Fjölskyldufyrirtæki Kristmann ásamt tveimur barna sinna, Margréti og Magnúsi, sem bæði starfa hjá Pfaff.
Fjölskyldufyrirtæki Kristmann ásamt tveimur barna sinna, Margréti og Magnúsi, sem bæði starfa hjá Pfaff.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég tók við af pabba sem framkvæmdastjóri hér hjá Pfaff fyrir sextíu árum, eða 1963, en ég hafði verið átta ár þar á undan að vinna við saumavélaviðgerðir hér heima,“ segir Kristmann Magnússon, en faðir hans, Magnús Þorgeirsson, stofnaði Pfaff-verslunina árið 1929

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég tók við af pabba sem framkvæmdastjóri hér hjá Pfaff fyrir sextíu árum, eða 1963, en ég hafði verið átta ár þar á undan að vinna við saumavélaviðgerðir hér heima,“ segir Kristmann Magnússon, en faðir hans, Magnús Þorgeirsson, stofnaði Pfaff-verslunina árið 1929. Kristmann hefur lagt mikið upp úr því að safna gömlum saumavélum og skrá þær, hvaðan vélarnar koma, hvenær þær voru framleiddar og hverjir hafa átt þær. Í saumavélasafni Pfaff eru nú um hundrað og fjörutíu saumavélar, margar miklar gersemar, fagrar og flúraðar. Þar er m.a. sú allra fyrsta sem faðir Kristmanns seldi, árið 1929.

„Pabbi keypti löngu síðar aftur þessa merkilegu vél af konunni sem hafði keypt hana forðum af honum. Í saumavélasafni okkar er líka að finna elstu Pfaff-vél sem fundist hefur á Íslandi, en áður en okkar fyrirtæki var stofnað fluttu einhverjir inn saumavélar hingað til lands. Við eigum einnig vél sem Óli Finnbogason í Pennaviðgerðinni gaf okkur og er einstök, framleidd í Danmörku 1869. Móðir Óla átti vélina en á undan henni móðir hennar sem fædd var 1848 og bjó í Rangárvallasýslu. Þetta var ein fyrsta saumavél á Suðurlandi og þessi amma Óla, Eyrún Jónsdóttir, gekk með vélina á milli bæja á Suðurlandi og saumaði á fólk. Þessar sögur gera gripina dýrmæta,“ segir Kristmann og bætir við að þau eigi líka eftirgerð af fyrstu saumavélinni sem Pfaff bjó til árið 1862.

Fegurð og mikil saga

„Þegar ég var hættur að vinna fór ég á Árbæjarsafn og Þjóðminjasafnið og fékk að skoða saumavélar sem þar voru til og komst að því að engar upplýsingar voru skráðar um þær nema hver hefði gefið þær. Ég var í nokkurn tíma að vinna við að skrá þessar saumavélar. Ég var kallaður til Keflavíkur í fyrra, vegna sýningar sem haldin var þar á saumavélum, og ég skráði sögu þeirra. Þar fann ég einhverja þá fallegustu saumavél sem ég hef séð hér á landi og meðal þeirra elstu, frá nítjándu öld. Hún er stór og mikil og um hana hefur verið skrifað í þýskum blöðunum.“

Margrét, dóttir Kristmanns og núverandi framkvæmdastjóri Pfaff, fullyrðir að enginn á landi hér viti eins mikið um gamlar saumavélar og faðir hennar.

„Hann hefur skráð samviskusamlega allar þessar á annað hundrað saumavélar sem til eru í safni okkar. Hann hefur unnið ómetanlegt starf við skráninguna, að finna út hvaðan hver vél kemur, og haldið vel utan um þetta. Við höfum ekki lengur pláss fyrir allt þetta safn, vélar sem eru í borðum taka til dæmis mikið pláss. Okkur vantar stað til að sýna safnið og ég hafði samband við nokkur starfandi söfn á Íslandi fyrir tveimur árum, hvort þetta myndi henta hjá þeim, en það er hvergi pláss. Nú datt okkur það snjallræði í hug að auglýsa í hinu víðlesna Bændablaði eftir aðila til að taka við safninu án endurgjalds, sem hefur metnað til að hafa það til sýnis til frambúðar. Við þyrftum að fá vissu fyrir því að safnið okkar færi á góðan stað þar sem vel yrði hugsað um það. Við viljum gjarnan að það komist í gott skjól þar sem það fær að njóta sín og að sem flest fólk geti skoðað það. Við stilltum því síðast upp fyrir fimm árum þegar fyrirtækið varð 90 ára og það vakti mikla athygli, enda mikil fegurð og saga sem þær geyma,“ segir Margrét og bætir við að þau hafi fengið nokkrar fyrirspurnir eftir að þau auglýstu.

Fullt hús barnasaumavéla

Margrét segist stundum hafa ætlað að taka kreditkortið af pabba sínum, því þegar hann fari til útlanda rekist hann oft á gamlar saumavélar og kaupi þær.

„Við eigum fyrir vikið líka gott safna af gömlum barnasaumavélum,“ segir hún og Kristmann bætir við að hann hafi eitt sinn komið inn á merkilegt barnasaumavélasafn í Bandaríkjunum.

„Þetta var heima hjá konu sem átti 1.500 barnasaumavélar og engar tvær þeirra voru af sömu tegund. Það voru hillur meðfram öllum veggjum gangsins og heilu herbergin þar sem allir veggir voru þéttskipaðir barnasaumavélum. Kjallarinn var líka fullur af þeim og ég spurði hver þurrkaði af,“ segir Kristmann, sem er félagi í Alþjóðlegu félagi saumavélasafnara og hefur þar kynnst miklum saumavélanördum. Kristmann segir að tæknin heilli hann sem var fundin upp hverju sinni, framfarirnar.

„Þegar þetta var að byrja var Singer að keppa við manninn sem fann upp fyrstu saumavélina, Elias Howe. Þetta var hörð keppni og eilíf málaferli, því þeir notuðu einkaleyfi hvor frá öðrum án leyfis.“