Brentford Hákon Rafn Valdimarsson með markmannstreyju Brentford eftir að hann skrifaði undir samning til 2028 við úrvalsdeildarfélagið.
Brentford Hákon Rafn Valdimarsson með markmannstreyju Brentford eftir að hann skrifaði undir samning til 2028 við úrvalsdeildarfélagið. — Ljósmynd/Brentford
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is „Það er frábær tilfinning að vera kominn í ensku úrvalsdeildina,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

England

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Það er frábær tilfinning að vera kominn í ensku úrvalsdeildina,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

„Það er gríðarlega gaman og Brentford er frábært félag. Æfingaaðstaðan hérna er geggjuð og frábært fólk í kringum félagið, allt starfsfólkið.

Það eru geggjaðir leikmenn hérna þannig að það er frábært að vera mættur,“ hélt Hákon, sem er 22 ára Seltirningur, áfram.

Hann var á dögunum keyptur til Brentford frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg á 2,6 milljónir punda, tæplega 450 milljónir íslenskra króna, og skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning, til sumarsins 2028.

Mikil breyting fyrir mig

Hvernig hafa fyrstu dagarnir verið hjá Brentford?

„Þeir hafa verið mjög góðir. Það er gaman að sjá hvað þetta er allt stórt hérna. Það er mikil breyting fyrir mig að fara frá Elfsborg í Brentford, hvað aðstöðu og fjölda starfsfólks í kringum liðið varðar.

Svo hafa síðustu æfingar verið mjög góðar og það er geggjað að vera byrjaður að æfa með liðinu,“ sagði Hákon.

Eftir frábæra frammistöðu með Elfsborg á síðasta tímabili, þar sem hann var útnefndur besti markmaður sænsku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa haldið marki sínu oftast hreinu og verið með hæst hlutfall varðra skota, sýndi fjöldi félaga Hákoni áhuga í janúar.

Villa og Köbenhavn áhugasöm

Þeirra á meðal voru Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og Danmerkurmeistarar FC Köbenhavn. Bæði lögðu þau fram tilboð í markvörðinn en sagði hann þær þreifingar ekki hafa verið komnar mjög langt á veg.

„Ekkert eitthvað svakalega langt, það var bara góður áhugi. Það var líka mjög spennandi og gaman að það skyldi vera áhugi frá mörgum liðum. Það sýnir bara að maður stóð sig vel á síðasta tímabili. Þetta var ekki komið neitt það langt á veg. Það var áhugi og það var bara gaman.“

Brentford bætir leikmenn

Spurður hvað hafi heillað hann mest við Brentford sagði Hákon:

„Það að hafa talað við markvarðaþjálfarann, þjálfarann [knattspyrnustjórann Thomas Frank] og þá sem vinna með þeim um það hvernig þeir vinna sem félag með það að markmiði að bæta leikmenn.

Hvernig við getum unnið saman til þess að ég verði betri markvörður og muni verða góður markvörður í ensku úrvalsdeildinni í framtíðinni.“

Er búið að fara yfir hver plön Brentford eru fyrir þig?

„Já, já, alveg þannig. En akkúrat núna er planið að komast inn í liðið og bæta sig með hverjum deginum.

Að aðlagast hraðanum og gæðunum sem eru hér. Á þessari stundu er planið að bæta sig með hverri æfingunni,“ sagði hann.

Hyggst verða númer eitt

Tveir reyndir markverðir eru fyrir hjá Brentford, hollenski landsliðsmarkvörðurinn Mark Flekken og albanski landsliðsmarkvörðurinn Thomas Strakosha. Flekken hefur reynslu úr þýsku 1. deildinni með Freiburg og Strakosha úr ítölsku A-deildinni með Lazio.

Samkeppnin er því mikil fyrir Hákon. Þrátt fyrir það sér hann leið að byrjunarliði Brentford þegar fram líða stundir.

„Já, það er auðvitað þannig. Ég horfi á það. Við verðum bara að sjá hversu langan tíma það tekur. Það er undir mér komið að bæta mig hratt og vel.

Við verðum að sjá hvenær ég verð tilbúinn fyrir það. Markmiðið mitt er að verða aðalmarkvörður Brentford í framtíðinni. Við verðum að sjá til hvenær það gerist,“ sagði Hákon, sem var aðalmarkvörður Gróttu í fjögur ár, frá 17 ára aldri, áður en hann fór til Elfsborg sumarið 2021. Þar lék hann 48 leiki í sænsku úrvalsdeildinni.

Stórt skref að taka

Sérðu fram á að það verði þolinmæðisvinna að brjóta þér leið inn í byrjunarliðið?

„Já, þannig séð. Þetta er náttúrlega stórt skref fyrir mig, að fara úr sænsku úrvalsdeildinni í ensku úrvalsdeildina. Akkúrat núna er aðalmálið að aðlagast.

Það eru frábærir markverðir hérna, Flekken og Strakosha, og það er mjög gott að æfa með þeim. Þeir hafa spilað fullt af leikjum á hæsta stigi þannig að það er hægt að læra heilmikið af þeim,“ sagði hann.

Leitar að íbúð í Lundúnum

Brentford er staðsett í vesturhluta Lundúna. Hákon er enn sem komið er ekki búinn að koma sér að fullu fyrir í borginni.

„Nei, það tekur sinn tíma. Akkúrat núna er ég bara á hóteli og er á fullu að leita mér að íbúð, reyna að flytja inn og setjast að sem fyrst þannig að manni líði eins og heima hjá sér.

Við ætlum að reyna að drífa í því í næstu viku. Að koma sér í íbúð og fá sér kannski bíl. Allir svona litlir hlutir taka einhvern tíma. Þetta verður búið í febrúar,“ útskýrði hann.

Skandinavískt umhverfi

Knattspyrnustjórinn Frank og aðstoðarmaður hans Claus Nörgaard eru báðir frá Danmörku. Auk þess eru fimm danskir leikmenn í aðalliðinu ásamt einum Norðmanni.

Spurður hvort það hjálpaði honum að svo margir innan liðsins séu frá Norðurlöndunum sagði Hákon:

„Já, ég myndi alveg segja það. Þetta er dálítið skandinavískt umhverfi. Þjálfarinn er Dani, aðstoðarþjálfarinn er Dani, það er fullt af dönskum leikmönnum, Norðmaður og ég Íslendingur.

Það er mjög gott að geta leitað til þeirra. Mér hefur allavega liðið mjög vel hingað til og það er alveg hægt að segja að það hjálpi mér.“

Mikið Íslendingafélag

Hann er níundi Íslendingurinn sem semur við Brentford og viðurkennir Hákon að hann hafi ekki áttað sig á hversu margir þeir væru.

„Ég ræddi ekki við neinn þeirra. Ég bjóst ekki við því að þeir væru svona margir. Ég vissi af Patrik [Sigurði Gunnarssyni] náttúrlega, hann var þarna nýlega.

En svo var fullt af þessum leikmönnum að spila þegar Brentford var ekki í efstu deild. Eftir að ég sá einhverja frétt og talaði við fólk innan félagsins þá kom í ljós að það hafa margir Íslendingar verið hérna.

Það er bara skemmtilegt. Ég get kannski talað við þá síðar um félagið,“ sagði Hákon við Morgunblaðið.

Sá fyrsti í efstu deild?

Hann getur orðið fyrsti Íslendingurinn sem spilar fyrir Brentford í efstu deild á Englandi.

Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson, Ólafur Gottskálksson markvörður, Gunnar Einarsson, Ólafur Ingi Skúlason og áðurnefndur Patrik Sigurður léku allir með liðinu í neðri deildum Englands. Hákon er því þriðji markvörðurinn en Ólafur var aðalmarkvörður liðsins í C-deildinni á árunum 2000 til 2002 og Patrik lék með varaliðinu og einn leik í marki aðalliðsins í B-deildinni áður en hann fór til Viking í Noregi árið 2021.

Valgeir Valgeirsson og Kolbeinn Birgir Finnsson voru enn fremur á mála hjá Brentford um skeið og léku með varaliði félagsins.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson