„Lögreglumenn og saksóknarar eiga rétt á því að njóta öryggis í vinnu sinni,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. Hún vísar til frétta Morgunblaðsins undanfarna daga af hótunum í garð lögreglumanna og saksóknara

„Lögreglumenn og saksóknarar eiga rétt á því að njóta öryggis í vinnu sinni,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. Hún vísar til frétta Morgunblaðsins undanfarna daga af hótunum í garð lögreglumanna og saksóknara. Sagt var frá því í gær að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefði um þriggja ára skeið mátt þola hótanir af hálfu manns sem sætti ákæru og hlaut dóm.

„Við erum að sjá aukið ofbeldi, aukinn vopnaburð, við höfum séð fjölgun hnífaárása og útköllum sérsveitarinnar hefur fjölgað stórkostlega. Allt eru þetta teikn á lofti um meiri hörku. Við verðum að bregðast við þessu með því að bæta starfsumhverfi lögreglunnar og fjölga lögreglumönnum. Það er á stefnuskránni,“ segir Guðrún og bætir við:

„Árás á lögreglumann eða saksóknara er í raun mun stærra mál en árás á einstaklinginn. Með því að ráðast að þessum opinberu starfsmönnum er viðkomandi að ráðast á lög og reglu í landinu. Við treystum lögreglunni til þess að verja okkur fyrir þeim sem ekki virða lögin,“ segir Guðrún. „Ef ráðist er á laganna vörð er verið að ráðast á lögin. Og það getum við sem réttarríki ekki liðið því þá erum við að samþykkja algert virðingarleysi við lög og rétt í landinu. Það er mikilvægt að við skiljum öll merkingu þess að ráðist sé á lögreglu eða saksóknara og þar með lög og rétt – og við ættum öll að taka það alvarlega.“

Guðrún vill ekki svara því hvort nýleg dæmi séu um hótanir í garð ráðamanna og hvort auka hafi þurft gæslu af þeim sökum. hdm@mbl.is