Til fósturjarðar Úkraínskur hermaður brestur í grát eftir að hafa verið leystur úr haldi óvinarins í fangaskiptum Rússa og Úkraínumanna í gær.
Til fósturjarðar Úkraínskur hermaður brestur í grát eftir að hafa verið leystur úr haldi óvinarins í fangaskiptum Rússa og Úkraínumanna í gær. — AFP/Forsetaskrifstofa Úkraínu
Rússar og Úkraínumenn greindu frá því í gær að þeir hefðu skipst á föngum í fyrsta skipti síðan Iljúsjín Il-76-herflutningavél…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Rússar og Úkraínumenn greindu frá því í gær að þeir hefðu skipst á föngum í fyrsta skipti síðan Iljúsjín Il-76-herflutningavél rússneska hersins var skotin niður yfir rússneska héraðinu Belgorod í síðustu viku.

Greinir rússneski herinn frá því að hvor nágrannaþjóðanna hafi fengið 195 af sínum hermönnum til baka úr haldi en Volódímír Selenskí Úkraínuforseti kveður samtals 207 hermenn og almenna borgara hafa snúið aftur til Úkraínu.

Miklar viðsjár voru vaktar með þjóðunum – sem þegar eiga þó í stríði – í kjölfar þess er vélin fórst og kenndu Rússar Úkraínumönnum um að hafa skotið hana niður með tveimur flugskeytum. Kallaði rússneski utanríkisráðherrann Sergey Lavrov aðgerðina hryðjuverk en Úkraínumenn hafa hvorki játað né neitað að hafa grandað vélinni.

Muni njóta aðhlynningar

Sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti í gær að Patriot-loftvarnakerfi Úkraínumanna hefði grandað vélinni og hefði það verið handvömm af þeirra hálfu, þar sem um borð í vélinni hefðu verið 65 úkraínskir stríðsfangar á leið í fangaskipti. Auk þeirra hefðu níu Rússar verið um borð og allir 74 farist.

Hafa Úkraínumenn dregið frásögnina af stríðsföngunum í efa en bæði ríkin hafa krafist alþjóðlegrar rannsóknar á atvikinu. Fram til þessa hefur ekkert fengið staðfest um hverjir í raun voru um borð í Iljúsjín-vélinni þegar hún hrapaði til jarðar í Belgorod.

Greindi rússneska varnarmálaráðuneytið frá því í stuttri tilkynningu í gær að ákvörðun hefði verið tekin um skiptin í kjölfar samningaviðræðna við stjórnina í Kænugarði. „Hermennirnir sem nú verða leystir úr haldi verða fluttir með herflutningavél [...] til Moskvu í læknismeðferð og endurhæfingu,“ sagði þar.

Birti ráðuneytið myndskeið sem það kvað sýna rússneska hermenn stíga um borð í langferðabifreið og bætti því við að hermennirnir hlytu nú nauðsynlega aðhlynningu, andlega sem líkamlega, og hefðu Sameinuðu arabísku furstadæmin komið að samningaviðræðunum um fangaskipti þjóðanna.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson