Þó að baráttan um enska meistaratitilinn í fótbolta virðist ætla að verða spennandi til vorsins eru líka skemmtilegir hlutir að gerast á hinum enda stigatöflunnar. Þegar Luton Town vann sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í 31 ár síðasta vor spáðu…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þó að baráttan um enska meistaratitilinn í fótbolta virðist ætla að verða spennandi til vorsins eru líka skemmtilegir hlutir að gerast á hinum enda stigatöflunnar.

Þegar Luton Town vann sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í 31 ár síðasta vor spáðu eflaust flestir aðrir en Stefán Pálsson því að liðið yrði langneðst í deildinni og myndi tæplega vinna leik.

Rætt var um að stigaleysismet ónefnds félags frá tímabilinu 2007-2008 yrði jafnvel slegið.

Eftir stórsigur á Brighton, 4:0, í fyrrakvöld komst Luton úr fallsæti og á greinilega ágætis möguleika á að halda velli.

Fyrir aðeins tíu árum var Luton utandeildalið, sem hafði misst sæti sitt í deildakeppninni árið 2009 eftir þungar stigarefsingar vegna fjárhagsóreiðu.

Íslendingar af yngri kynslóðum kannast aðallega við Luton vegna flugvallarins í útjaðri borgarinnar, skammt norður af London, en tengslin við Ísland eru þó söguleg.

Ekki bara vegna þess að áðurnefndur Stefán er dyggur stuðningsmaður félagsins, heldur vegna þess að Luton mætti til Íslands í vetrarveðri í janúar 1985 og spilaði vígsluleik gervigrasvallarins í Laugardal gegn Reykjavíkurúrvali.

Þá voru kappar eins og Ricky Hill, Steve Foster, Mick Harford og Brian Stein í búningi Luton, sem var gott lið í efstu deild á þessum árum, endaði m.a. í sjöunda sæti tveimur árum síðar og vann deildabikarinn 1988.

Luton var um þetta leyti eitt skemmtilegasta lið Englands á að horfa. Félagið hefur á seinni árum gengið í gegnum ótrúlegar hremmingar og það yrði eitt af betri ævintýrum enska fótboltans ef því tækist að halda sæti sínu í deild þeirra bestu, tíu árum eftir sigurinn í utandeildinni.