Guðný Jónasdóttir fæddist í Skógskoti í Miðdalahreppi í Dalasýslu 3. janúar 1929. Hún lést á Hrafnistu, Brúnavegi 23. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Jónas Jónasson bóndi og Sigurdís Snorradóttir húsmóðir. Systkini Guðnýjar voru Snorri og Elín, sem eru látin, og Jósef búsettur í Reykjavík.

Eiginmaður Guðnýjar var Guðmundur Gíslason, f. 11. maí 1929, d. 3. október 2007. Foreldrar hans voru Gísli Þorsteinsson og Steinunn Guðmundsdóttir. Börn Guðnýjar og Guðmundar eru: 1) Geir Hlíðberg, f. 11.8. 1953, d. 6.12. 2010, kvæntur Margréti Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Guðmundur Freyr, kvæntur Pálínu Kristínu Jóhannsdóttur, Gunnar Þór, sambýliskona Raquel Díaz, og Steinunn Ósk, gift Friðriki Óskari Friðrikssyni. 2) Gísli Hlíðberg, f. 6.8. 1955, kvæntur Söru Vilbergsdóttur. Dóttir Gísla er Hrafnhildur, gift Ólafi Geir Sigurjónssyni. Sonur Söru er Viðar Hákon Söruson, sambýliskona Silja Glømmi. 3) Sigurdís Sjöfn, gift Eyjólfi Ólafssyni. Börn þeirra eru Guðný Ósk og Heiðar Ingvi, kvæntur Bergrúnu Tinnu Magnúsdóttur. Langömmubörnin eru 16 og tvö langalangömmubörn.

Guðný og Guðmundur stunduðu búskap að Geirshlíð frá árinu 1952 til ársins 2000 er þau brugðu búi og fluttu til Reykjavíkur. Guðný stundaði ýmis störf meðfram búskap, meðal annars verslunarstörf hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar. Þá sat hún í hreppsnefnd Miðdalahrepps árin 1974-1978.

Útför Guðnýjar verður gerð frá Fella- og Hólakirkju í dag, 31. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elskuleg móðir mín er fallin frá 95 ára að aldri. Hún fæddist á fyrri hluta síðustu aldar, fæddist inn í gamla bændasamfélagið sem hafði lítið breyst í aldanna rás. Á hennar ævi urðu hins vegar miklar þjóðfélagsbreytingar frá bændasamfélaginu til þjóðfélagshátta nú í dag. Samt hefur hún, allan þann tíma sem ég man, verið mjög framsýn og haft jákvæða sýn á samfélagið.

Móðir mín ólst upp hjá foreldrum sínum í Stóra-Langadal á Skógarströnd til sjö ára aldurs er faðir hennar lést. Fluttist hún þá að Gilsbakka í Miðdalahreppi með móður sinni og systkinum, þar sem föðurfjölskylda hennar stundaði búskap. Seinna flutti fjölskyldan að Skörðum í sömu sveit. Fráfall Jónasar afa hafði mikil áhrif á fjölskylduna. Móðir mín hóf búskap með föður mínum í Geirshlíð árið 1952. Þar bjuggu þau allt til ársins 2000 er þau seldu jörðina bróðursyni mínum og fluttu til Reykjavíkur.

Seigla, vinnusemi og að taka því sem að höndum ber var einkennandi fyrir móður mína og ekki er ólíklegt að það sé arfur frá barnæsku hennar. Hún lagði áherslu á að allir ættu að vera meðvitaðir um þjóðfélagsmálin. Hún gat haft sterkar skoðanir á málefnum og hafði gaman af rökræðum en bar virðingu fyrir skoðunum annarra. Hún hvatti mig og aðra afkomendur sína til að fylgjast vel með þjóðfélagsumræðunni.

Hugur mömmu á yngri árum stóð til að mennta sig en ekki var mikill skilningur í þjóðfélaginu fyrir því að stúlkur skyldu ganga í skóla og eflaust hefur fjárhagurinn ekki leyft langa skólagöngu. Henni tókst engu að síður að vera einn vetur í Héraðsskólanum í Reykholti og annan vetur í Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Mamma lagði mikla áherslu á að við börnin hennar skyldum mennta okkur. Við fórum öll snemma að heiman til langdvalar í heimavist í barnaskólanum á Laugum í Sælingsdal. Það hefur eflaust verið erfitt fyrir móðurhjartað að sjá á eftir ungum börnum sínum í viku og allt upp í mánaðar útivist.

Mamma tók þátt í félagsmálastarfsemi í sinni sveit, sérstaklega á yngri árum, t.d. ungmennafélaginu og kvenfélaginu. Síðar starfaði hún í þágu kirkjunnar. Þá sat hún eitt kjörtímabil í hreppsnefnd Miðdalahrepps.

