Elín Ellertsdóttir var fædd í Reykjavík 20. febrúar 1928. Hún lést á Skógarbæ, Hrafnistu, 21. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Ellert Kristinn Magnússon byggingameistari, f. 1.5 1897, d. 8.2. 1974, og Guðríður Þorkelsdóttir húsfreyja, f. 11.11. 1900, d. 29.10. 1987. Elín var elst fimm systkina: Guðrún Ellertsdóttir, f. 15.11. 1930, maki Guðjón Guðmundsson, f. 7.6. 1931, d. 28.2. 2023. Ásgeir B. Ellertsson, f. 20.5. 1933, d. 22.6. 2021, maki 1) Guðlaug Ragnarsdóttir, f. 11.5. 1940, d. 18.8. 1999, 2) Erika Urbancic, f. 9.5. 1945. Þorkell Steinar Ellertsson, f. 10.7. 1939, d. 7.5. 2018, maki 1) Guðrún Bjartmarsdóttir, f. 3.7. 1939, d. 13.9. 1988, 2) Hildur Sigurðardóttir, f. 26.4. 1961. Magný Ellertsdóttir, f. 21.4. 1942, maki Jóhann Gíslason, f. 3.9. 1934, d. 8.2. 2014.

Þann 20. september 1957 giftist Elín eftirlifandi eiginmanni sínum, Paul Jóhannsson, f. 8.9. 1929, í Strö kirke í Danmörku. Þau eignuðust þrjár dætur: 1) Guðrún Edda Paulsdóttir, f. 10.4. 1958, maki Benedikt Ólafsson (þau skildu). Þeirra börn eru Stefán, f. 10.2. 1986, m. Sandra Micælsdottir, f. 12.6. 1991, og Ásdís Edda, f. 2.6. 1988, maki Johan Nordgren, börn þeirra Alfred Dreki Ásdísarson Nordgren, f. 10.1. 2020, Astrid Edda Ásdísardóttir Nordgren, f. 22.3. 2022. 2) Steinunn J. Paulsdóttir-Jenkins, f. 1.12. 1959, maki Roy Jenkins og þeirra börn Daniel Royson Jenkins, f. 28.6, 1986, m. Lia Ioanniti, f. 4.2. 1985; Oliver Danielson Jenkins, f. 15.8. 1987; Hanna Elisabeth Roysdottir Jenkins, f. 5.4. 1988, m. Luke Anthony Merivale, f. 15.1. 1985, börn þeirra Elsie Jane Merivale, f. 26.3. 2021, og Constance Hazel Merivale, f. 28.11. 2023; Sarah Irene Jenkins, f. 5.10. 1990, m. Jared Csoke, f. 15.8. 1989. 3) Ásdís Paulsdóttir, f. 13.4. 1965, m. Emil Kárason (þau skildu), þeirra synir: Páll Emil Emilsson, f. 12.2. 1993, Þorgrímur Kári Emilsson, f. 27.7. 1994, m. Silvia Kucerová, f. 29.4. 1994, og Matthías Gauti Emilsson, f. 20.1. 2000.

Elín útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur í mars 1953. 1956 hélt hún utan til framhaldsnáms í skurðhjúkrun í Svíþjóð. Þar kynntist hún manni sínum Paul sem var vélfræðingur. Í Svíþjóð bjuggu þau í Västerås og eignuðust þar dætur sínar þrjár. 1974 dró Ísland þau aftur heim og þau settust að í Garðabæ því þangað mátti flytja með hundinn Eddie. Eftir veikindi stuttu eftir heimkomu var ljóst að hún gat ekki lengur unnið sem skurðhjúkrunarfræðingur og hóf því störf sem kennari og kenndi sjúkraliðum við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, kennararéttindi hlaut hún 1982. Hún saknaði alltaf hjúkrunarinnar og 65 ára fór hún í framhaldsnám í öldrunarhjúkrunarfræði í Växjö í Svíþjóð einn vetur og vann svo næstu tíu ár á Hrafnistu.

Elín söng mikið og var m.a. í tveimur kirkjukórum. Hún var virk m.a. í Kristniboðssambandinu, KFUK, Gideon og Norræna félaginu. Elín og Paul voru stofnfélagar Íslensku óperunnar og Söngskólans í Reykjavík.

Útför Elínar fer fram í Digraneskirkju í dag, 1. febrúar 2024, klukkan 13.

Í hverri fjölskyldu er til fólk sem lýsa mætti sem stórveldi. Fólk sem fjölskyldumeðlimir líta upp til, fólk sem er duglegt, hugrakkt, staðfast og traust. Þannig var Elín frænka, föðursystir okkar. Þegar við systur vorum litlar telpur bárum við strax ómælda virðingu fyrir henni.

Við erum þakklátar fyrir þær mörgu og góðu minningar sem við eigum um Elínu og samverustundir með henni, Paul og fjölskyldu þeirra. Það var alltaf gott að koma til Elínar og við fundum vel hversu velkomnar við vorum. Í Svíþjóð þar sem þau bjuggu um árabil voru það heimsóknirnar í sumarbústaðinn sem þau áttu á þeim tíma sem standa upp úr. Þar safnaðist hluti af stórfjölskyldunni saman, mikið líf og fjör og endalaus gleði í minningunni. Eftir því sem við eltumst fengum við að kynnast henni betur og því sem hún vildi standa fyrir. Hún hafði áorkað svo miklu, menntað sig, ferðast og eignast fjölskyldu. Hún bjó yfir ótrúlegum dugnaði og kjarki og lét aldrei neinn bilbug á sér finna. Hún átti mikla hlýju að gefa og samkennd sem við fengum sannarlega að reyna.

Þegar fjölskylda okkar gekk í gegnum mikla erfiðleika stóð hún með okkur eins og klettur, hún var móður okkar eins og systir, hún umvafði okkur öll og um leið eignaðist hún enn stærri sess í hjörtum okkar. Elín og Paul mættu í allar þær veislur sem fjölskyldan hélt, afmælisboð og viðburði hjá börnunum okkar, því Elín var ræktarsöm með eindæmum. Elín var frænkan sem hélt utan um stórfjölskylduna, hún opnaði heimili sitt og hélt jólaboð fyrir stórfjölskylduna um áratugaskeið. Í þeim veislum var gengið í kringum jólatréð, Paul tók frægu „rakettuna“ og stórfjölskyldan hoppaði og líkti eftir froskum og söng hástöfum „Små grodorna“. Öll börnin fengu poka með góðgæti og Elín bauð upp á sína frábæru ís-lagtertu, sem í okkar fjölskyldu var alltaf kölluð góða tertan hennar Elínar. Þessari hefð höfum við systkinabörnin viðhaldið þar sem hist er árlega í jólaboði stórfjölskyldunnar.

Þegar árin færðust yfir gerðu minnisglöp vart við sig og þar kom að hún þekkti okkur ekki. Hún hvarf á vit alzheimersjúkdómsins sem er svo miskunnarlaus og harður. En alltaf var hún glöð þegar hún fékk gesti, þá hló hún og lék við hvern sinn fingur. Og hún var mikill sælkeri og fannst gott að fá súkkulaði. Paul, hennar trúfasti eiginmaður, stóð við hlið hennar og á miklar þakkir skildar.

Elín var einstök kona, yndisleg manneskja og mikið þótti okkur vænt um hana. Við erum þakklátar fyrir allt það sem hún var okkur.

Elsku Paul, Guðrún, Steinunn, Ásdís og fjölskyldur. Við færum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum af hjarta fyrir liðna samfylgd. Minningin um góða frænku lifir.

Guðlaug Helga, Steinunn og Ragnhildur.