Jón Stefánsson (1881-1962) Sumarnótt, lómar við Þjórsá, 1929 Olíumálverk 100x130 cm
Jón Stefánsson (1881-1962) Sumarnótt, lómar við Þjórsá, 1929 Olíumálverk 100x130 cm
Fjallið, fjallið eina, oftast sett á miðjan myndflötinn, má segja að hafi verið rauði þráðurinn í listsköpun Jóns Stefánssonar. Jón hafði verið þrjú ár í verkfræðinámi í Kaupmannahöfn þegar hann ákvað að gerast listmálari og hóf listnám, fyrst í…

Fjallið, fjallið eina, oftast sett á miðjan myndflötinn, má segja að hafi verið rauði þráðurinn í listsköpun Jóns Stefánssonar. Jón hafði verið þrjú ár í verkfræðinámi í Kaupmannahöfn þegar hann ákvað að gerast listmálari og hóf listnám, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París, þar sem hann var meðal nemenda Henris Matisse. Glíman við myndflötinn átti hug hans allan en hann leitaði eftir klassísku samræmi í túlkun sinni á íslensku landslagi og því var það ekki nákvæm eftirmynd landsins sem Jón leitaðist við að fanga, heldur frekar fegurðin á fletinum. Helstu einkenni verka hans eru þaulhugsuð myndbygging og sterk formmótun. Leitin að hinu fullkomna samræmi forma, línu og litar, sem magnaði inntak verksins, var sú krafa sem hann gerði til sín sem listmálara.

Í verkinu Sumarnótt, lómar við Þjórsá, sem víða var til í eftirprentum á íslenskum heimilum á seinni hluta síðustu aldar, túlkar Jón kyrrð íslensku sumarnæturinnar og leggur áherslu á hið kyrrstæða og algilda en myndin hefur jafnframt yfir sér blæ upphafningar. Láréttar línur landsins og samhverf myndskipanin með trapisulaga fjallið fyrir miðri mynd ásamt lóðréttum línum fuglanna skapa ró og kyrrð sem rofin er með skálínu sem goggur annars fuglsins myndar. Kunnugir segja fjallið vera Skarðsfjall og álykta jafnvel að málarinn hafi fyrst og fremst af myndrænni nauðsyn látið skarðið vera sýnilegt í spegilmynd fjallsins. Hér ríkir jafnvægi milli spennu og kyrrðar þar sem hlutfallalögmál gullinsniðsins, sem um aldir var talið einkenna klassíska og vel mótaða myndbyggingu, liggur til grundvallar.

Jón Stefánsson bjó til skiptis á Íslandi og í Danmörku en eftir sem áður var íslensk náttúra höfuðviðfangsefni hans og Danir kölluðu hann Islands store maler.