Vígaleg Meðlimir kokkalandsliðsins ætla sér langt á ólympíumótinu.
Vígaleg Meðlimir kokkalandsliðsins ætla sér langt á ólympíumótinu. — Ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir
„Undirbúningurinn hefur gengið vel og liðið er tilbúið,“ segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, um íslenska kokkalandsliðið sem heldur í fyrramálið til Þýskalands. Fram undan er keppni á Ólympíuleikunum í matreiðslu í …

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Undirbúningurinn hefur gengið vel og liðið er tilbúið,“ segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, um íslenska kokkalandsliðið sem heldur í fyrramálið til Þýskalands. Fram undan er keppni á Ólympíuleikunum í matreiðslu í Stuttgart þar sem margir fremstu matreiðslumenn heims koma saman og bítast um stærstu verðlaunin í keppnismatreiðslu, eins og Þórir kallar þau.

Okkar fólk hefur æft stíft undanfarna mánuði og stefnan er sett á að komast á verðlaunapall. „Við erum sem betur fer meðal þeirra bestu í matargerðarlistinni og þessi hópur er tilbúinn að takast á við verkefnið. Við förum aldrei út til annars en að vinna,“ segir Þórir í samtali við Morgunblaðið en fyrir fjórum árum hlaut kokkalandsliðið tvenn gullverðlaun og lenti samanlagt í þriðja sæti á ólympíumótinu.

Þórir segir að í liðinu sé góð blanda af reynsluboltum og nýliðum, fólki sem hafi farið út áður og öðrum sem fara nú í fyrsta sinn. „Hópurinn er sterkur,“ segir hann.

Snædís Xyza Mae Jónsdóttir er þjálfari landsliðsins en fyrirliði er Ísak Aron Jóhannsson sem hefur verið í hópnum síðan 2019. Aðrir í hópnum eru Hugi Rafn Stefánsson, Úlfar Örn Úlfarsson, Erla Þóra Bergmann Pálmadóttir, Gabríel Kristinn Bjarnason, Kristín Birta Ólafsdóttir, Jafet Bergmann Viðarsson, Bjarki Snær Þorsteinsson, Ólöf Ólafsdóttir og María Shramko.

Búnaðurinn sendur með skipi

Snædís þjálfari hefur verið tengd landsliðinu síðan 2016 og var í landsliðshópnum sem náði þriðja sæti á síðustu Ólympíuleikum. Hún starfar sem yfirkokkur á Ion Adventure og tók að sér þjálfunina í fyrra. „Við ætlum okkur alla leið, þessi hópur er tilbúinn að leggja gríðarlega mikið á sig til að ná sem bestum árangri,“ segir Snædís en æfingar hafa verið aðra hverja viku, þrjá til fjóra daga í senn, þar sem hver æfing er um tíu til fjórtán klukkustundir.

Ólympíuleikarnir verða settir á laugardaginn og mun íslenska kokkalandsliðið keppa í tveimur greinum. Fyrri keppnisgreinin er „Chef's table“, tólf manna ellefu rétta matseðill og í hinni síðari þarf að afgreiða þriggja rétta matseðil fyrir 110 manns. Að miklu er að huga í undirbúningnum og þannig flaug Þórir út í morgun svo hann gæti ferjað bíl með búnaði landsliðsins á áfangastað en bíllinn var sendur með Norrænu á dögunum.