Jón Hjálmarsson var fæddur 3. apríl 1938 á Felli í Kollafirði í Strandasýslu. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða 21. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Hjálmar Björn Jónsson, f. 14. júlí 1910, d. 3. júlí 1993, og Sæunn Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 29. apríl 1908, d. 4. apríl 1976.

Jón ólst upp til tíu ára aldurs á Felli en þá flutti fjölskyldan að Innsta-Vogi við Akranes og síðar niður á Akranes. Árið 1958 flutti fjölskyldan að Ásfelli í Innri-Akraneshreppi sem nú tilheyrir Hvalfjarðarsveit. Jón var þriðji í aldursröð fimm bræðra, en bræður hans voru Óli Jakob, f. 9. júlí 1932, d. 20. apríl 2016, Sigurður Ingi, f. 18. mars 1935, d. 27. maí 2020, Ágúst, f. 26. september 1944, d. 25. mars 2021, og Árni Ágúst, f. 30. nóvember 1948, d. 10. desember 1987. Einnig ólu foreldrar hans upp Sæunni Óladóttur bróðurdóttur Jóns, f. 13. desember 1958.

Þann 10. september 1966 kvæntist hann Ragnheiði Guðmundsdóttur djákna og sjúkraliða frá Innra-Hólmi, f. 2. mars 1948. Þau byggðu sér hús í landi Ásfells, Ásfell II, og bjuggu þar upp frá því.

Börn þeirra eru: a) Guðmundur Sigurður, f. 16. mars 1968. Maki hans er Guðrún Sigríður Gísladóttir, f. 10. apríl 1969. Börn þeirra eru Marinó Rafn, maki hans er Eyrún Ída Guðjónsdóttir, þau eiga fjögur börn, Eyþór Atla, Hektor Mána, Ísabellu Líf og Matthías Emil. Ragnheiður Eva, sambýlismaður hennar er Hermann Unnarsson. Steindór Gauti og Hákon Freyr. b) Sigrún Björk, f. 31. janúar 1973, börn hennar eru Bryndís Jóna, Hafsteinn Orri og Brynjar Örn. c) Bjarni Rúnar, f. 17. júlí 1975, maki hans er Sigrún Mjöll Stefánsdóttir, f. 28. september 1978, börn þeirra eru Sylvía Mist, sambýlismaður hennar er Tómas Helgi Tómasson, sonur þeirra er Mikael Rúnar. Stefán Ýmir, sambýliskona hans er Rannveig Klara Guðmundsdóttir. Rakel Sunna. d) Sævar Ingim., f. 30. ágúst 1976.

Jón lauk námi í vélvirkjun frá Iðnskóla Akraness og vélstjóraprófi frá Vélskólanum í Reykjavík. Hann var vélstjóri á skipum um nokkurra ára skeið, vann á vélaverkstæði Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og í vélsmiðju Þorgeirs og Ellerts á Akranesi, var síðan vélstjóri á ms. Akraborg um þriggja ára skeið. Árið 1972 hóf hann störf sem vélstjóri hjá Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi þar sem hann vann til starfsloka. Jón hafði yndi af tónlist og söng í kirkjukór, karlakór og tvöföldum kvartett um tíma. Þá var hann virkur félagi í Ungmennafélaginu Þröstum og var formaður þess um nokkurra ára skeið. Jón var laghentur og gerði við og smíðaði ýmislegt nytsamlegt úr járni og tré. Þá hafði hann yndi af ferðalögum, innan lands og utan.

Útför Jóns verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 1. febrúar 2024, og hefst athöfnin kl. 13. Streymi á vef Akraneskirkju.

https://www.mbl.is/go/97gve

Elsku, elsku, elsku pabbi minn. Ég sakna þín óumræðanlega mikið. Þú ert sá sem skildir mig og vildir allt fyrir mig gera. Pabbi var allra besti pabbi í heiminum og var alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á því að halda, hvort sem það var með spjalli, að halda utan um mig eða einfaldlega með því að vera til staðar. Ég var mjög myrkfælin í æsku og hann sat hjá mér á hverju kvöldi og hélt í höndina á mér í örugglega hátt í mánuð eða lengur á hverju kvöldi til að mér liði betur, væri öruggari og gæti sofnað. Þá fann ég styrk frá pabba því að hann vildi ekki að mér liði illa.

Við fjölskyldan ferðuðumst mjög mikið um landið og þá var sofið í tjaldi. Í bílnum á leiðinni fræddumst við um allt sem hægt var að sjá út um gluggann eins og nöfn á fjöllum, staðhætti og helstu kennileiti.

Pabbi og mamma hafa alltaf stutt mig og verið til staðar í öllu því sem ég hef afrekað og gert um ævina. Og ekki síst varðandi börnin mín. Já, hafa verið mín stoð og stytta og þau hafa átt jafnmikið ef ekki meira í börnunum mínum því að þau hafa alltaf verið stór hluti af lífi okkar. Við höfum alltaf átt öruggt skjól og stuðning hjá og frá þeim.

