Sigurvegarinn Eyjólfur Hafsteinsson bakari hjá Bakarameistaranum sigraði í keppninni „Brauð ársins“ í ár með trefjaríku, mjúku og safaríku brauði með stökkri, góðri og bragðmikilli skorpu.
Sigurvegarinn Eyjólfur Hafsteinsson bakari hjá Bakarameistaranum sigraði í keppninni „Brauð ársins“ í ár með trefjaríku, mjúku og safaríku brauði með stökkri, góðri og bragðmikilli skorpu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann hafði aldrei í huga að gerast bakari og segir að það hafi verið hálfgerð tilviljun að hann prófaði það. Hann hefur blómstrað í faginu og hefur alltaf jafn gaman af starfi sínu. Eyjólfur er Keflvíkingur í húð og hár og hóf nám í bakaraiðn árið…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Hann hafði aldrei í huga að gerast bakari og segir að það hafi verið hálfgerð tilviljun að hann prófaði það. Hann hefur blómstrað í faginu og hefur alltaf jafn gaman af starfi sínu.

Eyjólfur er Keflvíkingur í húð og hár og hóf nám í bakaraiðn árið 1979 hjá Ragnari Eðvaldssyni bakarameistara, sem er eigandi og stofnandi Ragnarsbakarís í Keflavík. Sveinsprófið tók hann árið 1983 og fékk meistararéttindi árið 1987. „Frá árinu 1988 til 2013 rak ég mitt eigið bakarí, Nýja Bakaríið í Keflavík. Síðan fór ég um tíma út á land og starfaði í veisluþjónustu og loks lá leið mín hingað í Bakarameistarann þar sem ég hef starfað í tvö og hálft ár,“ segir Eyjólfur.

Hafði aldrei í huga að gerast bakari

„Ég hafði aldrei í huga að gerast bakari en lífið leiðir mann stundum í ákveðnar áttir og fyrir hálfgerða tilviljun fór ég og prófaði og líkaði vel. En þegar ég var yngri, á bernskuárunum, þótti mér reyndar mjög gaman að hjálpa móður minni í eldhúsinu. Hún bakaði mikið, enda fullt af börnum á heimilinu og með því að aðstoða hana tryggði ég mér alltaf fyrsta diskinn af því sem kom úr ofninum,“ segir Eyjólfur og hlær.

Baksturinn heillar Eyjólf ávallt jafn mikið og ástríðan er til staðar. „Það sem er svo skemmtilegt við bakstur er að sjá fullt af hráefnum sem þú tekur saman geta orðið að dýrindis kræsingum. Oftast gengur baksturinn vel en það er þó svo að hversu góður sem þú ert í faginu geta hlutir svo sem alveg farið á verri veg. Hvað innblástur að einhverju nýju varðar, þá er það stundum eitthvað sem poppar upp í kollinum og kallar á þig að reyna þig við og auðvitað stundum eitthvað sem annar fagmaður er að gera og þá reynir þú bara að setja þitt handbragð á vöruna og gera hana að þínu.“

Trefjaríkt, mjúkt og safaríkt með góðri skorpu

Aðspurður segir Eyjólfur að hvað „brauð ársins“ varðar hafi það komið óvænt upp í hugann og tilraun með hráefnið tókst í fyrstu eða annarri atrennu. „Ég vildi hafa brauðið hæfilega trefjaríkt, mjúkt og safaríkt en með stökkri, góðri og bragðmikilli skorpu, sem tókst. Brauðið inniheldur spírað rúgkorn með smá maltkeim og íslenskt bygg frá Móður náttúru ásamt sesam og ögn af hunangi sem gefur aukið jafnvægi í brauðið og fallega skorpu. Ég veit ekki hver er leyndardómurinn á bak við „brauð ársins“ því þá myndi ég ávallt sigra en ég held að það velti svolítið á dagsformi þess tíma sem keppnin fer fram. Brauð sem sigrar í dag myndi ekki endilega sigra á morgun,“ segir Eyjólfur og brosir.

Eyjólfur borðar mikið brauð og á sitt uppáhaldsálegg sem hann setur á það. „Dagsdaglega finnst mér best að vera með klassíska samsetningu ofan á brauð. Ég vil ristað, gróft brauð með smjöri, osti og góðri sultu. En ef ég ætla að gera vel við mig þá tek ég gott óskorið brauð, að þessu sinni „brauð ársins“, sker þykkar sneiðar, smjörsteiki á pönnu og set á það fíkjusultu, parmaskinku og brie-ost á milli. Algjört lostæti þessi lúxussamloka með glasi af góðu rauðvíni með,“ segir Eyjólfur og lætur sig dreyma. „Að lokum langar mig til að hvetja alla til að fara út í næsta bakarí sem selur „brauð ársins“ og smakka,“ segir Eyjólfur.