Þorvarður Tjörvi Ólafsson
Þorvarður Tjörvi Ólafsson
Þorvarður Tjörvi Ólafsson hefur verið skipaður deildarstjóri á peninga- og fjármálamarkaðssviði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem fer fyrir deild eða einingu hjá sjóðnum

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þorvarður Tjörvi Ólafsson hefur verið skipaður deildarstjóri á peninga- og fjármálamarkaðssviði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem fer fyrir deild eða einingu hjá sjóðnum. Íslendingar hafa náð hærra í metorðastiganum hjá sjóðnum en án þess að stýra deild eða einingu. Sviðið sem hann starfar á er það stærsta innan sjóðsins. Undir hans stjórn starfa 13 sérfræðingar, auk tímabundinna starfsmanna, en meðal fastráðinna starfsmanna er Ingibjörg Guðbjartsdóttir, sem starfaði áður hjá Seðlabankanum.

Kynntist sjóðnum 2008

Þorvarður Tjörvi var áður aðstoðardeildarstjóri á peninga- og fjármálamarkaðssviði AGS. Hann hóf störf hjá sjóðnum í nóvember 2016. Haustið 2022 rakti hann aðdragandann að því í miðopnuviðtali við ViðskiptaMoggann:

„Ég hafði allt frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom í áætlunina á Íslandi [haustið 2008] haft mikinn áhuga á að koma hingað en ég öðlaðist reynslu af samstarfinu með þeim. Það var draumur sem rættist þegar ég fékk tækifæri til að koma hingað. Þá vil ég nefna að Már [Guðmundsson, fv. seðlabankastjóri] fékk gríðarlega reynslu af því að vera hjá Alþjóðagreiðslubankanum. Og maður sá hversu mikið hann hafði fengið út úr því og ég hugsaði með mér að mig langaði að starfa erlendis,“ sagði hann í viðtalinu.

Skipt í tvær deildir

Þorvarður Tjörvi var í upphafi almennur sérfræðingur hjá sjóðnum. Hann vann þá einkum við tvennt. Annars vegar við allt sem tengist fjármagnshöftum og gengismálum og hins vegar við svonefnda þjóðhagsvarúðarstefnu. Árið 2021 var deildinni sem hann starfaði á skipt í tvennt og búnar til tvær deildir. Hann var í kjölfarið gerður að aðstoðardeildarstjóra á peninga- og fjármálamarkaðssviði sjóðsins.