Bæði pabbi og mamma hafa verið mínar fyrirmyndir í lífinu. Þau voru miklir vinir og báru alltaf mikla virðingu hvort fyrir öðru. Mamma og pabbi voru samstiga, sammála og mjög samheldin. Þau vógu hvort annað upp. Það er hann var rólegur, hlédrægur og til baka en vildi samt allt fyrir alla gera, sérstaklega fjölskylduna sína, bræður sína og sína nánustu. En mamma var miklu opnari og meira í samskiptum við alla, sína nánustu sem og alla aðra í sveitinni. Þau voru mjög flott saman.

Pabbi var og verður algjör gimsteinn sem ég geymi ætíð í hjarta mínu.

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn.

Hvíl í friði.

Þín

Sigrún Björk.

Afi var mjög góðhjartaður og einstaklega ljúfur. Hann var alltaf til í að segja okkur systkinunum brandara þegar við vorum í pössun hjá afa og ömmu, þá var oftast sögustund fyrir svefninn þegar við gátum ekki sofnað. Oftast nær spiluðum við veiðimann með honum til þess að stytta okkur stundir. Við hjálpuðum honum við slátt og rakstur í garðinum. Stundum fórum við með afa að setja niður kartöflur í kartöflugarðinum hjá þeim og stundum fengum við að fara með að sækja rabarbara og úr því var gerð sulta. Þegar við vorum yngri var mamma oft á kóræfingum og þá kom afi til þess að passa okkur og afi söng alltaf fyrir okkur þegar við náðum ekki að sofna. Oft þegar það var eitthvað að bílunum hjá okkur í fjölskyldunni kom afi færandi hendi og hjálpaði okkur að laga það sem var bilað. Síðan ég var lítil man ég alltaf eftir því að við fjölskyldan fórum saman í hina ýmsu sumarbústaði en efst í minningunni er sumarbústaðurinn Strandasel sem var á heimaslóðum afa og alltaf þegar við fórum í hann skoðuðum við bæinn Fell þar sem afi ólst upp. Honum fannst alltaf gaman að heimsækja heimaslóðirnar en það sem stóð upp úr var tíminn sem við fjölskyldan áttum saman og því verður aldrei gleymt. Svo var það fjölskylduferðin til Torreveija á Spáni og þar áttum við yndislegar stundir í hitanum en afa langaði samt alltaf heim til Íslands þar sem hann kunni best við sig. Afi var og verður einstakur um ókomna tíð og minningin um hann mun alltaf lifa. Ég elska þig afi.

Bryndís Jóna
Hilmarsdóttir.

Það var alltaf gaman að sjá hvað lifnaði yfir afa Jóni þegar litlu langafabörnin komu í heimsókn. Ísabellu fannst mjög gaman að lita með afa, fá kex og safa og einnig labba um og skoða Höfða, þar sem afi Jón bjó. Það var líka sport að fá að leika með dótið sem afi Jón var með hjá sér, sýna honum kisuna og búrið hennar.

Það verður skrítið í langan tíma að geta ekki heimsótt langafa á Höfða.

Hvíl í friði, elsku afi og langafi.

Eyrún Ída Guðjónsdóttir, Marinó Rafn Guðmundsson og börn.

Elsku yndislegi afi minn. Nú er komið að því, kveðjustundinni sem ég hef kviðið svo mikið fyrir. Stundin sem ég á svo erfitt með að samþykkja að sé núna runnin upp. Það er erfitt að missa og það er erfitt að sakna en ég er þakklát fyrir allar þær fallegu minningar sem við eigum saman.

Það fór yfirleitt ekki mikið fyrir þér en þú varst alltaf sterk stoð sem hægt var að treysta á. Þegar ég hugsa til baka um minningar mínar með þér á yngri árum þá man ég svo skýrt eftir þér brosandi og hlæjandi með okkur krökkunum. Það er mér svo minnisstætt að sitja lítil í faðmi þínum þar sem þú fórst með vísuna um fingurinn sem datt í sjóinn mér til mikillar gleði. Þú varst klár, úrræðagóður og hjálpsamur sem sýndi sig á svo fjölmargan hátt í gegnum árin. Það var mér svo dýrmætt þegar þú lagaðir Barbie-dúkkuborðið mitt með því að útbúa fót á borðið úr prikinu af trúðaís. Með mikilli vandvirkni málaðir þú prikið síðan bleikt í stíl við borðið sem gerði það svo fallegt og persónulegt. Ég man eftir ófáum skiptum þar sem ég sagði vinkonum mínum stolt frá því að þessi hönnun hefði verið gerð af afa mínum Jóni.

Ég er þakklát fyrir að hafa hitt ykkur ömmu og stórfjölskylduna vikulega í skyri og þakklát fyrir öll skiptin sem við krakkarnir skemmtum okkur konunglega við að gista hjá ykkur. Þú eldaðir bestu útgáfu af hakki og spaghettí og hafðir mikinn húmor fyrir því að halda uppskriftinni leyndri.

