Vinsældir Um 15 þúsund ferðamenn komu í Þríhnúkagíg í fyrra.
Vinsældir Um 15 þúsund ferðamenn komu í Þríhnúkagíg í fyrra. — Morgunblaðið/Golli
„Við erum með lokað í vetur og það er ekki stefnt að opnun fyrr en í maí. Fram að því fylgjumst við grannt með stöðu mála og hvernig þau þróast,“ segir Ólafur Þór Júlíusson, einn aðstandenda ferðaþjónustufyrirtækisins In­side the Volcano sem býður upp á ferðir í Þríhnúkagíg

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Við erum með lokað í vetur og það er ekki stefnt að opnun fyrr en í maí. Fram að því fylgjumst við grannt með stöðu mála og hvernig þau þróast, segir Ólafur Þór Júlíusson, einn aðstandenda ferðaþjónustufyrirtækisins In­side the Volcano sem býður upp á ferðir í Þríhnúkagíg.

Þríhnúkagígur er skammt frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum og því vakna spurningar um öryggi ferða þangað í ljósi frétta af jarð­skjálftum og virkni á þessu svæði. Um 15 þúsund ferðamenn komu í Þríhnúkagíg á síðasta ári að sögn Ólafs.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í byrjun vikunnar kann hrina jarðskjálfta sem hófst skammt suðaustur af Heiðmörk á föstudag að gefa til kynna kvikusöfnun á töluverðu dýpi. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, sagði að skjálftarnir gætu verið vegna uppbyggingar spennu neðst í jarðskorpunni en þeir gætu líka gefið til kynna kvikusöfnun þar undir. Sagði Þorvaldur að við þyrftum að búa okkur undir frekari virkni á þessu svæði þótt hann efaðist um að jarðskjálftarnir leiddu til umbrota á næstunni.

Ólafur segir að fram til þessa hafi ekki mikið orðið vart við jarðskjálftahrinur á svæðinu meðan ferðaþjónustan hefur verið opin. Vísar hann þá m.a. til jarðskjálfta í námunda við Grindavík síðustu misseri og ár. Auðvitað fylgjumst við þó með hvernig þetta mun þróast ef skjálftar eru að færast austur eftir, segir hann og bætir við að ekki sé tímabært að segja til um hvað verði í framtíðinni. Staðan verði tekin í vor.