Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Flýting Sundabrautar og öryggi Reykjavíkurflugvallar eru þar efst á blaði.

Ólafur F. Magnússon

Einar Þorsteinsson hefur nú í ársbyrjun 2024 tekið við embætti borgarstjóra í Reykjavík. Hann er 45 ára að aldri, stjórnmálafræðingur að mennt og landsþekktur fjölmiðlamaður. Hann hefur nú verið borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður borgarráðs í 18 mánuði.

Í ljósi framanskráðs vil ég koma á framfæri við nýjan borgarstjóra góðum óskum vegna hins nýja og ábyrgðarmikla starfs hans og heilræðum sem ég tel að skipti meginmáli. Flýting Sundabrautar og öryggi Reykjavíkurflugvallar eru þar efst á blaði.

Varðandi Sundabraut þá þarf hún að vera á brú en ekki í göngum. Mikilvægt er einnig að greiða fyrir umferð í borginni og að láta almenningssamgöngur og einkabílaumferð vinna saman en ekki hvort gegn öðru!

Varðandi öryggi Reykjavíkurflugvallar þarf nú þegar að hefjast handa við skógarhögg á hávöxnum greniskógi í Öskjuhlíð sem ógnar lendingu og flugtaki á A/V-braut vallarins. Fresta ber og endurskoða stórkarlalegar byggingaframkvæmdir og landfyllingar í svonefndum „Nýja Skerjafirði“. Ekki má heldur vanmeta hættuna sem stafar af einhvers konar borgarlínu- og göngubrú yfir Skerjafjörð, vegna byggingakrana og stórtækra vinnuvéla við enda suðurbrautar vallarins, sem munu ógna flugöryggi þannig að jafnvel þurfi að loka N/S-brautinni á meðan þessar allt annað en brýnu framkvæmdir standa yfir.

Ég bið þig, borgarstjóri, að taka þessar ábendingar mínar til skoðunar, en þær eru settar fram af heilindum og mótast mjög af bakgrunni mínum sem heimilislæknir í borginni og héraðslæknir í dreifbýli um áratugaskeið. Mikilvægt er að þér gangi vel í starfi. Það eru almannahagsmunir.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri.