnir Snær Ingason, leikmaður Halmstad í Svíþjóð, í samtali við Morgunblaðið

Fótboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta var alltaf draumurinn, að komast í atvinnumennsku,“ segir knattspyrnumaðurinn Birnir Snær Ingason, leikmaður Halmstad í Svíþjóð, í samtali við Morgunblaðið.

„Ég ætla ekkert að ljúga því að á tímabili hélt ég að maður væri orðinn aðeins of gamall. En ég er mjög stoltur af því að vera leikmaður Halmstad,“ bætir Birnir Snær við.

Hann er 27 ára gamall og samdi við Halmstad, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni, til þriggja ára í byrjun síðustu viku eftir að hafa leikið með Víkingi úr Reykjavík í tvö tímabil á undan.

Spurður hvernig fyrstu dagarnir hjá nýju félagi hafi verið segir Birnir Snær:

„Þeir hafa verið mjög góðir. Allt liðið og bærinn er svona frekar rólegur. Liðið er mjög gott og allir gæjarnir í liðinu eru búnir að hjálpa mér að komast inn í hlutina.“

Draumur hjá öllum

Hann var kjörinn besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum deildarinnar á síðasta tímabili og var í lok síðasta árs útnefndur íþróttakarl ársins hjá Víkingi. Birnir Snær hefur ekki áður leikið sem atvinnumaður, en er það nokkuð sem hann hefur ávallt stefnt að?

„Í rauninni alla ævi. Ég man nú ekkert nákvæmlega hvenær ég byrjaði að hugsa að ég ætlaði mér í atvinnumennsku, en þegar maður er í fótbolta held ég að allir vilji komast út í atvinnumennsku.

Ég held að það sé draumur hjá öllum þegar þeir eru yngri. Það var líka draumur hjá mér. Jú, þetta hefur örugglega verið alla ævi,“ segir Birnir Snær.

Fleiri lið áhugasöm

Hann leikur oftast á vinstri vængnum og átti frábært tímabil með Víkingi á síðasta ári þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari. Birnir Snær skoraði 12 mörk og lagði upp önnur sjö í 25 leikjum í Bestu deildinni og vakti áhuga nokkurra erlendra félaga.

„Já, það voru alveg fleiri lið sem voru áhugasöm og reyndu að semja við mig. Mér fannst bara Halmstad vera besti kosturinn í þessu. Mér leist vel á Svíþjóð, sænsku úrvalsdeildina og þetta félag.

Það hafa margir Íslendingar verið hjá Halmstad. Ég gat aðeins spurst fyrir um félagið því það er fullt af Íslendingum sem þekkja hvernig það er,“ segir hann og útskýrir nánar af hverju Halmstad varð fyrir valinu:

„Ég er með fjölskyldu þannig að ég þurfti líka að spá í hvernig bærinn væri. Er flókið að koma sér þangað? Menningin og allt þetta.

Maður þurfti að spá í það allt. Það var allt mjög jákvætt í kringum Halmstad, þannig að ég ákvað að kýla á það.“

Alltaf reynt að springa út

Birnir Snær hefur í gegnum árin sýnt fram á ótvíræða hæfileika en oft og tíðum ekki náð fram nægilegum stöðugleika í leik sínum. Undanfarið ár hefur hins vegar borið á miklum stöðugleika með tilheyrandi árangri, til að mynda fyrsta A-landsleiknum, gegn Gvatemala fyrr í mánuðinum.

„Þetta er svo fyndið, það er svo stutt á milli í fótbolta. Ég er búinn að spila tíu tímabil í efstu deild á Íslandi og það er kannski oft búið að bíða eftir því að ég springi út.

Maður hefur alltaf heyrt það og auðvitað hefur ég alltaf reynt að springa út, reynt að gera mitt besta. Svo einhvern veginn small þetta núna. Ég náði upp sjálfstraustinu og Víkingsliðið sem ég var í er ógeðslega gott.

Liðið spilaði fótbolta sem hentaði mér vel og Arnar [Gunnlaugsson] þjálfari treysti mér náttúrlega 100 prósent. Hann er óraunverulegur þjálfari, hann er svo góður. Ég tengdi mjög vel við hann.

Þetta ár byrjaði með algjörum krafti, ég var allt í einu kominn í A-landsliðið. Það var líka draumur hjá mér sem rættist í byrjun árs. Á sama tíma kemst maður út í atvinnumennsku,“ segir hann.

Ekki margir sem ná því

„Ég held að það séu kannski ekkert margir sem ná að láta þessa drauma rætast þegar þeir eru 27 ára, þetta kannski gerist aðeins fyrr. En ég er ótrúlega sáttur. Mér fannst líka bara gott að fá þessa landsleiki þó að ég hafi ekki verið í toppstandi í þeim sjálfum.

Ég var ekki búinn að spila alvöru leik síðan í október einhvern tímann. Landsleikirnir komu ekki beint á frábærum tíma fyrir mig hvað formið varðar þó að þeir hafi komið á góðum tíma upp á að sjá hvernig þetta virkar.

Þetta er svona svipað dæmi og að vera atvinnumaður í fótbolta. Því fannst mér geðveikt að þetta skyldi gerast áður en ég fór í atvinnumennskuna,“ heldur Birnir Snær áfram.

Arnar með réttu svörin

Spurður hverjar helstu ástæðurnar séu fyrir þessum aukna stöðugleika í leik hans segir Birnir Snær:

„Auðvitað lagði ég sérstaklega mikið á mig á undirbúningstímabilinu. Ég sagði við sjálfan mig að nú ætlaði ég að fara af fullum krafti í þetta. Ég byrjaði tímabilið vel, þannig að ég náði upp sjálfstraustinu og hélt því við.

Svo skiptir það máli að vera hjá Arnari, sem er þjálfari sem tengir við þig. Þú getur spurt hann út í allt og hann er eiginlega alltaf með réttu svörin, og þú tengir við svörin hans.

Stundum hefur maður verið með einhverja þjálfara og er kannski ekki alveg beint sammála þeim en fer náttúrlega alltaf eftir því sem þeir segja. Það er einhvern veginn allt sem hann segir sem veldur því að maður hugsar: „Já, auðvitað. Auðvitað er þetta svona“.“

Enginn sem drullar á sig

Hann bendir þá á mikilvægi þess að velja rétt lið.

„Hann var sjálfur sóknarmaður í gamla daga þannig að hann tengir sérstaklega mikið við mann. Svo er það líka þannig í fótbolta í dag að þú þarft að velja réttu liðin, finnst mér.

Ef þú kemur í Víking eru ansi góðar líkur á því að þú sért að fara að blómstra. Þetta er svona svipað og með Manchester City og Bodö/Glimt í Noregi.

Þetta eru bara lið sem þú getur farið í og þú veist að það er enginn að fara að drulla á sig í þessum liðum. Það er bara hugsað fyrir öllu og þú nærð einhvern veginn alltaf að skila þínu,“ segir Birnir Snær að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson