Í Hannover Jóhann á sýningu til að skoða kennslubúnað fyrir málmsviðið í endurmenntunarfyrirtækinu Iðunni.
Í Hannover Jóhann á sýningu til að skoða kennslubúnað fyrir málmsviðið í endurmenntunarfyrirtækinu Iðunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhann Rúnar Sigurðsson er fæddur 31. janúar 1964 í heimahúsi, Norðurgötu 16, á Akureyri. „Ég ólst þar upp til 6 ára aldurs sem sannur Eyrarpúki. Þaðan flutti ég á Brekkuna og þar var maður kallaður Brekkusnigill og til 22 ára aldurs bjó ég þar hjá foreldrum mínum

Jóhann Rúnar Sigurðsson er fæddur 31. janúar 1964 í heimahúsi, Norðurgötu 16, á Akureyri. „Ég ólst þar upp til 6 ára aldurs sem sannur Eyrarpúki. Þaðan flutti ég á Brekkuna og þar var maður kallaður Brekkusnigill og til 22 ára aldurs bjó ég þar hjá foreldrum mínum.

Ég var svo lánsamur að hafa náð því að vera tvö sumur í sveit hjá afa mínum og hálfsystkinum móður minnar á Eyvindarstöðum í Sölvadal í Eyjafirði og fór oft í heimsókn þangað.“

Jóhann lauk grunnskólaprófi í Gagnfræðaskóla Akureyrar, tók síðan almennt verslunarpróf í framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Akureyrar og lauk svo sveinsprófi í bifvélavirkjun í framhaldinu. Hann fékk viðurkenningu fyrir félagsstörf í þágu gagnfræðaskólanum vegna stórs íþróttaviðburðar á lokaári sínu þar.

„Tólf ára bauðst mér að vinna í fiskhúsinu hjá Útgerðarfélaginu á Akureyri, en vinkona mömmu vann þar og var í afleysingum sem verkstjóri. Þegar aðalverkstjórinn kom til vinnu fannst honum þetta fullungt en hann gaf mér tækifæri og stóðst ég væntingar og vann þar á sumrin til 15 ára aldurs. Þegar ég var yngri var alltaf hamrað á því að ég yrði bifvélavirki eins og pabbi en báðir eldri bræður mínir, sem eru 9 og 11 árum eldri en ég, gáfust upp og fannst það leiðinlegt. Tæknin var komin í greinina þegar ég byrjaði að læra og vinna hjá föður mínum, sem var með Saab- og Toyota-umboðið.“

Eftir að faðir Jóhanns seldi reksturinn ásamt félaga sínum vann Jóhann sem aðstoðarverkstjóri hjá núverandi rekstaraðila til 39 ára aldurs. Þá var hann ráðinn verslunarstjóri hjá Stillingu varahlutaverslun og kom upp verslun á Akureyri, þar sem hann vann næstu níu árin. Árið 2012 var Jóhann kjörinn formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri ásamt því að vera framkvæmdastjóri og sinnir hann báðum þessum störfum í dag.

„Frá 15 ára aldri hef ég verið í þessu góða félagi. Ég sat í stjórn þess í þrjú ár áður en ég var beðinn um að bjóða mig fram af þáverandi formanni, Hákoni Hákonarsyni, sem sat í 42 ár sem formaður. Þetta hafa verið mjög gefandi störf og ég lært heilmikið við að sinna þeim. Félagið okkar er lítið en stendur saman af öflugum iðnaðarmönnum með sterka sýn á þessa starfsemi.“

Jóhann er varaformaður Samiðnar, sat í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna 2014-2018 og í stjórn Neytendasamtakanna 2018-2020. Hann hefur setið í jafnréttisnefnd ASÍ frá 2014 og verið varafulltrúi í jafnréttisráði Íslands. Hann situr þriðja hvert ár í aðalstjórn Iðunnar fræðsluseturs og hefur setið í stjórn málmsviðs Iðunnar frá árinu 2012 sem fulltrúi FMA.

