Ánægja Eva Björg Ægisdóttir, Rán Flygenring, Gunnar Helgason, Haraldur Sigurðsson og Steinunn Sigurðardóttir voru glaðbeitt á Bessastöðum í gærkvöldi þegar þau voru verðlaunuð.
Ánægja Eva Björg Ægisdóttir, Rán Flygenring, Gunnar Helgason, Haraldur Sigurðsson og Steinunn Sigurðardóttir voru glaðbeitt á Bessastöðum í gærkvöldi þegar þau voru verðlaunuð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinunn Sigurðardóttir, Gunnar Helgason, Rán Flygenring og Haraldur Sigurðsson hlutu í gærkvöldi Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 úr hendi Guðna Th

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

Silja Björk Huldudóttir

Steinunn Sigurðardóttir, Gunnar Helgason, Rán Flygenring og Haraldur Sigurðsson hlutu í gærkvöldi Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 35. sinn. Við sama tækifæri voru Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn 2023 afhent í 18. sinn og þau hlaut Eva Björg Ægisdóttir.

Steinunn hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Ból sem Mál og menning gefur út; Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfundur í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Bannað að drepa sem Mál og menning gefur út og Haraldur í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Samfélag eftir máli – Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi sem Sögufélag gefur út. Eva Björg var verðlaunuð fyrir glæpasöguna Heim fyrir myrkur sem Veröld gefur út.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda (Fíbút). Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls tíu bækur. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig héldust verðlaunin óbreytt til 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka, eða fagurbókmennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáldverka. Árið 2022 tók Fíbút að sér framkvæmd og fjármögnun Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og fer verðlaunaveiting þeirra og tilnefningar fram samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum. Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverkanna fjögurra og eru kostuð af Fíbút. Nýr verðlaunagripur, Blængur, blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Sigurðsson, var afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrsta sinn í ár.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi 20 bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefndina skipuðu formenn dómnefndanna fjögurra, þau Hjalti Freyr Magnússon, Kristján Sigurjónsson, Steingerður Steinarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir ásamt Kristínu Ingu Viðarsdóttur, forsetaskipuðum formanni nefndarinnar.

Kærkomin og hvetjandi

„Við sem skrifum spyrjum okkur hvers orðin séu í rauninni megnug, og tungumálið – og það í heimi sem verður nú viðsjárverðari með degi hverjum,“ sagði Steinunn Sigurðardóttir þegar hún veitti verðlaununum viðtöku á Bessastöðum í gærkvöldi. Í ræðu sinni vakti hún máls á því hve mikilvægt það væri hvernig talað er um hlutina. „Svo það fáist af þeim sem réttust mynd, þar sem afvegaleiðandi orðin bjartsýni og svartsýni koma sem minnst við sögu. Þar sem orðið raunsæi væri leiðarljósið. Okkur ber að gjalda varhug við orðalagi sem er til þess fallið að slá ryki í augun, samanber orðið loftslagsbreytingar. Breyting getur verið til batnaðar – sem væri öfugmæli í þessu samhengi.“

Í umsögn dómnefndar um bók Steinunnar segir: „Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Steinunn: „Ég er hoppandi kát með fréttirnar. Við erum fimm tilnefnd svo það var auðvitað möguleiki – og alls konar harðsnúnir lesendur spáðu mér verðlaununum strax í haust. En hreinskilnislega þá átti ég ekki sérstaklega von á því að Ból fengi þessi verðlaun, ég hugsa ekki þannig, en gleðst jafnframt innilega yfir því. Eðli málsins samkvæmt er bókin sú sama fyrir og eftir viðurkenninguna þannig að maður heldur nú alveg jafnvæginu. En auðvitað er gleðilegt að verkið hafi þennan hljómgrunn hjá dómnefnd sem virðist samsett af lesendum úr ýmsum áttum.“

Verðlaunin segir Steinunn bæði kærkomin og hvetjandi. „Í haust verða 55 ár frá því að ljóðabókin Sífellur kom út, en það var fyrsta bókin mín og það er aldeilis ánægjulegt að halda upp á þann áfanga með þessum hætti. Ég vonast sérstaklega eftir því að þau verði til þess að nýir lesendur uppgötvi bækurnar mínar.“

Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað fyrir tæpum 30 árum, árið 1995, og spurð hvernig sé að fá verðlaunin núna miðað við síðast svarar hún: „Þetta er álíka mikið stuð. Það er stuð að fá verðlaun. Maður heldur smápartí eins og síðast og fagnar. Ólíkt því sem reynt er að klína á okkur sem höfum ekki haft það af að deyja ung, þá minnkar stuðið ekkert með árunum, að minnsta kosti ekki mitt. Svo ég er álíka ánægð með verðlaunin núna eins og ég var þá.“

Í því samhengi nefnir hún nýja verðlaunagripinn Blæng, sem hún segir „aðalmálið núna“. „Ég tek það svo, nema annað sannist, að hann heiti í höfuðið á Dýra mínum Blæng, leikstjóranum í Jöklaleikhúsinu, sem reykspólar í bæjarbúum á Papeyri með ýmsum töktum.“

Spurð hvort hún hafi ákveðið hvernig hún muni ráðstafa verðlaunafénu segir Steinunn: „Það mun leysast einhvern veginn eins og finnlandssænska ljóðskáldið Tua Forsström sagði þegar hún fékk Norðurlandaráðsverðlaunin um árið. Það verða engin vandræði að eyða þessu og málið leysist afar farsællega án þess að ég þurfi að hafa áhyggjur af framtíð fjárins.“

Steinunn segist vinna á hverjum degi allan ársins hring, nema ferðalög eða flensur trufli, og hún sé með tvö langtímaverkefni á skrifborðinu. Aðspurð segir hún sex mánaða starfslaunin sem hún hlaut í ár úr launasjóði rithöfunda hjálpa eitthvað. „En mikið væri það til bóta ef menningaryfirvöld á Íslandi gerðu svipað og systraþjóðir á Norðurlöndum: að tryggja afkomu þeirra sem hafa staðið í listsköpun hálfu aldirnar og meira, eins og ég hef gert. Óöryggi okkar á þessum stað er algjört. Nú er ég því marki brennd að böðlast áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Og samkvæmt þessari verðlaunaveitingu enn að skapa eitthvað sem máli skiptir. Frá mínum bæjardyrum séð er ég að skrifa það sem ég hefði ekki getað gert fyrir fimm árum, hvað þá tíu. Það sem ætti að skipta máli er ekki hvaða ár höfundurinn er fæddur heldur hvort verið er að skrifa eitthvað sem máli skiptir, eitthvað sem hreyfir við lesendum.“

Stórkostlegur heiður

„Mig langar að byrja á því að þakka þennan stórkostlega heiður sem mér, Rán og bókinni Bannað að drepa er sýndur hér í kvöld. Ég er svo fáránlega glaður, sérstaklega vegna þess að sjaldan eða aldrei hafa jafnmargar framúrskarandi barnabækur komið út á þessu landi,“ sagði Gunnar Helgason þegar hann veitti verðlaununum viðtöku í gærkvöldi. Í framhaldinu þakkaði hann Kyrylo, ungum dreng frá Úkraínu, fyrir að hafa sagt sér sögu sína sem varð Gunnari innblástur að bók sinni. „Það er ekkert í heiminum mikilvægara en börn. Allt annað kemur í öðru sæti. Og þegar kemur að bókum eru engar bækur mikilvægari en barnabækur.“

Í umsögn dómnefndar um Bannað að drepa segir: „Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefnið einkennist sagan af leiftrandi frásagnargleði, sem fjörlegar myndir Ránar Flygenring ýta svo enn frekar undir. Eins og í fyrri bókunum er persónusafnið fjölbreytt og litríkt og atburðarásin er spennandi.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Gunnar það hafa komið sér ánægjulega á óvart að vinna aftur, en hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 í sama flokki fyrir skáldsöguna Mamma klikk! „Ég beitti sjálfan mig mikilli væntingastjórnun enda þorði ég ekki að gera mér vonir um að vinna aftur í annað sinn sem ég væri tilnefndur. Þetta reyndist hins vegar vera 100% færanýting,“ segir Gunnar kíminn. Spurður hvort hann geti gert upp á milli verðlaunabókanna tveggja svarar Gunnar því neitandi, en tekur fram að hann voni að sér fari fram sem höfundi. „Þegar ég vann síðast fannst mér það mikilvæg viðurkenning á mér sem höfundi þar sem mér bauðst að ganga inn um ákveðnar dyr. Nú er ég búinn að vera í rithöfundahúsinu í átta ár þar sem ég hef fengið tækifæri til að gera alls konar. Nú er ég kannski kominn upp á aðra hæð í húsinu og stíg betur í fæturna,“ segir Gunnar og áréttar að það sé alltaf gott að fá klapp á bakið og viðurkenningu. „Því við þrífumst öll betur á hrósi en lasti.“

