Íslenski fáninn Bráðatæknar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu eru auðkenndir með þjóðfánanum.
Íslenski fáninn Bráðatæknar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu eru auðkenndir með þjóðfánanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is „Utanríkisráðuneytið leitaði til slökkviliðsins í apríl í fyrra með ósk um hvort Ísland gæti aðstoðað við þjálfun úkraínskra hermanna og erum við nú þegar búnir að þjálfa 250 manns,“ segir Hlynur Höskuldsson, deildarstjóri á aðgerðasviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Utanríkisráðuneytið leitaði til slökkviliðsins í apríl í fyrra með ósk um hvort Ísland gæti aðstoðað við þjálfun úkraínskra hermanna og erum við nú þegar búnir að þjálfa 250 manns,“ segir Hlynur Höskuldsson, deildarstjóri á aðgerðasviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn Hlyns er um að ræða verkefni sem Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu vinnur fyrir ráðuneytið. Segir hann þetta í annað sinn sem ráðuneytið hafi leitað til slökkviliðsins um aðstoð í slíkum málum, en fyrir tæpum 20 árum var slökkviliðið kallað til í verkefni þegar Ísland var með friðargæslu í Afganistan.

Einu þjálfararnir á staðnum sem ekki eru hermenn

„Hér er um að ræða verkefni sem bráðatæknar frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sjá um, en það snýst í raun og veru um að þjálfa úkraínska hermenn sem bráðaliða. Námskeiðið kallast Combat Medical Corpsman, en á hverju námskeiði eru um 50 nemendur,“ segir Hlynur og bætir því við að verkefnið sjálft sé á vegum breska hersins og fari því fram í Bretlandi.

Segir hann ástæðuna fyrir því að leitað sé til Íslands vera þá sérþekkingu sem íslenskir bráðatæknar búi yfir.

„Það eru leiðbeinendur frá Hollandi á námskeiðinu líka en við Íslendingarnir erum í raun og veru þeir einu sem þjálfa en eru ekki hermenn. Námskeiðin standa alltaf yfir í 5-6 vikur og því höfum við verið að senda mannskap út í þann tíma til að aðstoða við þetta, en um nokkrar tegundir af námskeiðum er að ræða.“

Verkefnið ekki óvanalegt

Segir Hlynur að með þjálfuninni sé bráðaliðum, þ.e.a.s. úkraínsku hermönnunum, kennt að sinna slösuðum og veikum á vígvellinum, þar sem helstu inngrip séu stöðvun meiriháttar blæðinga, sérhæfð öndunarvegsinngrip, nálauppsetningar, lyfjagjafir og brottflutningur slasaðra. Þá tekur hann fram að flestir áverkarnir séu eftir loft- eða skotárásir og jarðsprengingar.

„Verkefnið er enn í fullum gangi en við erum eins og fyrr segir búnir að þjálfa 250 manns og það er þegar búið að staðfesta að við séum að fara að taka þátt í að þjálfa 100 manns í viðbót. Þessu verður svo eflaust framhaldið,“ segir hann.

Spurður í framhaldinu hvort verkefnið sé ekki heldur óvanalegt fyrir íslenska bráðatækna segir Hlynur svo ekki vera, þar sem allir sem fari út séu vanir að kenna.

„Þetta eru fræði sem við höfum alveg verið að nota, kannski ekki hernaðarhlutinn, enda sjá Bretarnir um allt sem kemur að æfingum á sprengjuárásum og slíku. En um leið og fólk er orðið slasað eða veikt nýtist sérþekking okkar. Við berum því í rauninni ábyrgð á allri kennslu á meðferð og að sinna öllum slösuðum, það er sérþekking okkar í þessu.“

Gríðarlegt mannfall

Þá segir Hlynur að þegar hermennirnir hafi fengið þessa tilteknu þjálfun séu þeir sendir á víglínuna, þar sem sérþekking þeirra nýtist til að sinna þeim særðu.

„Sumir þeirra koma beint af víglínunni og fara svo rakleitt þangað aftur. Aðrir hafa hins vegar aldrei farið á víglínuna og svo eru sumir sem byrjuðu bara í hernum tveimur vikum áður en þeir komu á þetta námskeið til okkar. Þannig að 90% af þessu fólki er óbreyttir borgarar sem eru allt í einu orðnir hermenn.“

Hlynur tekur fram í kjölfarið að þegar Úkraínumennirnir séu komnir með þá menntun sem þeir fái á námskeiðinu séu þeir að vissu leyti orðnir dýrmætari en aðrir hermenn, þar sem þeir geti sinnt þeim slösuðu og hjálpað þeim að komast aftur á víglínuna.

„Þegar þeir eru orðnir svona dýrmætir ættu þeir ekki að vera fremst á víglínunni en þeir eru samt mjög framarlega. Það sorglega við þetta er að á undanförnum námskeiðum falla um 10-25% af nemendum okkar þegar þeir mæta á víglínuna, það er því gríðarlegt mannfall,“ segir hann og bætir við að bæði Bretarnir og Úkraínumennirnir hafi sagt þeim að eftir þessi námskeið séu þessir hermenn oftar en ekki orðnir að skotmörkum. „Þetta er víst þannig að Rússar reyna fyrst að taka út alla stjórnendur og svo þennan hóp. Það er gert svo að þeir geti ekki hjálpað þeim særðu að berjast áfram.“

Sjálfur hefur Hlynur kennt á þessum námskeiðum og spurður hvernig það sé að snúa svo aftur heim í hið daglega líf og venjubundna starf segir hann flest vandamál blikna í samanburði við það sem þessir nemendur standi frammi fyrir. „Öll okkar vandamál hér á Íslandi verða einhvern veginn alveg rosalega smá, fyrir utan kannski vandamálin í Grindavík. Öll þessi hversdagslegu vandamál sem fólk er að fást við eru hálfgerður brandari miðað við hvað þetta fólk þarf að kljást við,“ segir hann að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir