Best Jodie Foster sagði Ólafíu vera bestu leikkonu í heimi.
Best Jodie Foster sagði Ólafíu vera bestu leikkonu í heimi. — Morgunblaðið/Golli
Dagskráin hjá leikkonunni Ólafíu Hrönn Jónsdóttur er þétt núna, en hún æfir stíft fyrir söngleikinn Frost, var á skjám landsmanna í IceGuys og Kennarastofunni og lék á móti Jodie Foster í þáttunum True Detective

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Dagskráin hjá leikkonunni Ólafíu Hrönn Jónsdóttur er þétt núna, en hún æfir stíft fyrir söngleikinn Frost, var á skjám landsmanna í IceGuys og Kennarastofunni og lék á móti Jodie Foster í þáttunum True Detective. En þetta er ekki nóg, því einnig er hún í námi í húsasmíði sem hún hyggst útskrifast úr næsta vor.

„Frost verður rosalega flott, það eru miklar dansæfingar sem fara fram. Handritið er þannig að það er ekki dauður punktur en tónlistin er líka svo skemmtileg og falleg í þessu,“ segir hún.

Þættirnir Kennarastofan hafa einnig slegið í gegn, en þar leikur hún Gunnþórunni skólaritara. Hún segir brúnkuna hafa farið full hratt af en hún hafi þó fengið furðulegt augnaráð frá fólki þegar hún var sem mest. „Eftir að maður fer í svona brúnku má ekki fara strax í sturtu. Það var eins og ég hefði verið dregin upp úr drullu. Ég fór í Ikea og augnaráðið sem ég fékk frá fólki,“ segir hún og hlær.

Besta leikkona í heimi

Stöðuna á íslensku sjónvarpsefni telur hún góða, það sé mikið líf og framleiðsla en einnig útlend verkefni að koma til landsins. Þá er hún aðallega að tala um þættina True Detective með Jodie Foster í aðalhlutverki. „Ég hef alltaf litið mikið upp til Jodie Foster. Hún er jafngömul mér og ég man þegar ég sá hana fyrst á tjaldi, þá var ég búin að ákveða að verða leikkona. En þegar ég sá hana sökk ég inn í hana og hún hefur alltaf skipt mig máli á skrýtinn hátt. Svo ég fylgdist vel með henni og ef ég sá hana þá drakk ég hana í mig,“ segir Ólafía. „Svo kemur hún til Íslands og ég fæ tækifæri til að vera í True Detective. Það væri lygi ef ég segði ekki að ég hefði verið rosalega spennt að hitta hana.“

Fyrstu tökurnar með henni voru í myndveri í Grafarvoginum þar sem Jodie átti að „henda henni“ í fangelsi. „Mér fannst það svo absúrd að Jodie Foster væri að henda mér í fangelsi. Eftir alla söguna, hve mikið ég leit upp til hennar. Ég og þessi leikkona og hún hendir mér inn í fangelsi. Svona þrjátíu sinnum,“ hlær hún. Það eru engir stjörnustælar að hrjá Jodie heldur eyðir hún tíma með meðleikurum sínum, segir Ólafía. „Hún er yndisleg, engir stjörnustælar. Hún er greind og það eru bara vitleysingar sem láta svoleiðis.“

Jodie sagði Ólafíu meira að segja vera bestu leikkonu í heimi. „Það er ein taka þar sem ég er að vakna í bílnum eftir að ég klessi á Jodie. Fyrsta skotið er þegar ég er að vakna. Þetta er æft svo mörgum sinnum, örugglega tuttugu sinnum, og ég er alltaf að gera þetta aftur og aftur. Loksins erum við tilbúin í tökur, ég geri nákvæmlega það sama og í hin skiptin en fæ blóðnasir,“ útskýrir hún.

„Það eina sem ég hugsa er, ég má ekki klína á hana blóði. Tíminn er svo miklir peningar í þessum bransa. Ef ég fæ blóð í minn búning eða hún í sinn erum við stopp í nokkra tíma, svo ég hugsaði, ekki klúðra þessu.“

Tökunni lauk með því að Ólafía átti að taka í Jodie en hún breytti því og þóttist bara taka í hana. Eftir tökurnar baðst hún afsökunar og sagðist hafa fengið blóðnasir. „Þá kemur hún með sína flottu rödd og segir, þú ert besta leikkona í heimi. Færð blóðnasir þegar þess er krafist,“ rifjar hún upp og hlær. „Svo að þetta fór rosalega vel af stað hjá mér.“

Draumurinn að smíða lítið hús

Ólafía nemur einnig húsasmíði og segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á því og lengi langað til að kunna það. „Ég segi það alveg satt, ef ég er að horfa á myndbönd á Youtube um hvernig eigi að byggja kofa eða gera grunn, þá er eins og ég sé að horfa á spennumynd. Mér finnst líka leiðinlegt hvað ég hef verið hrædd við þessi tæki og tól.“

Henni finnst námið skemmtilegt og hefur nú fengið svör við ýmsum spurningunum. „Þegar ég er úti að labba og sé hús hugsa ég, hver ætli hallinn sé á regnskyggninu og hvernig er það fest við húsið? Nú hef ég fengið að komast að þessu öllu.“ Draumurinn sé að smíða lítið hús sjálf hjá „litla kofanum sínum í Grímsnesi“. „Það verður fyrsta verkefnið mitt, en svo er fleira,“ hlær hún. Hún tekur náminu rólega og stefnir á að útskrifast næsta vor. „Það er ljómandi, það er ekki eins og allir séu að bíða eftir mér.“

Hægt er að hlusta á viðtalið á K100.is.