Minningarathöfn Meðal viðstaddra voru Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Avi Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Ryotaro Suzuki, sendiherra Japans á Íslandi.
Minningarathöfn Meðal viðstaddra voru Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Avi Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Ryotaro Suzuki, sendiherra Japans á Íslandi. — Ljósmynd/Pólska sendiráðið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Andúð á gyðingum hefur farið vaxandi í Evrópu á síðustu árum. Þá vekja ódæðisverk Hamas-liða í Ísrael í haust upp sárar minningar frá helförinni.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Andúð á gyðingum hefur farið vaxandi í Evrópu á síðustu árum. Þá vekja ódæðisverk Hamas-liða í Ísrael í haust upp sárar minningar frá helförinni.

Þetta kom fram á minningarathöfn um helförina í pólska sendiráðinu á sunnudag sem fram fór daginn eftir alþjóðlegan minningardag um frelsun fanga í útrýmingarbúðunum í Auschwitz-Birkenau 27. janúar 1945.

Af öryggisástæðum var athöfnin ekki öllum opin heldur aðeins fyrir boðsgesti. Meginástæðan var að mótmælendur skyldu veitast að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra í Háskóla Íslands hinn 8. desember sl. en mótmælendur kröfðust stjórnmálaslita og viðskiptabanns á hendur Ísrael. Athæfið var litið mjög alvarlegum augum af diplómötum sem Morgunblaðið ræddi við í kjölfarið.

Ræðumenn voru Avi Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, Marek Wierzbicki, prófessor við Kaþólska háskólann í Lublin, og doktor Mateusz Szpytma, aðstoðarforseti pólskrar stofnunar (IPN) sem rannsakar glæpi nasista og kommúnista gegn pólsku þjóðinni. Athöfninni stýrði Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi.

Líflátin fyrir að fela gyðinga

Eftir ræðuhöld var heimildarmyndin Saga af glæp (Historia jednej zbrodni) sýnd, en henni var leikstýrt af Mariusz Pilis. Segir hún sögu Pólverja og gyðinga sem nasistar myrtu í þorpinu Markowa í síðari heimsstyrjöldinni.

Myndin bregður birtu á að fjöldi Pólverja var reiðubúinn að hætta lífi sínu til að bjarga gyðingum frá útrýmingarbúðum nasista, en það er Pólverjum tilfinningamál að sú saga fái að heyrast. Eftir athöfnina ræddi Morgunblaðið við dr. Mateusz Szpytma og samstarfskonu hans, Blanka Kaminska-Pienkos, sem jafnframt aðstoðaði við að túlka viðtalið.

Dr. Szpytma er sagnfræðingur sem hefur starfað hjá áðurnefndri stofnun, IPN, frá aldamótum. Hann hefur rannsakað glæpi gegn Ulma-fjölskyldunni, en hann er tengdur henni fjölskylduböndum. Ræða hans á athöfninni var persónuleg, en ömmusystir hans er meðal þeirra sem fjallað er um í áðurnefndri heimildarmynd. Frásagnir af endalokum ættingja hans eru átakanlegar og eru viðkvæmir varaðir við að halda áfram lestrinum.

Nánar tiltekið skutu ömmusystir hans, Wiktoria Ulma, og eiginmaður hennar, Józef Ulma, skjólshúsi yfir gyðinga úr sitthvorri fjölskyldunni á háaloftinu á bóndabæ sínum árið 1942, í kjölfar þess að nasistar fluttu gyðinga á brott frá Markowa það ár. Brottflutningurinn var hluti af áætlun nasista um að útrýma gyðingum.

Vorið 1944 hafði lögreglumaður fengið lánað fé hjá annarri gyðingafjölskyldunni sem faldi sig á háaloftinu. Þegar fjölskyldan vildi fá endurgreitt, að því er talið er, fann hann út felustaðinn og vísaði nasistum á fjölskylduna. Nasistar umkringdu í kjölfarið bóndabæ Ulma-fjölskyldunnar, handsömuðu gyðingana átta á háaloftinu og skutu til bana áður en þeir líflétu hjónin Wiktoriu og Józef fyrir framan börnin þeirra. Því næst skutu nasistarnir börnin þeirra sex, en Wiktoria var með barni þegar hún var myrt.

Fann liðsforingjann

Dr. Szpytma rannsakaði ódæðið þegar hann var orðinn fræðimaður og bárust böndin að Eilert Dieken, sem var liðsforingi í her nasista. Dr. Szpytma hefur í myndinni upp á dóttur Dieken, sem er löngu látinn, en hún er þá á gamals aldri. Fær hún afhent skjöl í lokuðu umslagi sem sýna eiga fram á glæpi föður hennar. Henni er boðið að hafa samband við dr. Szpytma daginn eftir en hann heyrir ekki frá henni. Hún hafði alla tíð litið upp til föður síns sem gerðist lögreglumaður.

Dr. Szpytma segir aðspurður áætlað að um þúsund Pólverjar hafi verið dæmdir til dauða fyrir að liðsinna gyðingum í stríðinu.

Með lagasetningu hinn 15. október 1941 hafi það verið gert að dauðasök í Póllandi að aðstoða gyðinga. Lögin hafi svo verið hert árið 1942, en með því hafi þau orðið samsek sem bjuggu með manneskju sem aðstoðaði gyðinga. Sem sagt líka verið réttdræp.

„Samkvæmt lögunum gátu lögreglumenn ákveðið að skjóta alla fjölskylduna, ekki aðeins þá sem skotið höfðu skjólshúsi yfir gyðinga, heldur alla fjölskylduna. Og stundum skutu þeir til bana nágranna sem vissu af aðstoðinni en sögðu ekki frá henni. Þó eru ekki mörg dæmi um það,“ segir dr. Szpytma. Það hafi verið áætlað að hundrað þúsund til þrjú hundruð þúsund Pólverjar hafi aðstoðað gyðinga í stríðinu.

Vildu útrýma gyðingum

Hversu margir Pólverjar týndu lífi í stríðinu?

„Um fimmtungur Pólverja lét lífið. Við misstum sex milljónir manna og þar af var um helmingurinn gyðingar. Hlutfallslega létust 90% gyðinga í stríðinu en 10% fólks sem var af pólsku bergi brotið.“

Hvert var markmið nasista í stríðinu?

„Markmið þeirra var að tortíma samfélagi gyðinga og myrða þá alla sem einn.“

Hvers vegna?

„Vegna hugmyndafræði. Þeir sögðu gyðinga ekki menn heldur dýr. Þá væru Pólverjar hálfir menn.“

Hvers vegna?

„Vegna þess að þeir sögðu Pólverja tilheyra óæðri kynþætti og að óæskilegt væri að þeir myndu ala af sér nýja kynslóð.“

Hvaða áform höfðu nasistar í Póllandi að stríðinu loknu?

„Þeir vildu útrýma fólki og losna við sem flesta Pólverja en þó ekki alla. Þeir höfðu almenna áætlun [Generalplan Ost], sem fól í sér að flytja hluta Pólverja til Úralfjalla. Lítið brot þeirra, kannski 10%, mætti svo vera áfram í Póllandi, sem væri þá orðið hluti af Þýskalandi, og þá sem þrælar fyrir Þjóðverja. Gyðingunum skyldi útrýma en Pólverjar máttu vera þrælar.“

Ábyrgðin Þjóðverja

Rætt var við sérfræðing í heimildarmyndinni, sem sagði reynt að endurskrifa söguna. Geturðu sagt mér frá viðleitni Þjóðverja til að endurskrifa söguna hvað varðar Pólverja og gyðinga?

„Það á ekki aðeins við um Þjóðverja. Sumir sagnfræðingar vilja fjalla um að Pólverjar hafi aðstoðað Þjóðverja við að myrða gyðinga. Það voru dæmi um að Pólverjar aðstoðuðu Þjóðverja en á því bera Þjóðverjar ábyrgð. Fyrir stríðið var enginn gyðingur tekinn af lífi í Póllandi. Þjóðverjar hvöttu Pólverja til að berja gyðinga. Þeir gáfu Pólverjum sykur og korn [fyrir að vera saminnuþýðir og veita upplýsingar].“

Uppreisn Pólverja gegn nasistum í miðborg Varsjár árið 1944 er vel þekkt. En kannski eru frásagnir af fólki eins og Ulma-fjölskyldunni ekki jafn þekktar. Telurðu að heimurinn muni verða meðvitaðri um þær frásagnir?