Í ljósi þess að Gunnar deilir verðlaununum með Rán liggur beint við að spyrja um samstarf þeirra. „Það er dásamlegt að vinna með Rán. Í svona textabókum þá klára ég að skrifa alla bókina áður en ég sendi hana á Rán. Hún hefur frjálsar hendur með hvað hún myndlýsir en það hefur komið fyrir að ég hef beðið um að hún teiknaði ákveðin augnablik í bókunum,“ segir Gunnar og tekur fram að Rán hafi alltaf fullkomlega frjálsar hendur með kápurnar. Tekur hann fram að Rán komi honum alltaf á óvart með myndum sínum sem dýpki sögur hans. Nefnir hann sem dæmi að Rán hafi teiknað myndaröð af Raðmorðingjanum úr Gerðubergi, sem er köttur, til að setja hér og þar í bókina þar sem kötturinn sé þó hvergi nálægur. „En þessar myndir lýsa sálarástandi Alexanders. Þannig má segja að hún teikni undirtextann, en slíkt geta bara snillingar gert og hún er snillingur.“

Gunnar er einn þeirra höfunda sem hljóta 12 mánaða starfslaun úr launasjóði rithöfunda í ár. Spurður hverju hann ætli að vinna að á þeim tíma segir Gunnar margt á teikniborðinu, enda vilji hann nýta tímann sem best. „Ég er að leggja lokahönd á smásagnasafnið Læk sem við Bergrún Íris Sævarsdóttir höfum skrifað í samstarfi við kennara og nemendur á mið- og unglingastigi í níu grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar með það að markmiði að efla lestur og lesskilning.

Síðan er ég byrjaður á næstu bók og hún verður um Stellu,“ segir Gunnar og rifjar upp að eftir að hann hafi hætt að reyna að kveðja þann bókaflokk hafi hann ákveðið að skrifa í staðinn tíu bækur í bókaflokki um Stellu. „Næsta bók verður sú áttunda í röðinni um Stellu og fjölskyldu hennar,“ segir Gunnar og tekur fram að samhliða sé hann byrjaður á nýjum barna- og ungmennabókaflokki.

„Ég er búinn að vera að punkta hjá mér hugmyndir að þeim bókaflokki síðustu 14 árin,“ segir Gunnar og tekur fram að sögusvið sé framtíðin. „Þetta verður fantasía en þó byggð á raunverulegum atburðum. Sagan gerist á Íslandi, Englandi, í Wales, Noregi og Frakklandi,“ segir Gunnar og tekur fram að vinnutitill fyrstu bókarinnar sé Sjö morðingjar. Inntur eftir því hvort hann sé búinn að ákveða í hvað verðlaunaféð fari segist Gunnar að minnsta kosti munu bjóða fjölskyldunni út að borða. „Og svo kaupi ég mér kannski nýjar buxur.“

Viðbrögðin eru framar vonum

„Það er gleðiefni að bók af þessu tagi fái brautargengi og það verði mögulega til þess að skipulagsmálin fái enn veglegri sess í samfélagsumræðunni,“ sagði Haraldur þegar hann veitti verðlaununum viðtöku á Bessastöðum í gærkvöldi. Þá sagði hann að ávallt þyrfti að nálgast verkefni fræðasviðs skipulagsmála með auðmýkt og umburðarlyndi í huga. „Við þurfum umfram allt að vera gagnrýnin á okkar eigin verk, hætta aldrei að hugsa sjálfstætt þrátt fyrir öll snjalltæki nútímans og reyna ávallt að sjá hlutina frá eins mörgum sjónarhornum og mögulegt er.“

Í umsögn dómnefndar um bók Haraldar segir: „Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Haraldur að verðlaunin hafi komið sér á óvart. „Maður þorði alveg að vona en ég bjóst ekki við þessu. Sérstaklega af því það voru frambærilegar bækur í þessum flokki. Þá vil ég sérstaklega nefna bókina Með verkum handanna sem er glæsilegt bókverk og byggt á miklum rannsóknum. Svo þetta var mjög ánægjulegt,“ segir Haraldur.

