Langreyður Lög í eyrnamerg skíðishvala nýtast við aldursgreiningu.
Langreyður Lög í eyrnamerg skíðishvala nýtast við aldursgreiningu. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Hægt er að nota geislakolefni frá kjarnorkusprengjum til að staðfesta aldur langreyða og er það staðfest í nýrri rannsókn sem dr. Guðjón Már Sigurðsson,…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Hægt er að nota geislakolefni frá kjarnorkusprengjum til að staðfesta aldur langreyða og er það staðfest í nýrri rannsókn sem dr. Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er höfundur að ásamt þeim Sigríði Völu Finnsdóttur og Steven E. Campana.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar. Segir þar að rannsóknin sýni fram á þetta með óyggjandi hætti en ekki sé aðeins óvenjulegt að nýta kjarnorkusprengjur í þessum tilgangi, því einnig sé óhefðbundið að eyrnamergur hvalanna sé mældur, en það er hann sem staðfestir aldur hvalanna.

Segir að mjög erfitt hafi reynst að meta aldur skíðishvala, ólíkt flestum öðrum hópum hryggdýra. Yfirleitt sé hægt að nota tennur til aldursgreiningar spendýra, en þær eru ekki til staðar hjá skíðishvölum. Því hafa lög í eyrnamerg hvalanna verið nýtt til aldursgreiningar, en hingað til hefur ekki verið hægt að staðfesta öryggi þeirrar aðferðar við aldursgreiningu.

Í þeirri rannsókn sem hér um ræðir var geislakolefni greint í eyrnamerg þriggja langreyða sem veiddar voru við Ísland og staðfestist þar að hægt er að nota lög í mergnum til að greina aldur dýranna, þar sem skýrar breytingar hafi orðið fyrir um 60 árum í magni geislakolefnis. Þær urðu vegna tíðra prófana á kjarnorkusprengjum sem náðu hámarki á sjötta og sjöunda tug síðustu aldar, en prófanirnar urðu til þess að magn geislakolefnis í andrúmsloftinu jókst um 100%. Þessi aukning sem varð fyrir um 60 árum sýndi að hvalirnir sem rannsakaðir voru voru á bilinu 65-85 ára gamlir og því elstu skíðishvalir sem rannsakaðir hafa verið, og aldur þeirra staðfestur. Þessar niðurstöður eru sagðar styðja eldri möt á aldri skíðishvala sem byggð voru á lögum í eyrnamerg, sem sýna að langreyðar geti orðið allt að 114 ára gamlar.

Með aukningu geislakolefnis í andrúmslofti af völdum tilrauna með kjarnorkusprengjur fór það fljótlega í heimshöfin og í lífverur þar og þannig er unnt að nýta aukningu í geislakolefni til að staðfesta aldur kórala og sumra langlífra fiska, auk skíðishvala.