Barnabörnin nutu þess að koma og dvelja í sveitinni í Geirshlíð. Mörg þeirra dvöldu þar sumarlangt, lærðu á lífið og lærðu að vinna. Þau mynduðu öll sterk tengsl við bæði ömmu sína og afa. Mjög fallegt var að sjá hvað barnabörnin sinntu ömmu sinni vel á síðustu mánuðum þegar heilsa hennar fór að gefa sig.

Mamma missti pabba árið 2007 og síðan eldri son sinn árið 2010. Missirinn var mikið áfall fyrir hana þótt hún bæri harm sinn í hljóði eins og hennar kynslóð gerir.

Við hjónin dvöldum erlendis síðustu vikurnar sem mamma lifði. Vorum þó í tíðum samskiptum við hana með nútímatækni. Það var mjög mikilvægt fyrir mig og konu mína að ná að hitta hana áður en hún skildi við. Mig langar að þakka systur minni, mágkonu og öllum afkomendum mömmu sem sinntu henni á Hrafnistu síðustu vikurnar sem hún lifði.

Elsku mamma takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Minning þín lifir.

Gísli.

Hér sit ég nú í eldhúsinu í Geirshlíð. Í gamla eldhúsinu þínu, í gamla húsinu þínu, á gamla eldhúsbekknum og rita mín minningarorð til þín. Margs er að minnast á þessu æviskeiði sem ég átti þig sem ömmu mína. Ég og bróðir minn fengum að heyra sögu þína fyrir nokkrum árum. Ekki var æskan auðveld hjá þér né sanngjörn. En þú spilaðir úr þeim spilum sem þér voru gefin og þú spilaðir vel. Náðir í menntun í húsmæðraskólanum á Varmalandi. Eignaðist mann, börn og jörð. Þið byggðuð jörðina upp með íbúðarhúsi, fjárhúsum og fleira. Ekki má gleyma garðinum með skrautblómum og trjám þar sem var eini staðurinn þar sem við barnabörnin máttum ekki spila fótbolta. Kálgarðurinn þar sem þú ræktaðir kartöflur, salat, gulrætur og rabarbara. En ég man líka eftir þér í fjárhúsunum á vorin að aðstoða kindur við að bera, á sumrin að raða heyböggunum inn í hlöðuna áður en það fór að rigna, í águst að tína bláber til að gera sultu og einnig sem eftirrétt eftir sunnudagssteikina. Baksturinn þinn sem var snúðar, rjómatertur, kaka með piparmyntusúkkulaði, jólakökur með rúsínum. Pönnukökur með rjóma og ekki síðast en síst snúðakakan. Gestrisnin þegar fólk kom í heimsókn. Maður hélt að búrið í húsinu væri í einhverri annarri vídd þar sem þar flæddu út kökur og sætabrauð þegar gest bar að garði en maður varð lítið var við þessar kræsingar þegar maður kíkti sjálfur inn. Svo ekki sé minnst á kaffitímana bæði síðdegis og á kvöldin eftir langan, oft erfiðan en oftast skemmtilegan dag þar sem ekki var skortur á veitingum, hversu margt fólk sem var á staðnum. Þú og afi hættuð að búa hér í byrjun árs 2000 þegar ég og Lína tökum við. Þið keyptuð hús í Búðardal og voruð þar yfir sumartímann. Fyrstu árin komuð þið aftur í sveitina til að aðstoða okkur við sauðburð, heyskap, smalamennsku og fleira. Það var ómetanleg hjálp sem við fengum frá ykkur og erum við mjög þakklát fyrir það. Eftir að afi dó og þú seldir húsið í Búðardal fækkaði ferðum þínum vestur. En alltaf vildir þú vita hvað væri í gangi í gömlu sveitinni þinni og fá fréttir þaðan og gerðum við og aðrir í fjölskyldunni okkar besta til segja þér þær.

Þegar ég og Lína kíktum í heimsókn til þin um miðjan janúar var farið að draga af þér.

Við sátum smá stund saman og spjölluðum aðeins og var það síðasta sinn sem við þrjú skiptumst á orðum. Viku seinna var hringt í mig og mér sagt frá stöðu mála. Ég sat hjá þér síðasta kvöldið sem þú lifðir ásamt frændsystkinum mínum. Spjölluðum við saman um heima og geima, rifjuðum upp gamlar sögur úr sveitinni og pössuðum að þú heyrðir líka svo þú vissir af okkur.

Seint um kvöld lagði ég af stað heim.

Heim til mín og heim til þín í Geirshlíð þar sem sporin okkar, blóð, sviti og tár geymast á þessum stað sem fjölskyldan okkar, ættingjar og vinir hafa verið svo mikið og svo lengi á. Rétt áður en ég beygði upp á Bröttubrekku hringdi systir mín.