„Það er mjög hvetjandi að fá þessa viðurkenningu og viðbrögðin almennt við bókinni hafa verið framar vonum. Það var reyndar alltaf markmiðið að skrifa bók sem næði til breiðari lesendahóps. Þetta er náttúrulega mikið fræðirit um tiltölulega sérhæft málefni, bæjarskipulag, en markmiðið var að reyna að ná að höfða til fleiri.“

Haraldur segist hafa haft gaman af að fylgjast með því að fólk sem stendur utan við þennan fagheim hafi haft mikla ánægju af að lesa þessa sögu og kynnast því hvernig hún tengist sögu þjóðarinnar. „Það undirstrikar líka hvað þetta er mikilvægur málaflokkur og að skipulagsmálin eru orðin stærri hluti af samfélagsumræðunni en þau voru fyrir 20 eða 30 árum þegar ég var að byrja í þessum fræðum,“ segir hann.

„Þó skipulagsmálin séu sérhæfð í eðli sínu þá snerta þau á hinu hversdagslega,“ segir Haraldur og bætir við að þau beri oft á góma í samtölum fólks. Þetta er málaflokkur sem allir geta tjáð sig um og eiga að tjá sig um.“

Spurður hver lykillinn hafi verið að því að gera þetta verk aðgengilegt segir Haraldur að það hafi skipt máli hversu myndræn sagan er, auk góðrar ritstjórnar. „Það eru áhugaverðir uppdrættir og ljósmyndir sem eiga stóran þátt í þessu.“ Hann nefnir sérstaklega hlutverk hönnuðanna Petters Spilde og Sunnu Ástþórsdóttur í að lyfta bókinni upp. Hann nefnir einnig að útgáfan Sögufélagið hafi staðið vel að verkefninu. „Þessi bók og þessi viðurkenning sem hún fær byggist á því að það eru margir sem koma að henni.“

Aðspurður segir Haraldur að verðlaunaféð sé bara bónus. „Það er fyrst og fremst heiðurinn og viðurkenningin sem skiptir máli. En það er gott að fá umbun af því að ég hef unnið þetta í mínum frítíma, en hef vissulega notið stuðnings frá ýmsum styrktarsjóðum í gegnum árin.“

Mikilvæg hvatning

„Fyrir mér hefur það verið bæði lærdómsríkt og skrýtið ferli að skrifa bækur. Í Heim fyrir myrkur leyfði ég mér að vera mjög sjálfselsk og skrifaði um það sem mér fannst skemmtilegt og áhugavert, þrátt fyrir að það væri í svolítið óhefðbundnum stíl fyrir glæpasögu,“ sagði Eva Björg Ægisdóttir þegar hún veitti verðlaununum viðtöku í gærkvöldi. Sagðist hún þar þeirrar skoðunar að glæpasögur „snúist alveg jafn mikið um ást og kærleika og hatur og glæpi, því hvorugt þrífst án hins. Því má eiginlega segja að glæpasögur séu í raun ástarsögur.“

Í umsögn dómnefndar um bók Evu Bjargar segir: „Heim fyrir myrkur er grípandi sálfræðitryllir sem erfitt er að leggja frá sér. Andrúmsloft óhugnaðar og dulúðar er listilega byggt upp og grunsemdum og efa sáð jöfnum höndum í huga lesanda.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Eva Björg það sér mikinn heiður að hljóta Blóðdropann. „Mér þykir líka mjög vænt um það að fá viðurkenningu í mínu heimalandi,“ segir Eva Björg sem hlotið hefur mikinn meðbyr erlendis þar sem bækur hennar hafa vakið verðskuldaða athygli. Með verðlaununum fylgir að Heim fyrir myrkur verður framlag Íslands til Glerlykilsins sem eru samnorræn glæpasagnaverðlaun. „Það er því núna verið að vinna að enskri þýðingu bókarinnar til þess að hægt sé að leggja hana fram til Glerlykilsins,“ segir Eva Björg og upplýsir að nú þegar hafi verið gerðir útgáfusamningar þar sem bækur hennar koma út á um 20 tungumálum.

