Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við undirritaðir höfðum beðið Umboðsmann Alþingis um að hann beitti sér fyrir að leiðrétt yrði fyrir tvískattlagningu á lífeyrisgreiðslum okkar.

Jón Friðberg Hjartarson og Þorsteinn Þorsteinsson

Nýlega féll dómur Hæstaréttar um að ekki þyrftu 260 æðstu embættismenn ríkisins að endurgreiða ofgreidd laun vegna mistaka við útreikning þeirra sem fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hafði gert kröfu um og fólu í sér endurgreiðslu að upphæð 551.120 kr. og lækkun launa á mánuði þar eftir að upphæð 34.174 kr. fyrir hvern þeirra. Hæstiréttur ályktaði sig vanhæfan vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra. Því varð Hæstiréttur að kalla þá að dómi, sem hæstiréttur taldi hæfa, alls fimm manns, sem höfðu mikla reynslu að baki sér í lögfræðistörfum og fjölbreytta til að fella dóm. Heildarkostnaður almennings í landinu gæti numið 261.114.000 kr. fyrsta árið eftir dómsuppkvaðningu ef dómarar fá sömu laun og verjandi eða alls aðeins 16 hundruð þúsund rúm á mánuði.

Erfitt getur verið að átta sig á krónunni sífallandi í verðbólgunni og er því ef til vill betra að átta sig á umfanginu með því að miða við verð á blóðmörskeppum. Krafan var að upphæð sú sama og jafngildir 428.056 blóðmörskeppum sem vega 1,99 tonn og sést þá að um verulega upphæð er að ræða. Með dómnum verða kaflaskipti í sögu launabaráttu á Íslandi og ljóst varð hversu mikilvægt það er að vera auðtrúa, taka á móti launum sínum í góðri trú um að þau séu ekki ákvörðuð með reiknisafglöpum, svindli, gervigreind eða af handahófi og þó svo væri, væru þau verðskulduð og sama mætti vera af hvaða rót þau kæmu.

Undirritaðir höfðu beðið umboðsmann Alþingis um að hann beitti sér fyrir að leiðrétt yrði fyrir tvískattlagningu á lífeyrisgreiðslum okkar á árunum 1988-1995 og var settur til verksins Kjartan nokkur B. Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands, sem vísaði erindi okkar á bug, en lagði fram kröfu um að ofgreiddum launum sinnar stéttar yrði ekki skilað (sbr. forsíðugreinar í Mbl.). Athyglisvert er að ekki er tekið beinlínis á athugasemdum Bjarna Benediktssonar um að það feli í sér siðferðisbrest að hafna kröfunni um endurgreiðslu ofgreiddra launa. Sama má segja um að hafna að leiðrétta vangreidd laun. Við undirritaðir teljum að hér eftir sé ráðlegt að taka allt með fyrirvara og af tortryggni og að stofnanir ríkisins séu vanda sínum vaxnar nú á tímum nýlendusköpunar á Íslandi þar sem íbúar þessa lands eru skikkaðir til að greiða fyrir einangrun húsa í Slóvakíu, og til stendur að við Íslendingar verðum að greiða skatta til Evrópusambandsins fyrir flugsamgöngur til og frá okkar landi. Hugmyndir um skattlagningu á nýlendum hafa um langan tíma verið á kreiki í Brusseli frá tímum kóngs Leopolds II. Það mætti vera öllum þingmönnum ljóst að ekki verður við það búið að ekki megi leiðrétta mistök þá framin hafa verið. Einfaldast væri að vísa svona máli til þjóðaratkvæðis eða borgaraþings, væri þess kostur (sbr. grein í Mbl. 22.09.23).

Okkur þykir tími til kominn að Alþingi láti þessi mál til sín taka og veiti fjármálaráðherra heimild til að leiðrétta augljós afglöp við afgreiðslu launa og felli úr gildi þennan dóm Hæstaréttar, því Hæstiréttur er hvorki réttur aðili til að skattleggja íbúa þessa lands án málefnalegs tilefnis né að koma í veg fyrir að rétt skal vera rétt.

„Gamansemi er ekki afsal nokkurrar alvöru.“

Jón Friðberg er fyrrverandi skólameistari FNV og landsdómari. Þorsteinn er fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ.