Fagur og fiðraður Auðnutittlingurinn er tíður gestum í görðum landans.
Fagur og fiðraður Auðnutittlingurinn er tíður gestum í görðum landans. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Ég kíkti reyndar bara um helgina þegar tölurnar voru að koma inn og þá voru þetta um 100 manns sem voru búnir að skila inn skráningum

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Ég kíkti reyndar bara um helgina þegar tölurnar voru að koma inn og þá voru þetta um 100 manns sem voru búnir að skila inn skráningum. Ég tel að þó nokkuð margir eigi eftir að senda inn,“ segir Ólafur Einarsson, doktor í fuglafræðum, spurður að því hvernig hin árlega garðfuglatalning Fuglaverndar, sem fram fór um helgina, hafi gengið. Hann hefur haldið utan um talninguna síðan hún fór fyrst fram árið 2014.

Segir Ólafur að framkvæmd athugunarinnar sé einföld. Fólk fari út í garð í klukkustund og skrái hjá sér hvaða fugla það sjái og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Þá er einungis verið að tala um þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. Þeir sem ekki hafa garð til umráða hafa hins vegar verið hvattir til að koma sér fyrir í almenningsgarði og telja þar.

Fjölgun milli ára

Segist Ólafur hafa vonast til að ná yfir 100 skráningum í ár þar sem þátttakan í fyrra hafi verið ansi dræm en þá skiluðu um 50 manns inn skráningum. „Núna seinni árin hefur fólk alls staðar að af landinu verið að taka þátt. Það var lengi vel þannig að það var enginn þátttakandi á Vestfjörðum, af einhverjum ástæðum, en þeir eru komnir inn núna,“ segir hann.

Inntur eftir því hvort einhverjir óvanalegir fuglar sjáist almennt í þessum athugunum segir hann svo vera. „Jú, það sést nú alltaf eitthvað af þeim. Sjálfur sá ég til að mynda glóbrysting, sem er svona flækingsfugl, um helgina,“ segir hann og tekur fram að gott sé að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. „Við höfum einmitt mælt með því að fólk setji út eitthvert fóður og auðvitað vonast til þess í leiðinni að fólk fengi aukinn áhuga og héldi þá áfram að fylgjast með fuglunum og fóðra þá.“

En hvaða fugl skyldi vera algengastur í þessum athugunum? „Svartþrösturinn er svolítið búinn að taka yfir, en hann var ekki reglulegur varpfugl hér á landi fyrr en upp úr aldamótunum síðustu. Svo er auðnutittlingurinn eiginlega kominn í staðinn fyrir snjótittlinginn.“