Pablo Picasso
Pablo Picasso
Verk eftir listamennina Chagall og Picasso, sem stolið var fyrir 14 árum frá listaverkasafnara í Ísrael, fundust nýverið í kjallara í Antwerpen í Belgíu. Verkunum tveimur, „Tête“ eftir Pablo Picasso og „L’homme en…

Verk eftir listamennina Chagall og Picasso, sem stolið var fyrir 14 árum frá listaverkasafnara í Ísrael, fundust nýverið í kjallara í Antwerpen í Belgíu. Verkunum tveimur, „Tête“ eftir Pablo Picasso og „L’homme en prière“ eftir Marc Chagall, var stolið úr heimahúsi í Tel Aviv í febrúar 2010. Þá voru verkin metin á rúmar 120 milljónir íslenskra króna. Ræningjarnir stálu einnig skartgripum að verðmæti rúmlega 90 milljóna króna en þeir hafa ekki fundist.

Rannsóknarlögregla fékk mikilvægar upplýsingar í málinu árið 2022 þegar hún fékk veður af því að listaverkasali í Namur í Belgíu væri með verkin tvö til sölu. Lögreglan fylgdist með hinum grunaða, 68 ára gömlum ísraelskum lúxusúrasala, í nokkra mánuði og taldi loks víst að hann hefði verkin í fórum sínum. Hann viðurkenndi það en vildi ekki upplýsa um hvar þau væri að finna. Þau fundust loks í Antwerpen, í húsnæði sem áður hafði hýst listaverkasölu sem hafði verið bendluð við málverkastuld.