Sáttur Páll Óskar er sáttur við nýja lagið en segist ekki munu lifa eftir því.
Sáttur Páll Óskar er sáttur við nýja lagið en segist ekki munu lifa eftir því. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Óskar Hjálmtýsson hefur verið upptekinn af ástinni síðan hann var 18 ára gamall, segir það drifkraftinn sinn og það sem fái hann til að tifa. Hann var gestur Kristínar Sifjar, Þórs Bæring og Bolla Más í Ísland vaknar á dögunum þar sem hann…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Páll Óskar Hjálmtýsson hefur verið upptekinn af ástinni síðan hann var 18 ára gamall, segir það drifkraftinn sinn og það sem fái hann til að tifa. Hann var gestur Kristínar Sifjar, Þórs Bæring og Bolla Más í Ísland vaknar á dögunum þar sem hann talaði aðallega um ástina af mikilli einlægni og nýja lagið sitt, Elskar þú mig ennþá?

Hann segir það hafa verið erfitt að koma nýja laginu út, það hafi krafist mikillar sjálfsvinnu og uppgjörs á fortíðinni. „Þegar við Birnir gerðum lagið Spurningar þá heyrði ég það eftir að það kom í loftið. Það rann þá upp fyrir mér að við minnumst aldrei á hvaða spurningar það eru sem gera okkur svona tjúlluð,“ segir Páll Óskar.

„Svo fyrir þremur árum fæ ég sýnishorn (demó) frá Agli Rafnssyni trommara og Svenna vini hans. Ég fann strax að ég þurfti að finna þessa spurningu. Svo þetta lag er sjálfstætt framhald af Spurningum.“

Fann loks spurninguna

Hann fann spurninguna eftir mikla sjálfsskoðun, sem er Elskar þú mig ennþá?

„Það er svo mikið fórnarlamb í þessu. En þetta lag er um alla mína fyrrverandi, ég verð að gera lag um þá líka,“ segir hann og brosir. Hann segir lagið Galið gott sem hann gaf út í fyrra vera tileinkað sínum núverandi.

„En þetta tók sinn tíma. Ég hélt ég væri orðinn svo klár í þessu, búinn með allar sjálfshjálparbækurnar.“

Páll söng lagið inn í janúar fyrir rúmu ári, var sáttur, þurrkaði svitann af enninu og beið eftir því sem koma skyldi.

„Þegar maður hefur skrifað frá sér svona áföll þarf að horfast í augu við sjálfan sig. Ég spurði sjálfan mig, hvað ertu að fara að bjóða einhverjum elskhuga upp á? Ætlarðu að bjóða upp á alla þína fyrrverandi sem eru enn í kerfinu þínu? Þú verður að taka til heima hjá þér áður en þú færð gest í heimsókn.“

Það var nákvæmlega það sem gerðist. „Minn núverandi græddi helling á að ég skyldi hafa skrifað þetta frá mér. Þetta var það fyrsta sem hann fann þegar við föðmuðumst, þessi gaur er tilbúinn, það er pláss fyrir mig hérna. Húsið er hreint. Svo ég mæli með að skrifa frá sér gamalt drasl sem leynist enn þá hjá manni,“ segir hann hlæjandi.

„Ofsalega oft ætlumst við til að elskhuginn sé mættur til að redda okkur og taka til fyrir okkur. Það er mesti dónaskapur sem fyrirfinnst. Þú verður að gera þetta sjálfur, það gerir það enginn fyrir þig.“

Eru að kynnast kerfinu

Núverandi maki Páls er flóttamaður frá Venesúela og Páll segir það glænýjan heim sem hann er að kynnast. „Við erum hjartanlega tilbúnir, erum að kynnast kerfinu og maður verður að vera þolinmóður og skilningsríkur,“ segir hann og brosir. „En við erum svo góðir hvor við annan. Erum að njóta samvista og pössum okkur á því á hverjum einasta degi að gera eitthvað sætt hvor fyrir annan.“

Í tilefni eins árs sambandsafmælisins ætla þeir að elda saman og segir Páll það vera eina leið til að sýna að manni þyki vænt um einhvern. „Ég elska að elda fyrir hann og sjá viðbrögðin hans.“

Kristín Sif spyr hvort hann sé með ráð fyrir þá sem eru enn með fortíðina innra með sér, gamla drauga sem þeir óski að losna við. „Það þarf að rækta sálina líka. Ekki fylla hana af dægurþrasi, samfélagsmiðlum og þannig. Það er áskorun fyrir okkur öll.“

Hann segist sáttur við nýja lagið, Elskar þú mig ennþá? en hann muni ekki lifa eftir því, ekki láta það stjórna sér.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á K100.is.