Með börnunum Hjörtur og börn, en myndin er tekin á Helgafelli.
Með börnunum Hjörtur og börn, en myndin er tekin á Helgafelli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörtur Jóhann Hinriksson er fæddur 1. febrúar 1944 á Helgafelli á Snæfellsnesi. „Ég fæddist í húsi á hlaðinu á Helgafelli sem langamma og langafi minn, Ástríður og Jónas, byggðu. Þau voru fyrstu ábúendur þessarar ættar og fluttu árið 1888…

Hjörtur Jóhann Hinriksson er fæddur 1. febrúar 1944 á Helgafelli á Snæfellsnesi.

„Ég fæddist í húsi á hlaðinu á Helgafelli sem langamma og langafi minn, Ástríður og Jónas, byggðu. Þau voru fyrstu ábúendur þessarar ættar og fluttu árið 1888 þangað og bjuggu ásamt sonum sínum Þorgeiri og konu hans Ingibjörgu Björnsdóttir og Þorsteini og konu hans Þorleifu Sigurðardóttur ljósmóður sem tók á móti mér þegar ég fæddist.“

Árið 1966 tók Hjörtur Jóhann við búinu ásamt foreldrum sínum, en hann tók síðar alfarið við búinu ásamt eiginkonu sinni Kristrúnu Guðmundsdóttur sem ættuð var frá Hofsósi. Hann stækkaði fjósið árið 1980 og fjölgaði þá kúnum. Hann byggði einnig fjárhús árið 1964 og eru þau notuð enn í dag. Fyrstu árin bjuggu Hjörtur Jóhann og Kristrún í íbúð ásamt foreldrum Hjartar, en árið 1972 byggðu þau sjálf og hófu sjálfstæðan búskap með tvær dætur sínar og einn nýfæddan son.

Einnig hefur Hjörtur verið í sóknarnefnd ásamt því að vera meðhjálpari kirkjunnar til fjölda ára og sinnt Helgafellskirkju vel, en þar eru ýmis verk sem þarf að sinna. Einnig sat Hjörtur Jóhann í hreppsnefnd Helgafellssveitar um margra ára skeið.

Alltaf hefur verið gestkvæmt á Helgafelli og margir ættingjar og vinir heimsótt staðinn ásamt þúsundum ferðamanna ár hvert. Saman eignuðust Hjörtur og Kristrún sjö börn, en þau eru Jóhanna Kristín, Ástríður, Guðmundur Helgi, Hinrik, Ragnheiður, Óskar og Ósk. Árið 1991 veiktist Kristrún mikið en hún lést árið 1993. Jóhanna elsta dóttir Hjartar tók þá við heimilinu og ól yngstu systkini sín upp og kom þeim í móðurstað.

Árið 2014 var jörðinni skipt á milli systkinanna, en allir bræðurnir eru með smá búskap á jörðinni. Bræðurnir eru hver með sitt fjárhús á sinni landareign en allir stunda þeir aðra vinnu með.

Helgafell er sögustaður sem margur ferðalangur heimsækir og hefur fjöldinn aukist undanfarin ár. Hjörtur hefur því seinni árin sinnt ferðaþjónustu sem hann og dóttir hans Jóhanna eiga og taka þau á móti fólki yfir sumartímann eða frá byrjun maí til nóvember.

„Helgafell er fallegur ferðamannastaður sem gaman er að koma á og skoða. Helgafell á sér langa sögu þar sem þekktar persónur Íslendingasagnanna hafa búið ásamt því að eitt af ríkustu klaustrum landsins var þar. Mikill straumur er á fellið, bæði til að njóta útsýnisins eða bera upp óskirnar þrjár, samkvæmt ákveðinni hefð sem farið er eftir.“

Fjölskylda

Eiginkona Hjartar var Kristrún Guðmundsdóttir, f. 27.6. 1945, d. 30.7. 1993, húsfreyja á Helgafelli ásamt ýmsum störfum utan heimilis. Foreldrar Kristrúnar voru hjónin Guðmundur Jóhann Jónsson, f. 4.6. 1905, d. 27.4. 1971, vann við bókhald hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, og Jóhanna Guðrún Sigmundsdóttir, f. 27.5. 1910, d. 20.12. 2000, vann í fiski og sem húsmóðir. Þau bjuggu á Hofsósi.

Börn Hjartar og Kristrúnar eru 1) Jóhanna Kristín Hjartardóttir, f. 4.6. 1966, sjúkraliði og rekur ferðaþjónustu á Helgafelli, búsett þar; 2) Ástríður Hjartardóttir, f. 5.8. 1967, leikskólakennari, búsett í Reykjavík. Fyrrverandi maki: Kjartan Friðjónsson, f. 20.11. 1965. Þeirra börn eru Kristrún, Friðjón Helgi, Hjörtur Snær, Guðrún Harpa; 3) Guðmundur Helgi Hjartarson, f. 1.4. 1972, sauðfjárbóndi á Helgafelli og rútubílstjóri. Maki: Lára Björg Björgvinsdóttir, f. 15.1. 1984, bóndi og vinnur við ferðaþjónustu. Þeirra börn eru Emilía Ósk, Viktor Brimir, Methúsalem Páll, Gunnar, Björgvin, og Hulda Mjöll; 4) Hinrik Hjartarson, f. 28.5. 1974, húsasmíðameistari og bóndi á Helgafelli, búsettur á Lyngholti skammt þar frá. Maki: Guðmunda Þórunn Ragnarsdóttir, f. 18.4. 1970. Börn: Guðmundur Ragnar, Margeir Ingi, Almar Njáll og Thelma Lind; 5) Ragnheiður Hjartardóttir, f. 25.4. 1978, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík. Maki: Sigurður Hreiðarsson f. 16.7. 1977, bóndi á Narfeyri á Skógarströnd. Barn: Salka; 6) Óskar Hjartarson, f. 15.4. 1987, rafvirkjameistari og bóndi á Helgafelli, búsettur á Felli skammt þar frá. Maki: Gunnhildur Gunnarsdóttir, f. 17.8. 1990, kennari. Þeirra synir eru Aron Ingi, Elvar Örn; 7. Ósk Hjartardóttir, f. 15.4. 1987, skólaliði, búsett á Litla-Felli. Fyrrverandi maki: Sigurður Hallvarðsson, f. 7.12. 1982. Þeirra börn eru Hjörtur Jóhann, Jóhanna Kristrún, Hallvarður Hinrik. Núverandi maki: Benedikt Páll Hauksson f. 20.9.1991.

Systkini Hjartar eru 1) Auður Hinriksdóttir, f. 28.4. 1934; 2) Ingibjörg Þorgerður Hinrikdóttir, f. 8.10. 1936; 3) Birgir Hinriksson, f. 25.5. 1940; 4) Gunnar Hinriksson, f. 11.11. 1946; 5) Sjöfn Hinriksdóttir, f. 5.1. 1948; 6) Haraldur Hinriksson, f. 12.6. 1952, og 7) Brynjar Olgeirsson, f. 13.11. 1954 (uppeldisbróðir).

Foreldrar Hjartar voru hjónin Hinrik Jóhannsson, f. 16.2. 1905, d. 8.4. 2002, bóndi á Helgafelli, og Ragnheiður Þorgeirsdóttir, f. 5.5. 1910, d. 4.9. 2002, húsmóðir á Helgafelli.