Þú varst farin.

Ég fann fyrir sorg í hjarta en einnig létti, þar sem síðustu dagar þínir hér höfðu verið þér erfiðir vegna heilsubrests.

En núna erum við bæði komin heim.

Guðmundur
Freyr Geirsson.

Þar kom að því að mamma fengi langþráða hvíld. Hún var orðin þreytt og vildi fá að fara líkt og margir af hennar kynslóð. Á síðustu vikum og mánuðum varð krabbameinið yfirsterkara og hún játaði sig sigraða.

Mamma var búin að eiga langa og viðburðaríka ævi, orðin 95 ára. Miklar breytingar og framfarir hafa átt sér stað á hennar ævi. Hún var alla tíð opin fyrir nýjungum og fylgdist vel með heimsmálunum, hafði sterkar skoðanir á pólitík og tók þátt í félagsstörfum í sveitinni.

Það eru margar minningar sem koma upp í hugann frá uppvaxtarárunum í Geirshlíð. Á þeim tíma voru flest börn svo heppin að hafa báða foreldrana heima við og gátu leitað til þeirra hvenær sem er. Við börnin vorum snemma farin að taka þátt í daglegum verkefnum. Fara í fjárhúsin, taka þátt í heyskap, smalamennskum og öðrum verkefnum.

Mamma var dugleg og hafði góða yfirsýn yfir verkefnin í sveitinni hverju sinni. Hún dreif hlutina áfram, þoldi ekkert hangs eða hálfkák, það átti að gera allt vel og með metnaði. Hún passaði vel upp á heimilisfólkið, það átti alltaf að koma í mat og kaffi á réttum tíma. Man sérstaklega eftir því þegar við krakkarnir fórum á böllin og komum seint heim, við skyldum mæta í sunnudagssteikina og það gerðu það allir.

Það lék allt í höndunum á henni, alveg sama hvort það var fatasaumur, prjónaskapur eða bútasaumur, allt var svo vel gert. Þegar ég var barn og unglingur saumaði hún mikið, það voru keypt burda-blöð og tekin upp snið úr þeim og saumaðir margir flottir kjólar, pils og buxur á mig, dúkkurnar fengu líka að njóta hæfileika hennar og ég á ennþá fallegan fatnað á þær. Mamma hafði líka mikinn áhuga á garðrækt, blómagarðurinn hennar í Geirshlíð var sérlega fallegur. Hún var með mikið af fjölæringum og sumarblómum sem hún ræktaði sjálf. Seinnipart vetrar var byrjað að sá fræjum fyrir sumarblómum og það var endalaust verið að dekra við þau, skipta í stærri potta, venja þau við útiveru þegar nálgaðist gróðursetningu og skýla þeim fyrir vindi og kulda eftir gróðursetningu. Það var alltaf mikið að gera á vorin í sauðburði o.fl. en mamma gaf sér alltaf tíma til að líta eftir í garðinum.

Ég var ekkert sérlega dugleg að hjálpa henni í húsverkunum en samt man ég að það var bakstursdagur einu sinni í viku og þá var ég oft með henni. Það var bakað fullt af formkökum, snúðakökum, súkkulaðikökum, kleinum og kristjánskaka var mjög vinsæl. Ekki má gleyma uppáhaldsköku flestra í fjölskyldunni sem var bara bökuð á jólum og tyllidögum, kaniltertunni.

Börnin mín voru bæði svo heppin að fá að vera í sveitinni á sumrin. Það var mikill skóli fyrir þau að læra að umgangast dýrin og náttúruna og þau njóta góðs af því í dag.

Elsku mamma, ég veit að pabbi hefur tekið vel á móti þér með harmonikkuleik og þið dansið aftur saman en núna í sumarlandinu.

Takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Sigurdís.

Það er með söknuði og þakklæti fyrir góðar og innihaldsríkar stundir sem ég kveð tengdamömmu.

Hún var mögnuð kona á marga lund, ákveðin, bráðklár og stálminnug. Hún gerði okkur „unga“ fólkinu skömm til með því að muna nöfn og atburði mun betur en nokkurt okkar og minninu hélt hún fersku fram á síðasta dag. Alla tíð fylgdist hún vel með þjóðmálaumræðunni og heimsfréttunum, var skapmikil og hafði gaman af góðum rökræðum, hún hafði sterkar skoðanir en átti jafnframt auðvelt með að setja hlutina í samhengi. Væri hún ung í dag að hefja lífshlaupið er ég sannfærð um að hún hefði farið í pólitík og endað sem forsætisráðherra.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna var hún bóndakona og bústýra í Geirshlíð í Dölunum og á sumrin voru barnabörn og skyldmenni í sveit hjá henni og tengdapabba heitnum. Barnabörnin þeirra eiga mikinn og digran minningafjársjóð frá þeim tíma og tengdust innbyrðis djúpri varanlegri vináttu. Hún elskaði fjölskylduna af heilum hug en í þá tíð tíðkaðist ekki að hafa orð á því en verkin látin tala.

