Afli Íslensku fiskiskipin lönduðu aðeins minni afla í fyrra en árið áður. Verulegur samdráttur varð í þorskafla en ýsuaflinn jókst myndarlega.
Afli Íslensku fiskiskipin lönduðu aðeins minni afla í fyrra en árið áður. Verulegur samdráttur varð í þorskafla en ýsuaflinn jókst myndarlega. — Morgunblaðið/Hafþór
Heildarafli íslenska fiskiskipaflotans árið 2023 var tæplega 1.379 þúsund tonn sem er 3% minni afli en árið 2022. Uppsjávarafli var 946 þúsund tonn og dróst saman um 1% frá fyrra ári en botnfiskafli nam 403 þúsund tonnum sem er 7% minni afli en árið 2022, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Heildarafli íslenska fiskiskipaflotans árið 2023 var tæplega 1.379 þúsund tonn sem er 3% minni afli en árið 2022. Uppsjávarafli var 946 þúsund tonn og dróst saman um 1% frá fyrra ári en botnfiskafli nam 403 þúsund tonnum sem er 7% minni afli en árið 2022, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Meðal botnfisktegunda var landað mest af þorski og var aflinn rúm 220 þúsund tonn sem er 23 þúsund tonnum minna en árið 2022. Mesti hlutfallslegi samdráttur meðal botnfisktegunda var í ufsa og endaði afli ársins 2023 í 42 þúsund tonnum sem er 32% minna en árið á undan. Góður vöxtur var þó í ýsuaflanum sem jókst um 22% milli ára og nam aflinn rúmlega 69 þúsund tonnum.

Uppsjávarskipin skiluðu myndarlegum kolmunnaafla í fyrra og lönduðu tæplega 293 þúsund tonnum sem er 53% meira en árið á undan. Makrílaflinn jókst um 9% og var 141 þúsund tonn. Loðnuaflinn dróst hins vegar saman um 28% og endaði í 325 þúsund tonnum.

Þá jókst flatfiskaflinn um 10% milli ára og nam rúmlega 23 þúsund tonnum á síðasta ári, en skel- og krabbadýraafli dróst saman um 6% milli ára og nam 5.773 tonnum.

Samdráttur í desember

Í desembermánuði var heildarafli íslenskra fiskiskipa 46.451 tonn sem er 4% minna en í desember 2022. Þá nam þorskaflinn 17 þúsund tonnum sem er svipað og sama mánuð árið á undan, en 26% samdráttur varð í ufsa og var aflinn 1.896 tonn.

Kolmunnaaflinn í desember síðastliðnum var 12 þúsund tonn sem er 174% aukning frá desember 2022, en síldaraflinn dróst saman um 38% og endaði í 6.305 tonnum.