„Það er erfitt að segja. Ég get sagt þér að þegar við sýndum þessa kvikmynd í Berlín í september í fyrra voru ekki margir í salnum. Ég skrifaði um þetta á Facebook-síðu mína. Ég sýndi myndir af sýningunni í Berlín, en þar búa fjórar milljónir manna, og svo myndir af sýningunni hér í Reykjavík þar sem um 140 þúsund manns búa. Það voru fleiri á sýningunni hér.“

Fluttir til Síberíu

Vilja Þjóðverjar ekki heyra þetta?

„Það er erfitt að segja. Ég vil ekki alhæfa en það er erfitt fyrir þá að rifja þessa atburði upp.“

Hversu margir gyðingar búa nú í Póllandi?

„Gyðingar sem sækja samkunduhús gyðinga og eru yfirlýstir gyðingar teljast vera um átta þúsund.“

Átta þúsund í Póllandi?

„Já. Þeir eru fáir, mjög fáir.“

Hvert fluttu gyðingar sem lifðu stríðið af?

„Almennt til Bandaríkjanna eða Ísraels. Það eru pólskir gyðingar um heim allan. Fyrir stríðið bjuggu fleiri gyðingar í Póllandi en nokkru ríki Evrópu og Bandaríkin voru eina landið þar sem bjuggu fleiri gyðingar. Það bjuggu um 3,3 milljónir gyðinga í Póllandi fyrir stríðið en nú teljast þeir vera um átta þúsund. Um 300 þúsund gyðingar í Póllandi lifðu stríðið af en flestir þeirra höfðu verið fluttir til Síberíu árin 1940 og 1941 [í þrælkunarvinnu].“

Hvenær byrjuðu Pólverjar að leita sannleikans um helförina?

„Þegar Pólland varð sjálfstætt lýðveldi. Eftir fall kommúnismans opnuðust skjalasöfnin og sagnfræðingar gátu fjallað um málin að vild.“

Er sannleikurinn kominn í ljós eða mun það taka lengri tíma?

„Nei. Það mun taka lengri tíma. Það er til dæmis sérstaklega óheppilegt að Ursula von der Leyen [forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins] skyldi hafa nefnt Pólland í samhengi við Auschwitz, því stundum heldur fólk sem þekkir söguna ekki vel að [útrýmingarbúðirnar] hafi verið í Póllandi. Það er vegna þess að Auschwitz var á herteknu svæði í Póllandi og Pólverjar gátu ekkert gert til að sporna gegn því að útrýmingarbúðirnar yrðu byggðar. Þetta voru slæm mistök [hjá von der Leyen] en daginn eftir var tístinu eytt.“

Urðu síðan dómarar

Það kemur fram í myndinni að Konrad Adenauer hafi talið Vestur-Þýskaland hafa þurft á fyrrverandi nasistum að halda til að byggja upp landið.

„Já. Til dæmis urðu dómarar sem dæmdu Pólverja og gyðinga til dauða í stríðinu hluti af dómskerfinu.“

Telurðu að Vestur-Þýskaland hafi ekki átt að ráða fyrrverandi nasista?

„Já, en með undantekningum.“

Er gyðingaandúð á uppleið í Póllandi?

„Hún fer vaxandi um alla Evrópu.“

Hvers vegna?

„Það er erfitt að segja. Hins vegar nefna margir atburðina á Gasa.“

Hvað skýrir gyðingaandúð í Evrópu ef Gasa er frátalið?

„Ein ástæðan er aðflutningur múslíma sem eru andvígir gyðingum.“

Pólverjar hafa gengið í gegnum mjög erfiða tíma. Fyrst nasismann og svo Sovéttímann. Það hefur verið ráðist inn í landið og landamærin hafa breyst. Hefur pólska þjóðin náð sér?

„Já. Við höfum verið sjálfstæð þjóð í 35 ár, eftir svo erfiða tíma. Það sýnir að pólska þjóðin er mjög sterk, enda tel ég að önnur þjóð hefði ekki komist af eftir árásir úr austri og vestri,“ segir dr. Szpytma að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson