Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að sinna starfi sem maður hefur valið sér og nýtur að gegna. Þau lífsgæði geta auðveldlega gleymst í amstri hversdagsins en eru langt frá því að vera sjálfsögð. Þegar fólk tapar starfsgetu vegna veikinda eða slysa …

Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að sinna starfi sem maður hefur valið sér og nýtur að gegna. Þau lífsgæði geta auðveldlega gleymst í amstri hversdagsins en eru langt frá því að vera sjálfsögð. Þegar fólk tapar starfsgetu vegna veikinda eða slysa blasir við flestum hversu stór hluti lífsins snýst um vinnu, hvað hún gefur okkur og hversu djúpstæð sú skoðun fólks er að vinnan göfgi ekki bara manninn heldur réttlæti hreinlega tilvist hans.

ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir merku málþingi í vikunni undir yfirskriftinni: Ertu ekki farin að vinna? Þar var þátttaka á vinnumarkaði rædd frá sjónarhóli fatlaðs fólks, þeirra sem glíma við afleiðingar slysa eða hafa misst starfsgetu vegna veikinda, hvort sem þau eru tímabundin eða langvinn. Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ benti á að yfirskriftin væri gildishlaðin einmitt vegna þess hve viðhorf samfélagsins til þeirra sem hafa skerta starfsgetu eru gildishlaðin. Hún gerði að umtalsefni virðispíramídann þar sem efst tróna þau sem búa við óskerta starfsgetu. Þau þykja hafa meira fram að færa en aðrir. En öll erum við jafn mikils virði án tillits til þátttöku á vinnumarkaði. Þess vegna njótum við mannréttinda sem hinu opinbera ber skylda að tryggja.

Hlutastörf eru mikilvæg forsenda þess að eiga aðgang að vinnumarkaði. Svo virðist sem íslenskir atvinnurekendur hafi lítið svigrúm til ráðninga í hlutastörf og þar er hið opinbera síst skárra en einkamarkaðurinn. Á málþinginu voru sagðar reynslusögur fólks sem hafði beinlínis verið ýtt út af vinnumarkaði vegna þess að hlutastarf var ekki í boði þegar það þurfti að minnka við sig vinnu vegna veikinda. Þessi skortur á sveigjanleika á vinnumarkaði veldur því meiri örorku sem er eins öfugsnúið og hægt er að hugsa sér. Við blasir að það eykur lífsgæði, hvetur til inngildingar og margborgar sig fjárhagslega að fólk eigi almennt kost á því að sinna hlutastörfum þegar það á við. Fyrir utan góð sambönd fólks í einkalífi er gott ráðningarsamband mikilvægt. Vinna uppfyllir margvíslegar þarfir, bæði félagslegar og vitsmunalegar, auk þess að tryggja almenna virkni.

Það velur sér enginn að búa við örorku og flestir öryrkjar eru í fullri vinnu við að komast af. Ein ræðukvenna nefndi það „fötlunarstrit“. Formaður ÖBÍ hvatti til samstöðu með öryrkjum, skilnings á stöðu þeirra og samþykkis samfélagsins fyrir því að leyfa þeim sem til þess hafa getu og vilja að taka þátt á vinnumarkaði. Eins og staðan er í dag eru nær allar dyr lokaðar og afli fólk sér einhverra tekna eru þær jafnóðum skertar svo um munar við útreikning almannatrygginga. Skilaboðin geta í það minnsta ekki verið að án þátttöku á vinnumarkaði sértu minna virði en aðrir þegar samfélagið gerir þá sömu þátttöku nær ómögulega.

Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. thorunn.sveinbjarnardottir@althingi.is