Rússar hafa gaman af að leika fórnarlömb en fórnarlömbum þeirra er ekki skemmt

Atlantshafsbandalagið hóf í liðinni viku umfangsmikla heræfingu, sem verður í tveimur hlutum og lýkur ekki fyrr en í vor. Æfingin snýst um varnir á norðurslóðum og austurvæng eins og það er orðað. Þetta er viðamesta heræfing bandalagsins síðan 1988, þegar kalda stríðið stóð enn yfir.

Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, var spurður út í þessa æfingu í gær og svaraði því til að Rússar litu á NATO sem ógn. „Auðvitað stafar okkur ógn af henni. Við bregðumst við í samræmi við það og erum í sífellu að grípa til viðeigandi ráðstafana út af henni,“ sagði Peskov og bætti við: „Bandalagið hefur fært hernaðarinnviði sína að landamærum okkar í nokkra áratugi án afláts.“

Þessa plötu hafa Rússar spilað allt frá því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti flutti fræga ræðu á öryggisráðstefnunni í München árið 2007 þar sem hann sakaði Atlantshafsbandalagið um skefjalausa útþenslu við landamæri Rússlands þvert á gefin loforð þegar járntjaldið hrundi 1989.

Þau loforð voru aldrei gefin. Rússum hefur verið í nöp við að ríki, sem áður voru austan járntjalds, skyldu ganga í NATO og Evrópusambandið og litið á það sem ögrun við sig.

Staðreyndin er sú að ekki þurfti að beita ríki, sem þá voru til eða urðu til eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur, þvingunum til að leita öryggis fyrir Rússum. Eftir að hafa verið undir járnhæl þeirra og þolað ýmsar miður skemmtilegar trakteringar gátu þau ekki beðið eftir að tryggja sig fyrir yfirgangi Rússa. Besta tryggingin var aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Bandalagið fór sér í fyrstu hægt í að fjölga aðildarríkjum, einmitt til að styggja ekki Rússa. Fór það sér reyndar mun hægar en mörg ríkin hefðu viljað. Ótti þeirra við Rússa hefur ekki minnkað og yfirgengileg innrás þeirra í Úkraínu sýnir að það er ekki að ástæðulausu.

Æfingin nú helgast af ógnandi framferði Kremlverja og tilgangurinn er ekki að ógna heldur fæla þá frá yfirgangi.