Nærvera þín var mér svo dýrmæt og þú kenndir mér þolinmæðina, að sitja í þögninni þegar orðin þín og skilningur varð takmarkaður á síðustu árum. Eins erfitt og það var að horfa á þig hverfa inn í veikindin, þá kenndir þú mér að kunna betur að meta augnablikið og vera þakklát fyrir þann tíma sem við höfðum saman, elsku afi. Það er sárt að geta ekki lengur komið í heimsókn til þín, sjá hvernig birti yfir þér að fá barnabarnabörnin í heimsókn og finna fyrir hlýrri nærveru þinni. Það er mér erfið tilhugsun að ófæddur frumburður minn rétt missti af því að hitta þig þar sem ég var spennt að geta kynnt hann fyrir þér, elsku afi, minn. Þú skilur eftir þig mikinn söknuð en ég er þakklát fyrir að hafa átt þig að og fá að sakna dýrmætu minninganna okkar saman.

Þakka þér fyrir allar fallegu minningarnar, húmorinn og hlýjuna, elsku afi. Ég trúi því að þér líði núna vel á hlýjum og fallegum stað þar sem við munum einn daginn hittast á ný.

Hvíldu í friði, elsku afi,

Ragnheiður Eva.

Nú er sú stund upp runnin að við aðstandendur Jóns Hjálmarssonar á Ásfelli þurfum að kveðja hann. Af samferðafólki var hann alla jafna kallaður Nonni, en við systkinin og frændsystkinin kölluðum hann alltaf afa Jón, og það hafa mín börn einnig kallað langafa sinn.

Mér fannst afi alltaf svolítið feiminn eða rólegur, hann var hár maður og hraustur að vexti en var þó alltaf blíður og rólegur. Við elstu tvö systkinin gistum oft hjá ömmu og afa á Ásfelli sem börn, en þar sem við erum bæði þver og þrjósk gátum við rifist eins og hundur og köttur. Þó minnist ég þess aldrei að afi hafi skipt skapi meðan verið var að stilla til friðar.

Þau amma mín Ragnheiður Guðmundsdóttir byggðu sér hús að Ásfelli um 1967, stuttu áður en faðir minn Guðmundur fæddist, elstur sinna systkina. Á laugardögum var afkomendunum boðið í skyr, og var þar mikið spjallað, rökrætt og hlegið. Afi var þar ekki hávær en kímdi þó og hló, en hann hafði eftirminnilegan hlátur og góða nærveru. Það hefur amma mín Ragnheiður líka, og mér hefur alltaf þótt gott að vera á Ásfelli.

Þangað fórum við alltaf um áramótin og var bæði tilhlökkunarefni að fylgja ömmu og afa á brennurnar (sem þá voru fleiri), en sérstaklega að fá að fylgjast með flugeldasjónarspilinu frá Ásfelli. Hvergi annars staðar er jafn gott að bjóða nýja árið velkomið, þaðan sést yfir Akranes og yfir til höfuðborgarinnar. Við buðum svo álfana velkomna, gengum í kringum húsið og þuldum:

„Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu.“

Afi var mikill barnakarl og sögumaður. Stundum sat hann með okkur krakkana í fanginu og fór með vísur, sögur eða ævintýri sem kættu okkur. Stundum fékk maður að vera með úti í bílskúr, þar voru ýmis verkfæri og áhugaverðir munir að grúska í. Afi var vélvirkjameistari, hafði lært og starfað hjá skipasmíðastöðinni Þorgeir og Ellert á Akranesi. Á uppvaxtarárum mínum vann hann á skipinu Skeiðfaxa sem flutti til efni fyrir Sementsverksmiðjuna. Við fjölskyldan fórum oft á sunnudagsrúnta niður á bryggju til sjá Skeiðfaxa, því í huga okkar krakkanna var þetta auðvitað ekkert annað en skipið hans afa!

Á síðustu árum tók erfiður sjúkdómur að hrjá afa, og hafði það afskaplega þungbær áhrif á fjölskylduna. Með tímanum varð erfiðara að greina manninn sem við höfðum þekkt. En þó ljómaði hann allur þegar langafabörnin komu í heimsókn til hans og var hann afar blíður við þau, enda gat jafnvel móða veikindanna ekki hulið hve barngóður og hlýr einstaklingur hann var.

Við höfum þó enn hina dásamlegu ömmu mína Ragnheiði, sem hefur alltaf verið okkur mikill gleðigjafi og bæði yndisleg amma og langamma. Við munum gera okkar besta til að hlúa að henni og styðja í gegnum þann erfiða tíma sem fram undan er eftir fráfall eiginmanns hennar og besta vinar. Minning hans mun lifa áfram í huga og hjörtum okkar sem vorum svo heppin að fá að kynnast honum. Hann var góður og heiðarlegur maður.

Við hugsum til þín með hlýju og söknuð í hjarta.

Bless, afi minn.

Marinó Rafn
Guðmundsson.