Suðurnesjalína 2 er áminning um þörf á breyttum lagaramma

Í vikunni sagði Morgunblaðið frá því að Landsnet stefndi að því að hefja framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 síðsumars. Þessi jákvæðu tíðindi komu í framhaldi af því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði hafnað kröfu fjögurra náttúruverndarsamtaka sem höfðu, eins og venja er orðin við slíkar framkvæmdir, fullnýtt alla kærumöguleika og tafið framkvæmdir eftir því. Áður hafði náðst samkomulag við sveitarfélagið Voga, sem hafði um langt skeið haft í frammi óaðgengilegar kröfur um línulagninguna.

Samningar hafa náðst við langflesta landeigendur, en út af stendur að fá heimild til eignarnáms á því landi sem enn er ósamið um, sem er oft óhjákvæmilegur hluti af slíku ferli.

Þessi raflína er búin að vera í bígerð í að minnsta kosti áratug og hefur mætt mikilli fyrirstöðu þrátt fyrir að augljóst sé að lagning hennar sé afar brýn fyrir raforkuöryggi á Reykjanesi. Mikilvægi línunnar hefur orðið augljósara með eldsumbrotum á Reykjanesi, en þau þurfti þó ekki til enda hófst undirbúningur línunnar áður en jörð fór að skjálfa á svæðinu eða hraun að renna.

Tafirnar við Suðurnesjalínu 2 eru enn ein áminningin til stjórnvalda um að breyta þurfi vinnubrögðum við framkvæmdir í orkumálum hér á landi. Þó að ganga þurfi vel um náttúruna má ekki vera hægt að tefja nauðsynlegar framkvæmdir árum saman, en nú liggur fyrir, sem ekki var jafn skýrt þegar núverandi lagarammi var settur, að einstaka félagasamtök munu beita öllum aðferðum sem færar eru til að tefja og reyna að hindra allar framkvæmdir. Það sama á við um einstaka sveitarfélög, ekki er heldur hægt að búa við það að þau geti tafið slíkar framkvæmdir eins og raunin varð með þessa framkvæmd.

Fram undan eru frekari framkvæmdir, bæði í raflínulögnum og virkjunum, sem þola ekki bið. Þeim þarf að hraða með lagasetningu sem dugar.