Heimiliskötturinn okkar, Snúður Rúsínuson Mús, sem var langt frá því að vera allra og fór ávallt í verulegt manngreinarálit valdi hennar fang sem sitt uppáhalds. Þegar hún kom í vikulega sunnudagssteik til okkar tók hann sér stöðu á gólfinu við hlið hennar og starði á hana meðan hún borðaði, rak svo á eftir henni að koma með sér inn í stofu að horfa á fréttir og Landann, kom sér svo vel fyrir í kjöltu hennar, malaði og sofnaði. Hann var ekki hrifinn þegar hún bjóst til heimferðar. Þau voru á sama aldursskeiði og perluvinir.

Guðný var mikil og flink hannyrðakona, prjónaði ógrynnin öll af peysum, sokkum og vettlingum, oft fíngerða og flókna hluti, saumaði út, bjó til bútasaumsteppi, m.a. á hjónarúm barna sinna. Þegar sjónin fór að daprast fór hún að hekla sér til dægrastyttingar meðan hún hlustaði á hljóðbækur og mikil var aðdáun fjölskyldunnar þegar hún í fyrra, 94 ára gömul og orðin lögblind, heklaði rúmteppi á tvíbreitt rúmið sitt. Það var heklað úr óteljandi dúllum sem hún svo saumaði saman. Síðasta haust bað ég hana að kenna mér að hekla dúllur og þá komst ég að því að ofan á allt annað var hún fyrirtaks kennari og tilsögnin var svo skýr og skilmerkileg að mér skotgekk að komast upp á lagið með þetta og nú hugsa ég alltaf til hennar þegar ég hekla.

Elsku tengdamamma, að leiðarlokum vil ég þakka þér samfylgdina í gegnum árin og óska þér friðar og blessunar í sumarlandinu góða með Mumma, Geir, Snúði og fleiri góðum.

Sara Vilbergsdóttir.

Elsku amma hefur nú loksins fengið hvíldina og við vitum að afi hefur tekið vel á mót henni.

Við frænkur eigum hafsjó af minningum frá því við vorum litlar í sveitinni hjá ömmu og afa og gott að leyfa huganum að reika þangað. Það sem fyrst kemur upp í hugann er hversu notalegt var að koma í sveitina til þeirra. Heimabakað bakkelsi beið okkar þegar við komum og hlýr faðmur ömmu. Fallegi garðurinn alltaf í blóma og þar áttum við ófáar stundir saman með teppi, djús í brúsa og tínandi rifsber af runnunum.

Það rifjast upp þegar við frænkurnar komumst í fataskáp ömmu og fundum þar þessi fínu síðu pils sem við að sjálfsögðu þurftum að máta og pössuðu vel við prinsessuleikinn sem við vorum í. Við í fínum pilsum, reyrð með beltum og baggaböndum, örkuðum um hlaðið, príluðum í trjánum í skóginum og hlupum niður á tún. Þetta var það flottasta í hugum 9-11 ára stelpna. Þegar við hugsum til baka þá erum við ekki vissar um að amma hafi verið mjög ánægð með þetta uppátæki okkar.

Amma var ákveðin og með skoðanir á öllu, drífandi og kraftmikil. Í okkar huga var amma ofurkona sem sá til þess að heimilið þeirra afa væri alltaf snyrtilegt og alltaf góður matur á borðum þrátt fyrir mikið annríki í sveitinni. Þetta eru eiginleikar sem við frænkur lítum upp til og reynum að fara eftir sjálfar.

Minnið brást ömmu ekki, 95 ára gömul var hún með allt á hreinu og fylgdist mjög vel með lífi barnabarnanna og okkar fjölskyldum. Það var henni mjög mikilvægt að okkur gengi vel í lífinu og værum ánægð. Amma var góður hlustandi og alltaf var gott að leita til hennar og ræða öll heimsins mál.

Kirkja og trúmál voru henni afar mikilvæg og amma fór alltaf með bænir fyrir svefninn og hér er ein sem hún fór með fyrir okkur þegar við vorum litlar:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Elsku amma, takk fyrir allt og hvíldu í friði. Minningin um þig og afa lifir í hjörtum okkar að eilífu.

Guðný Ósk,
Hrafnhildur og
Steinunn Ósk.