„Það er auðvitað svolítið skrýtið starf að vera rithöfundur. Maður eyðir heilu ári í að skrifa bók og sendir hana síðan frá sér upp á von og óvon,“ segir Eva Björg og tekur fram að góð viðbrögð lesenda við verkum hennar séu sér mikilvæg hvatning til áframhaldandi skrifa. „Bókabransinn er harður bransi og því vonar maður að verðlaun á borð við þessi hjálpi bókinni að ná til fleiri lesenda,“ segir Eva Björg og tekur fram að Heim fyrir myrkur hafi verið sú bók hennar til þessa sem sér hafi þótt skemmtilegast að skrifa. „Enda gaman að fara svolítið út fyrir rammann,“ segir Eva Björg. Aðspurð segist hún vera komin vel á leið með næstu bók, en ljóstrar engu upp um innihaldið.

Innt eftir því hvort hún sé búin að ákveða í hvað verðlaunaféð fari segist Eva Björg vera að taka baðherbergið í gegn og því komið féð að góðum notum. „En það er auðvitað mest um vert að geta helgað sig alveg ritstörfum, þannig að verðlaunaféð fer að mestu í þann sjóð.“

Alls hafa 82 höfundar verið verðlaunaðir frá 1989

Gunnar og Steinunn bæði
verðlaunuð í annað sinn í ár

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 eru afhent í þremur flokkum. Auk verðlaunaverksins Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur voru í flokki skáldverka tilnefnd verkin (í stafrófsröð höfunda): DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur; Dúnstúlkan í þokunni eftir Bjarna M. Bjarnason; Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl og Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Alls voru 65 verk lögð fram í þessum flokki.

Auk verðlaunaverksins Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason og myndhöfundinn Rán Flygenring voru í flokki barna- og ungmennabóka tilnefnd verkin: Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur; Stelpur stranglega bannaðar! eftir Emblu Bachmann; Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og Vísindalæsi Hamfarir eftir Sævar Helga Bragason og myndhöfundinn Elías Rúna. Alls voru 44 verk lögð fram í þessum flokki.

Auk verðlaunaverksins Samfélag eftir máli – Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi eftir Harald Sigurðsson voru í flokki fræðibóka og rita almenns efnis tilnefnd verkin: Með verkum handanna – Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson og Lilju Árnadóttur; Séra Friðrik og drengirnir hans – Saga æskulýðsleiðtoga eftir Guðmund Magnússon; Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg – Baráttusaga Guðrúnar Jónsdóttur eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur og Alþýðuskáldin á Íslandi – Saga um átök eftir Þórð Helgason. Alls voru 38 verk lögð fram í þessum flokki.

Alls hafa 82 höfundar hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin frá því þau voru fyrst veitt, þar af 28 konur og 54 karlar. Þrír höfundar hafa hlotið verðlaunin þrisvar; Andri Snær Magnason sem sigrað hefur í öllum þremur flokkum, Guðjón Friðriksson sem ávallt hefur verið verðlaunaður fyrir fræðibækur og Hallgrímur Helgason sem í öll þrjú skiptin var verðlaunaður fyrir skáldverk. Sex höfundar hafa hlotið verðlaunin tvisvar; Arndís Þórarinsdóttir, Guðbergur Bergsson, Gunnar Helgason, Hörður Ágústsson, Silja Aðalsteinsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir. Sé kynjaskipting skoðuð eftir flokkum má sjá að í flokki skáldverka hafa 10 konur og 21 karl hlotið verðlaunin, í flokki barna- og ungmennabóka hafa 10 konur og 3 karlar hlotið verðlaunin og í flokki fræðibóka og rita almenns efnis hafa 8 konur og 32 karlar hlotið verðlaunin.

Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn voru fyrst veitt 2007. Samtals hafa 12 rithöfundar fengið verðlaunin, þar af hafa Stefán Máni og Yrsa Sigurðardóttir hlotið þau þrisvar hvort og Arnaldur Indriðason og Lilja Sigurðardóttir tvisvar hvort. Auk verðlaunaverksins Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur voru til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2023 tilnefnd verkin: Sæluríkið eftir Arnald Indriðason; Maðurinn frá São Paulo eftir Skúla Sigurðsson; Borg hinna dauðu eftir Stefán Mána og Blóðmeri eftir Steindór Ívarsson. Alls voru 19 verk lögð fram til verðlaunanna.