Guðmundur Ingi Þóroddsson
Guðmundur Ingi Þóroddsson
Erlendir ríkisborgarar eru gjarnan lengur í gæsluvarðhaldi en Íslendingar, fyrir svipaða glæpi, og dvelja þar meðan mál þeirra eru í dómskerfinu, segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Erlendir ríkisborgarar eru gjarnan lengur í gæsluvarðhaldi en Íslendingar, fyrir svipaða glæpi, og dvelja þar meðan mál þeirra eru í dómskerfinu, segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga. Á dögunum birti Morgunblaðið tölur frá Fangelsisstofnun þar sem fram kom að 75% þeirra sem settir voru í gæsluvarðhald á árinu 2023 voru erlendir ríkisborgarar.

„Í flestum tilfellum eru þetta svokölluð burðardýr í smyglmálum og er þá nokkurn veginn vitað hversu þungan dóm þau munu fá [ef um tiltölulega lítið magn er að ræða]. Í mörgum tilfellum eru þetta konur og án efa eru margar þeirra fórnarlömb mansals. Þegar Íslendingar eru handteknir, grunaðir um svipuð brot, er þeim gjarnan sleppt úr haldi enda er ekki hægt að fara fram á gæsluvarðhald nema vegna rannsóknarhagsmuna eða viðkomandi sé talinn hættulegur samfélaginu,“ segir Guðmundur.

Ef tekið er á málum með þessum hætti sem Guðmundur lýsir er verið að mismuna eftir þjóðerni. Hann bendir hins vegar á að staðan sé einfaldlega þannig að fá úrræði séu í boði til að hýsa þessa erlendu ríkisborgara.

„Þetta fólk getur verið 6-9 mánuði að bíða eftir dómi og stundum lengur. Tekin er ákvörðun um að hafa það áfram í gæsluvarðhaldi og þegar dómurinn fellur er það búið að afplána stóran hluta dómsins í gæsluvarðhaldinu. Er því gjarnan vísað úr landi í framhaldinu. Íslendingunum er fljótlega sleppt í sambærilegum málum og taka dóminn út í samfélagsþjónustu en afplána ekki í fangelsi. Ef dómari setti útlendingana í farbann á meðan beðið er dóms, og þeim væri sleppt úr gæsluvarðhaldi, yrði lífið nokkuð flókið fyrir þetta fólk. Það býr þá í herbergi á einhverju gistiheimili og fær styrk fyrir mat. Það bíður þá við þær aðstæður í tæpt ár og fer þaðan í fangelsi þegar dómurinn fellur. Allir þurfa að vera jafnir fyrir lögunum og við myndum vilja sjá þetta fólk eiga kost á því að vinna í farbanninu og sinna samfélagsþjónustu.“