Metanól Jiangsu Sailboat Petrochemical í Kína endurvinnur yfir 300.000 tonn af CO2 árlega með tækni frá CRI.
Metanól Jiangsu Sailboat Petrochemical í Kína endurvinnur yfir 300.000 tonn af CO2 árlega með tækni frá CRI.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur ráðið Lotte Rosenberg sem nýjan forstjóra fyrirtækisins. Björk Kristjánsdóttir, sem sinnt hefur starfi forstjóra tímabundið frá 2022, hefur tekið við nýrri stöðu framkvæmdastjóra rekstrar- og fjármálasviðs.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur ráðið Lotte Rosenberg sem nýjan forstjóra fyrirtækisins. Björk Kristjánsdóttir, sem sinnt hefur starfi forstjóra tímabundið frá 2022, hefur tekið við nýrri stöðu framkvæmdastjóra rekstrar- og fjármálasviðs.

Rosenberg hefur yfirgripsmikla reynslu innan orkuiðnaðarins og starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá dönsku félögunum Ørsted, stærsta vindorkufyrirtæki heims, og sjálfbæra gasframleiðandanum Nature Energy, sem selt var til Shell á síðasta ári. Síðast starfaði hún sem forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins WPU, sem sérhæfir sig í endurnýjun plastúrgangs yfir í olíu. Hjá fyrri félögum leiddi hún stefnumótandi vöxt, þróun alþjóðlegs samstarfs og uppbyggingu starfsstöðva í Evrópu og Norður-Ameríku.

„Ég mun hefja störf á fimmtudag [í dag],“ segir Rosenberg í samtali við Morgunblaðið og kveðst spennt fyrir því að nýta reynslu sína til þess að leiða vaxtarskeið félagsins á ört vaxandi mörkuðum fyrir grænar tæknilausnir.

Byrjaði í fyrirtækjalögfræði

Rosenberg, sem er dönsk og lögfræðingur að mennt, segist aðspurð um reynslu sína í orkugeiranum fyrst um sinn hafa stundað fyrirtækjalögfræði og sinnt samrunum – og yfirtökum m.a.

„Svo fór ég í MBA-nám erlendis og komst að því að það heillaði mig að vinna í viðskiptunum sjálfum. Ég vildi sitja hinum megin borðsins,“ segir hún og brosir.

„Ég var svo heppin að fá vinnu í viðskiptaþróun hjá Ørsted árið 2007. Það var frábær reynsla og ég endaði á að starfa hjá félaginu í tólf ár. Ég lærði mikið um orkubransann og fékkst við allt frá orkuverum og vindorkugörðum yfir í framleiðslu á vetni og endurnýjanlegu gasi. Vinna mín sneri sem sagt mikið að stefnumótun og grænni umbreytingu félagsins.“

Hún segir að hennar svið hafi skilað 700 milljóna danskra króna hagnaði árlega (14 milljarðar króna) og hún hafi verið framkvæmdastjóri í einu af þremur dótturfélögum Ørsted.

„Þarna öðlaðist ég reynslu sem stjórnandi og fékk mikla ástríðu fyrir forystu.“

Frá Ørsted tók hún við sem framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og þróunar hjá Nature Energy.

„Ég kynntist því félagi í gegnum Ørsted. Þar var ég með breiða ábyrgð, allt frá stefnumótun til rannsókna og þróunar. Nature Energy var í eigu alþjóðlegra fjárfesta og danskra lífeyrissjóða. Það hafði mikinn metnað fyrir vexti. Reynsla mín hjá Ørsted í að skala upp verkefni og fyrirtæki kom þar að góðum notum. Það var mjög spennandi vaxtarferðalag. Fyrirtækið tvöfaldaðist að stærð og kom sér fyrir bæði á Bandaríkjamarkaði og í Kanada, Frakklandi og Hollandi. Við völdum okkur markaði þar sem við töldum okkur hafa samkeppnisforskot.“

Að lokum var félagið selt til olíurisans Shell eins og fyrr sagði.

Sannreynd tækni

Hjá CRI taka svipuð verkefni við hjá Rosenberg.

„Reynsla mín mun vafalaust nýtast vel. Tækni CRI hefur verið sannreynd og nú þurfum við að setja meiri kraft í útrásina og fjölga verkefnum.“

Rosenbeg segir að sú staðreynd að hjá CRI hafi hún sterkan stuðning frá hluthöfum og reynslumikið stjórnendateymi muni gefa henni traustan grunn til að laða að hæfileikaríkt fólk og taka leiðandi stöðu á markaði.

„Þess vegna fannst mér CRI svo spennandi.“

Spurð um fyrstu kynni af CRI segir Rosenberg að hún hafi upphaflega kynnst því í gegnum kollega hjá Nature Energy.

„Hann fór til Íslands og heimsótti CRI og kom til baka mjög spenntur fyrir því sem hann sá. Þegar ég kynntist fólkinu líkaði mér strax vel við það og fékk góða tilfinningu.“

Hún segir að það hjálpi til hvað íslensk og dönsk fyrirtækjamenning sé lík.

„Viðhorfið er blátt áfram í báðum löndum og við erum ófeimin að segja okkar skoðun. En það sem mér líkaði best við var hve tækni CRI er einstök. Það eru mörg fyrirtæki í heiminum sem búa yfir tækni á þessu sviði sem er enn á þróunarstigi en hér er tæknin tilbúin til útflutnings og notkunar og er skalanleg. Vörumerkið er orðið þekkt í geiranum, sem skiptir einnig máli þegar þarf að eiga í samskiptum við stærri fyrirtæki.“

Ekki er langt síðan CRI lauk við fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu. Aðspurð segir Rosenberg að þeir fjármunir eigi eftir að duga vel inn í komandi vaxtaráform. Það sé einnig traustsyfirlýsing af hafa fengið fjármagnið á erfiðum tímum á fjármagnsmörkuðum síðastliðin tvö ár.

„Við höfum nægt fjármagn til að framfylgja núverandi stefnu og verkefnastöðu og það er ekki þörf á að afla meira fjár að sinni,“ segir Rosenberg, sem hyggst leggja fram fimm ára áætlun fyrir CRI.

Mest aðlaðandi

Um vaxtaráætlunina segist Rosenberg ætla að velja þá markaði sem séu mest aðlaðandi til að vaxa á og einnig að horfa til náins samstarfs við önnur félög.

„Það eru ýmsar breytur sem þarf að taka tillit til en það er mikil eftirspurn eftir metanólinu sem framleitt er með sannreyndri tækni okkar.“

Rosenberg hefur nú þegar kynnst starfsfólki CRI.

„Það var eitt af því sem ég kynnti mér vel áður en ég tók ákvörðunina um starfið. Ég fann að fólkið er ástríðufullt með djúpa þekkingu og hefur margt starfað hjá CRI um árabil,“ segir Rosenberg, sem sér fram á að ferðast mikið á næstunni, bæði til að hitta tilvonandi viðskiptavini og sækja ráðstefnur í orkugeiranum.

„Ég vil að CRI verði leiðandi framleiðandi endurnýjanlegs metanóls í framtíðinni og ég vil setja metnaðarfull markmið. Ég þori samt ekki að nefna neinar tölur að svo stöddu,“ segir Rosenberg að lokum og hlær við.

CRI

  • Frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu.
  • Umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti.
  • Tvær stærstu og skilvirkustu efnaverksmiðjur í heimi sem nýta fangaðan koltvísýring sem hráefni byggja á verkfræðihönnun, tækni og búnaði sem CRI hefur útvegað.