Fundahöld Arnar mætir til fundar í kjaradeilunni á dögunum.
Fundahöld Arnar mætir til fundar í kjaradeilunni á dögunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia náðu á mánudagskvöldið samkomulagi um nýjan skammtímakjarasamning. „Við náðum loksins að klára…

Guðmundur Hilmarsson

Kristján Jónsson

Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia náðu á mánudagskvöldið samkomulagi um nýjan skammtímakjarasamning.

„Við náðum loksins að klára þetta í gærkvöldi [mánudagskvöld]. Þetta er skammtímasamningur sem tók gildi 1. janúar og er til eins árs,“ sagði Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, við mbl.is í gær en flugumferðarstjórar höfðu verið án samnings frá 1. október síðastliðnum.

Ákveðinn léttir

Arnar segir að samningurinn sé í takt við aðra skammtímasamninga sem hafa verið gerðir á almennum vinnumarkaði undanfarið.

„Við erum bara sáttir og annars hefðum við ekki skrifað undir. Maður fær ekki allt sem maður vill en það gildir víst um báða aðila í samningaviðræðum. Það er ákveðinn léttir að þessi lota sé búin í bili og svo er bara stutt í næstu,“ segir Arnar.

Hann segir vinnu við gerð nýs samnings eftir að þessi skammtímasamningur rennur út munu hefjast strax í næsta mánuði. Flugumferðarstjórar fóru í verkfall í desember og hafði það áhrif á flugsamgöngur eins og gefur að skilja. Hætt var við fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir 20. desember vegna eldgoss á Reykjanesskaganum.

Höf.: Guðmundur Hilmarsson