„Ég hef verið mjög lánsamur á þessum tíma með samferðafólk mitt á þessum vettvöngum og þakka fyrir hvern dag sem ég tekst á við með því í vinnu og leik. Eitt af því sem ég er einna stoltastur af er að vera einn af stofnendum Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri og þar hefur verið frábært að vinna með öflugu fólki og að góðum málum með tækjakaupum fyrir spítalann. Velvilji samfélagsins til þessara samtaka er einstakur og hefur verið eftirtektarverður árangur í söfnunum frá stofnun þessara samtaka þau rúmu 10 ár sem félagið hefur starfað.“

Jóhann lék körfubolta í meistaraflokki Þórs og sat einnig í stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs frá 16 til 26 ára aldurs. Hann hefur fengið gullmerki og silfurmerki frá Þór og tvö silfurmerki frá Körfuknattleikssambandi Íslands. Hann var fyrstur til að vera valinn í unglingalandslið KKÍ hjá Þór og var kosinn körfuknattleiksmaður Akureyrar 1991.

„Þá hætti ég að spila og fór að þjálfa og byggja upp körfuknattleik á Ólafsfirði, en Ólafsfirðingar voru þá að fá stórt íþróttahús. Ég er enn að aðstoða við fjáröflun fyrir körfuna og elsta barnabarnið mitt, Rakel, valdi sér númerið hans afa síns, nr. 7, og afinn fylgist vel með. Ég bauð reyndar þjálfaranum að stökkva í skarðið ef hann væri í vandræðum og var beðinn um að leysa af og þjálfaði barnabarnið og þann hóp í eitt skipti. Vorum við bæði roggin með okkur, ég og barnabarnið, eftir þann dag. Svo eru afadrengirnir mínir í fótbolta sem ég fylgist með.“

Í dag eru aðaláhugamál Jóhanns sagnfræði og golf, en hann lenti í tveimur mjög slæmum slysum 2013. „Fyrir það var ég mikið að veiða og hjóla ásamt því að ég og yngri dóttir mín vorum í hestamennsku. Svo var ég að sjálfsögðu að spila körfubolta með félögunum og stofnuðu ég og miðbróðir minn öldungamót sem Þórsarar halda enn þann dag í dag sem fjáröflun og er vinsælt á meðal fyrrverandi leikmanna í meistaraflokki. Vorum við bræðurnir heiðraðir fyrir það framtak af núverandi umsjónaraðilum. Eftir þessi tvö slys get ég stundað golf með því að vera á golfbíl. Ég hef sagt við vini mína að golf snúist um að spila á sem fæstum höggum en vissulega væri gott að geta gengið í þessari íþrótt. Égnáði að koma eiginkonunni í golfið með mér og hún er orðin meiri áhugasjúklingur í þeirri íþrótt en ég.

Þrátt fyrir þessa upptalningu skipa barnabörnin mín þrjú og minn besti vinur Líney Björk og eiginkona mín stærsta sessinn í lífinu.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóhanns er Líney Björk Jónsdóttir, f. 19.8. 1969, sérfræðingur hjá VÍS. „Við erum búsett í Urðargili 27 á Akureyri í þorpinu en þar búa sannir Þórsarar.“ Foreldrar Líneyjar eru hjónin Jón Snorrason, f. 4.11. 1946, fv. verkstjóri hjá Símanum, og Auður Hermannsóttir, f. 14.6. 1951, vann við verslunarstörf. Þau eru búsett á Akureyri.

Dætur Jóhanns eru 1) Auður Ýr Jóhannsdóttir, f. 3.4. 1989, sérfræðingur hjá Ríkisendurskoðun, býr í Kópavogi. Maki: Ólafur Evert Úlfsson, lögmaður hjá Deloitte Legal. Synir þeirra eru Evert Marinó, f. 2015, og Emil Óli, f. 2019, og 2) Katrín Jóna Jóhannsdóttir, f. 28.4. 1992, stuðningsfulltrúi hjá Lundarskóla á Akureyri, býr á Akureyri. Dóttir hennar er Rakel Mist, f. 2014.

Bræður Jóhanns eru Stefán Sigurðsson, f. 9.3. 1953, kennari og fv. lektor í rekstrarfræði við Háskólann á Akureyri, býr á Akureyri, og Eiríkur Sigurðsson, f. 17.7. 1955, meistari í húsasmíðum, býr á Akureyri.

Foreldrar Jóhanns voru hjónin Sigurður Stefánsson, f. 25.9. 1929, d. 5.2. 2018, meistari í bifvélavirkjun og rak Saab- og Toyota-umboðið á Akureyri til fjölda ára, og Sigurmunda Hekla Eiríksdóttir, f. 14.6. 1930, d. 29.4. 2015, verkakona. Þau bjuggu á Akureyri.