Á Boðnarmiði yrkir Ingólfur Ómar Ármannsson: Þá er þorrinn genginn í garð: Nú er best að kýla kvið kjamsa vel og lengi. Hangiket og söltuð svið súran pung og rengi. Bragðið kæsta kætir geð kviknar bros á trýni

Á Boðnarmiði yrkir Ingólfur Ómar Ármannsson:
Þá er þorrinn genginn í garð:

Nú er best að kýla kvið

kjamsa vel og lengi.

Hangiket og söltuð svið

súran pung og rengi.

Bragðið kæsta kætir geð

kviknar bros á trýni.

Hákarlsbita í túlann treð

og teyga staup af víni.

Davíð Hjálmar Haraldsson
um sameiginleg örlög:

Fæðist ess með harðan hóf,

hreindýr, ær og geit með klauf.

Allra bíður þrotlaust þóf:

Það að bíta gras og lauf.

Limra eftir Jón Jens
Kristjánsson:

Það var tilkynnt með talsverðum þjósti

og tjóði ei stuna né hósti

að Pósturinn hrapi

í hóflitlu tapi

og sé hættur að dreifa pósti.

Enn yrkir Jón Jens og nú af því að þingmenn eru misánægðir með skrifstofurnar:

Ekki finnst þingmönnum aðstaðan fín

og ósáttir kvartanir leggj' inn

þeir fá ei að koma með koffortin sín,

koppinn né myndir á vegginn

Gunnar J. Straumland
yrkir og kallar Snjókomu:

Moksturskafald, maldringur,

mulla, snjóhreytingur.

Kófviðri og klessingur,

kyngi, skafrenningur.

Kafhríð, drífa, kófbylur

kyngja, geyfa, maldur.

Fannburðurinn fold hylur

fjári er hann kaldur.

Gunnar skrifar neðan við vísurnar: Hugsanlega koma einhver þessara orða einhverjum ókunnuglega fyrir sjónir. Hér eru skýringar á nokkrum þeirra;

maldringur – snjókoma í logni, smáger snjókoma

mulla – þétt logndrífa, snjómulla, lausamjöll

kófviðri – snæfok, snædrif sem byrgir útsýni, snjór sem hvirflast upp í skafrenningi

klessingur – slydda, blautur snjór

kyngi – snjóþyngsli

kafhríð – blindbylur, sortahríð

drífa – snjókoma, logndrífa

kyngja – skafl, snjódyngja

geyfa – hríðarkóf

maldur – smáger snjókoma