Umboðsmanni skuldara bárust í fyrra 702 umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda en árið 2022 voru umsóknirnar 727. Árið 2024 fer hins vegar bratt af stað. Nú þegar hafa 77 sótt um aðstoð að sögn Söru Jasonardóttur, verkefnastjóra fræðslu og kynningarmála hjá umboðsmanni skuldara

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Umboðsmanni skuldara bárust í fyrra 702 umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda en árið 2022 voru umsóknirnar 727. Árið 2024 fer hins vegar bratt af stað. Nú þegar hafa 77 sótt um aðstoð að sögn Söru Jasonardóttur, verkefnastjóra fræðslu og kynningarmála hjá umboðsmanni skuldara.

„Það er einhver smávægileg fækkun á milli ára en það hefur reyndar verið stöðug fækkun síðustu árin,“ segir Sara og bætir við að í raun sé ekkert sem skýri þessa þróun. „Nema þá bara vonandi að fólk hafi ekki haft ástæðu til að koma til okkar á þessum árum.“

Janúar hefst með látum

Að sögn Söru byrjar árið skarplega, en eins og fyrr segir hafa nú tæplega 80 umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda borist umboðsmanni skuldara. „Það eru til að mynda alltaf færri umsóknir hjá okkur í desember, en í fyrra voru þær 35 samanborið við þessar 77 sem hafa nú þegar borist í janúar,“ segir hún. Innt eftir því hvort mögulega megi skýra þessa skörpu byrjun vegna ástandsins í Grindavík, og þá hvort Grindvíkingar séu að leita til þeirra í auknum mæli, segir hún svo ekki vera. „Við höfum ekki séð það enn þá og við erum ekki að sjá neina marktæka aukningu hjá einstaklingum með fasteignalán, hjá þeim sem búa í eigin fasteign. Stærsti hópurinn okkar hefur alltaf verið einstaklingar á leigumarkaði, þ.e.a.s. eftir að þessi svokölluðu hrunmál kláruðust.“

Nefnir Sara í beinu framhaldi að sá hópur sé allt að 70% þeirra sem sæki um aðstoð þó að hann fari aðeins minnkandi. „Tilfærslan virðist ekki vera yfir í eigið húsnæði en 9% þeirra einstaklinga sem sóttu um í fyrra voru í eigin húsnæði á meðan yfir 50% voru á leigumarkaði.“

Betra að bregðast snemma við

Þá bendir Sara á að helst fjölgi umsóknum hjá fólki sem sé húsnæðislaust og búi jafnvel í foreldrahúsum.

„Yngsti aldurshópurinn, 18-29 ára, fór hæst í 37% hjá okkur en hann hefur nú sem betur fer minnkað. Hann er þó alltaf í kringum 24-26% og var til dæmis 24% í fyrra. Svo er alltaf stærsti hópurinn hjá okkur á aldrinum 30-39 ára, en hann var 36% í fyrra. Þetta er aldurinn sem er yfirleitt með þyngsta reksturinn,“ segir hún og útskýrir að eitt af hlutverkum umboðsmanns skuldara sé að veita einstaklingum ókeypis aðstoð við að ná yfirsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausna á fjárhagsvanda. Tekur Sara fram að ráðgjöf geti hentað þeim einstaklingum sem hafi misst yfirsýn yfir fjárhagsstöðu sína og vilji öðlast betri sýn á stöðuna. Einnig þeim sem glími við greiðsluerfiðleika og viti ekki hvernig skuli bregðast við þeim, þeim sem hafi árangurslaust reynt samninga við kröfuhafa og þeim sem sjái fram á að fjárhagsstaða þeirra versni og vilji bregðast við áður en í óefni er komið.

Skellur eftir jólareikninginn

Ef rýnt er í tölur síðustu ára má sjá að í marsmánuði eru töluvert fleiri umsóknir en í apríl. Segir Sara að þar komi einna helst til greina allir þessir greiðslumöguleikar sem í boði séu fyrir fólk í dag, svo netgíró. „Það þarf að borga jólareikninginn í febrúar og þá eru margir að koma í mars til okkar og netgíró er mjög stór, þannig að það er kannski það eina sem við tengjum við og skýrir þennan mun á milli mánaða. Áður fyrr var þetta frekar febrúarmánuður því í lok janúar kom alltaf stór visa-reikningur. Við höfum ekki getað greint þetta sérstaklega en þetta er svona það eina sem við getum tengt þetta við, þetta er aðeins búið að færast til frá því sem áður var,“ segir hún og bætir við að lokum að vissulega fari þó árið núna brattar af stað en oft áður. En skyldi það vera vísbending um það sem koma skal á árinu?

„Það er góð spurning. Tilfinningin okkar er sú að það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur það sem af er ári, mikið um símhringingar og fólk að leita ráða sem er jafnvel búið að halda svolítið í sér fram að þessu.“