Leikhús „Svo var einhver ljóðræn súrrealísk fegurð sem birtist þarna, sérstaklega þegar það fór að ganga illa.“
Leikhús „Svo var einhver ljóðræn súrrealísk fegurð sem birtist þarna, sérstaklega þegar það fór að ganga illa.“ — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er svo margt í þessari hugmynd sem er svo fallegt og mannlegt,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson, listrænn stjórnandi verksins Vaðlaheiðargöng í Borgarleikhúsinu, sem fjallar um þessa „stórkostlegustu framkvæmd…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Það er svo margt í þessari hugmynd sem er svo fallegt og mannlegt,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson, listrænn stjórnandi verksins Vaðlaheiðargöng í Borgarleikhúsinu, sem fjallar um þessa „stórkostlegustu framkvæmd Íslandssögunnar,“ eins og segir í kynningu frá leikhúsinu. Verkið, sem leikhópurinn Verkfræðingar stendur að í samstarfi við Borgarleikhúsið, verður frumsýnt á Nýja sviðinu á morgun, föstudagskvöldið 2. febrúar.

„Samspil manns og náttúru er þarna í forgrunni. Við mennirnir að grafa okkur í gegnum risastórt eldgamalt fjall til þess að stytta okkur leið. Sem er fullkomlega réttmætt og eðlilegt en samt líka skrítið ef maður fer að pæla í því.“ Þá segir hann að pólitíkin í kringum verkefnið hafi verið áhugaverð. „Til dæmis voru allir þingmennirnir sem komu að þessu úr Norðausturkjördæmi, sem er kannski ekki tilviljun, en þeir voru líka allir sköllóttir, sem er kannski skemmtilegri tilviljun,“ segir hann.

Eins og súrrealískt listaverk

„Svo var einhver ljóðræn súrrealísk fegurð sem birtist þarna, sérstaklega þegar það fór að ganga illa,“ segir Karl og vísar til þess þegar heitt vatn fór að streyma þar sem grafið var fyrir göngunum Eyjafjarðarmegin. „Menn höfðu séð fyrir að það yrði eitthvert vatn í fjallinu en ekki heitt vatn. Það gýs upp þarna tæplega 50 gráðu heitt vatn sem gerir það að verkum að aðstæðurnar þarna inni verða eins og í gufubaði.“

Svo fór að leka kalt vatn Fnjóskadalsmegin. „Þá þurftu þeir að sigla inn í fjallið á bát og það er held ég bara það fallegasta sem ég hef séð. Það er eins og eitthvert listaverk. En á sama tíma verður það svo rosalega mannlegt því það er verið að athuga með einhverja þéttingu á einhverri steypu eða eitthvað. Og þá þarf að sigla á árabát inn í fjallið eins og í einhverju súrrealísku listaverki.“

Aðspurður segist Karl lengi hafa haft áhuga á þessari framkvæmd. „Við erum búin að grúska í þessu í um tvö ár og svo birtast um þetta endalausar fréttir og ég er búinn að vista þær allar í tölvuna. Þetta er gullnáma. Mestu vandræðin eru að það er búið að gera sýninguna fyrir okkur. Framkvæmdirnar við þessi göng eru bara sýningin. Þannig að við erum búin að vera í bölvuðum vandræðum með hvernig við komum þessari lygilegu sögu áfram.“

Samband manns og náttúru er að sögn Karls í algjörum forgrunni. „Það er auðvitað bara búið að gera þessi göng og þau virka vel, þannig við erum voða lítið að pæla í þeim í sjálfu sér. En verkið gerist inni í þeim. Það eru þarna manneskjur inni í göngunum sem eru að díla við sig sjálfar og náttúruna, smæð sína og þess háttar. Undirtónninn er maðurinn í hamfarahlýnuninni. Hvernig við höfum skapað okkur það umhverfi og hvernig við dílum við það,“ segir hann.

„Við fáum að fylgjast með manneskjum ganga í gegnum ýmsa hluti inni í göngunum. Það er spurning hvort þær geti horfst í augu við sjálfa sig og tekist á við stóra vandamálið. Eða hvort heimurinn hrynur ofan á þær.“

Þetta er heimsendir

Spurður hvers vegna hann hafi valið að gera verk um hamfarahlýnun segir Karl: „Þetta er náttúrulega heimsendir. Það er ekkert flóknara en það. Ekki heimsendir jarðarinnar heldur heimsendir okkar. Svo ég spyr nú bara: Hvernig er hægt að gera verk sem fjallar ekki um hamfarahlýnun? Ég held að það verði endurkoma stóra sannleiksins. Hann er mættur. Það er alla vega mín skoðun, að öll verk hljóti að snúast um manneskjuna í samhengi við náttúruna á næstu árum.“

Verkinu er lýst sem „tilvistarlegum gleðileik“ og aðspurður segir Karl að þeim þyki sjálfum verkið mjög fyndið. „Við erum alla vega búin að hlæja okkur máttlaus. Við erum að skoða grátbroslegu hliðarnar á þessum aðstæðum sem við erum búin að koma okkur í.“

Leikhópurinn Verkfræðingar stendur að sýningunni. Aðalbjörg Árnadóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson flytja verkið, Júlíana Lára Steingrímsdóttir sér um leikmynd og búninga og Ólafur Ágúst Stefánsson sér um ljósahönnun. Tónlist og hljóðheimur verksins er í höndum Gunnars Karels Mássonar og Björn Snorri Rosdahl vinnur grafíska hönnun fyrir verkið.

„Ég ákvað bara að hóa í bestu vini mína. Þetta er fólk sem ég hef unnið mikið með í hópunum 16 elskendur og Sómi þjóðar. Þetta er eiginlega samruni þeirra tveggja. Þetta er fólk sem ég vissi að hefði áhuga á þessu og væri til í að gera rugl. Við erum að gera mjög mikið rugl, skemmtilegt rugl,“ segir Karl. „Þetta er samsköpunarverkefni sem ég leiði, er listrænn stjórnandi yfir. Ég kem með innlegg inn í þetta og hugmyndafræðilegan grunn og svo búa þau til töfrana.“

Hættur í listinni

Heiti hópsins er viðeigandi. „Verkfræðingar? Já, við erum sérfræðingar í að búa til verk. Svo er ég með persónulegar tengingar inn í verkfræðiheiminn. Ég ólst eiginlega upp með annan fótinn á verkfræðistofu. Pabbi minn var verkfræðingur og mamma var bókasafnsfræðingur á verkfræðistofu, svo að ég hef alltaf verið hugfanginn af þessum heimi,“ segir hann.

Eru verkfræðingar kannski markhópurinn? Áttu von á mörgum á sýninguna?

„Já, biddu fyrir þér. Verkfræðingar fara almennt frekar mikið í leikhús og við erum að fá stóran hóp frá VSÓ Ráðgjöf, annan stóran frá Verkís og svo kemur hópur frá Íslenskum aðalverktökum.“

Spurður um hvað hann sé annars að fást við þessa dagana segist hann hafa sagt upp starfi sínu við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og snúið sér að öðru.

„Ég er nýbúinn að taka algjöra u-beygju í mínu lífi. Þetta er það síðasta sem ég geri í listinni. Ég er kominn á fullt í trésmíðina og vinn við endurgerð á gömlum timburhúsum.“

En er útséð um að þú snúir einhvern daginn aftur í leikhúsið?

„Aldrei að segja aldrei.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir