Skáldsaga „Lokasuðan er ein af bestu sögum sem hér komu út á liðnu ári,“ segir rýnir um verk Lindgrens.
Skáldsaga „Lokasuðan er ein af bestu sögum sem hér komu út á liðnu ári,“ segir rýnir um verk Lindgrens. — Ljósmynd/Jarvin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Lokasuðan ★★★★★ Eftir Torgny Lindgren. Sæmundur, 2023. Mjúkspjalda, 269 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Í upphafi Lokasuðunnar stendur 53 ára gamall fréttaritari í afskekktri sænskri sveit við skrifpúlt sitt og skrifar enn eina blaðafregnina um viðburði í héraðinu fyrir landsmálablaðið sem hann vinnur fyrir. Einungis tvö ár eru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og nú vinnur hann að pistli um dularfullan þýskan mann sem hefur komið sér fyrir í sveitinni, en þá berst fréttaritaranum bréf frá aðalritstjóra blaðsins. Og þar er honum sagt samstundis upp störfum og ástæðan, segir ritstjórinn: „Í ljós hefur komið að fregnir yðar eru, í sannleika sagt, rakalaus þvættingur. Sá veruleiki sem þér virðist lýsa er einfaldlega hugarburður, uppspuni og tilbúningur“ (10). Hann segir að það fólk sem fréttaritarinn hafi látið fæðast, eiga afmæli, ganga í hjónaband og ef svo vildi til jafnvel deyja, hafi aldrei gengið um grundir. „Þegar að er gáð finnst mér jafnvel kynlegt ef ekki beinlínis ósennilegt að þér hafið verið til sjálfur,“ skrifar ritstjórinn reiður og bannar fréttaritaranum að skrifa eina einustu línu í viðbót. Og fréttaritarinn varð við því, setti skrifpúlt sitt og minnisblokk inn í búr, og það varð svo sannarlega bið á því að hann skrifaði aftur – þótt hann hafi iðulega samið varnarskjal í huganum. Í því var kjarninn sá að sannleikurinn sjálfur ætti sér enga raunverulega tilvist, og að hann hefði skrifað fyrir sitt fólk, í sinni sveit sem honum hafi verið trúað fyrir. Og að þegar ritstjórinn sagði honum upp hefði verið von á tveimur mikilvægum pistlum frá honum, um ókunnugan mann sem birtist í sveitinni og svo hina ofurskæðu berkla sem herjuðu á íbúana. En þeir verða ekki skrifaðir fyrr en mörgum áratugum síðar, þegar höfundurinn er orðinn fjörgamall en hefur sigrast á ellinni – og þá listilega fléttuðu og stórskemmtilegu frásögn lesum við í þessari bók.

Torgny Lindgren (1938-2017) var eitt fremsta sagnaskáld Norðurlanda á seinni hluta tuttugustu aldar, dáður fyrir framúrskandi stíl og fjölbreytileg verk, ljóð, skáldsögur og leikrit; hann hlaut ýmsar viðurkenningar í heimalandinu og sat í rúman aldarfjórðung í Sænsku akademíunni. Hvað þekktastur er hann fyrir sögurnar sem gerast í sveitum Vesturbotns, þaðan sem hann var sjálfur. Fjórar sagnanna sagði Lindgren mynda heild; Hannes Sigfússon skáld þýddi þá fyrstu fyrir alllöngu, Randafluguhunang, hún kom á íslensku árið 1997, en Heimir Pálsson hefur þýtt tvær þær næstu í bálkinum Norrlands Akvavit, sem kom á íslensku fyrir tveimur árum, og nú Lokasuðuna. Þýðingar Heimis eru afar vandaðar og skila stílgaldri Lindgrens og margbreytilegum röddum persóna hans mjög vel.

Fyrir miðju þriðju persónu frásagnarinnar er gamli maðurinn á vistheimili aldraðra sem aftur er tekinn til við skriftir og rifjar upp löngu liðna atburði í sveitinni. Þeir hverfast um komu tveggja manna sem setjast þar að, þýsks farandsölumanns og barnakennara. Aðkomumennirnir tengjast gegnum ást sína á samsöng og ekki síður á svokölluðu slengi, kæfu sem er gerð með einstökum hætti á hverjum einasta bæ og þeir leggja á sig að rannsaka og bera saman. Á flakki þeirra um sveitina kynnast lesendur kostulegum og listavel mótuðum karakterum – meðal annars höfundi sögunnar ungum, auk sögumannsins sjálfs. Og svo er það ungi hann, Bertil, ungur og óræður, sem alls staðar skýtur upp kollinum, eins konar sögumiðlari og söguvitund, en hann er líka með hnífa og þegar slík eggvopn birtast í sögu þá þarf, rétt eins og með byssu Tsjekhovs, að nota þau. Þessi margbrotna saga er nefnilega ekki bara um kæfu og söng, tortryggni gagnvart ókunnugum og sínálægan dauða vegna berklanna, heldur er þetta líka saga um glæp, ástir og afbrýði, og meira að segja fjársjóðsleit. Allt klassísk viðfangsefni sagnaritara, eins og gamla mannsins sem er látinn segja frá í þessari sögu sem Lindgren fellir með hrífandi hætti inn í sænsku sveitina.

Lokasuðan er ein af bestu sögum sem hér komu út á liðnu ári, skrifuð af mikilli en að því er virðist áreynslulausri íþrótt þrautþjálfaðs og frumlegs sagnaþular. Hún er listavel byggð og sýnir að sá sem skrifar, eins og fréttaritarinn sem sagt er upp störfum fyrir að búa til heima en segja ekki staðfestan sannleika, skapar líf og fólk sem verður raunverulegt ef sagan er einfaldlega vel sögð. Nú þarf Heimir Pálsson að ljúka við að þýða fjórleik Lindgrens, því frásögnin um Biblíu Dorés þarf að fylgja hinum þremur.