Framúrskandi Aðalverðlaunahafarnir Þröstur Flóki Klemensson og Eybjört Ísól Torfadóttir. Til vinstri Eliza Reid forsetafrú og hægra megin Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Framúrskandi Aðalverðlaunahafarnir Þröstur Flóki Klemensson og Eybjört Ísól Torfadóttir. Til vinstri Eliza Reid forsetafrú og hægra megin Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Heimurinn allur var undir í frásögnum sem bárust í samkeppni Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (SÞ) um heimsmarkmið samtakanna og inntak þeirra. Keppnin var meðal nemenda í framhaldsskólum og efstu bekkjum grunnskóla

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Heimurinn allur var undir í frásögnum sem bárust í samkeppni Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (SÞ) um heimsmarkmið samtakanna og inntak þeirra. Keppnin var meðal nemenda í framhaldsskólum og efstu bekkjum grunnskóla. Félag SÞ á Íslandi er 75 ára um þessar mundir og af því tilefni var efnt til þessarar samkeppni, sem mæltist vel fyrir. Margar áhugaverðar frásagnir bárust, en þær máttu vera ritgerðir, pistlar, ljóð, myndmál eða hver sú leið sem þátttakendum hentaði best.

17 markmið í 193 löndum

„Þær fylla mig bjartsýni, þessar frábæru frásagnir krakka sem vilja öll gera heiminn aðeins betri,“ sagði Eliza Reid forsetafrú þegar hún afhenti verðlaunin. Eliza átti sæti í nefndinni sem lagði dóm á ritgerðirnar auk þess sem hún er verndari Félags SÞ á Íslandi.

Heimsmarkmið SÞ eru frá september árið 2015 og voru þá samþykkt af öllum aðildarríkjunum 193 að tölu. Markmiðin eru 17 og undirgreinar þeirra 169 og ná þau jafnt til innanlandsmála sem alþjóðastarfs. Engin fátækt eða hungur eru tvö markmiðanna sem nú gilda, en önnur sem tiltaka má eru menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, sjálfbær orka, sjálfbærni og loftslagsmál.

Tvö fengu aðalverðlaun

Aðalverðlaunahafar í samkeppninni voru Þröstur Flóki Klemensson úr Háteigsskóla við Reykjavík, með söguna sína um Anahi og Berglindi, og Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík, með smásögur sínar um heimsmarkmiðin. Þau vinna bæði flug og gistingu, ásamt forráðamönnum sínum, í New York nú í vor í boði Icelandair. Heimsækja þau höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og kynnast starfsemi þeirra og fastanefnd Íslands þar.

„Sagan mín er um stúlku frá Íslandi og Anahi, sem er frá Íran. Þarna er fjallað um börn í ólíkum löndum sem eiga sér þó svipuð áhugamál. Þau ganga hvort um sig í gegnum ýmis ævintýri og enda svo í lokin á sama stað; hvar annars staðar en á ráðstefnu um alþjóðleg málefni,“ segir Þröstur Flóki, sem er í 10. bekk.

Aðspurður segir hann að söguskrifin hafi verið krefjandi og að mörgu verið að hyggja, svo sem í heimildaleit um aðstæður barna í Íran. Þetta hafi þó náð vel til sín, en Þröstur Flóki segist hafa mikinn áhuga á alþjóðlegu starfi og er áfram um að starfa á þeim vettvangi í fyllingu tímans. Því verði mjög spennandi að heimsækja New York og kynnast starfsemi SÞ þar.

Eybjört Ísól Torfadóttir skrifaði í einum texta fjórar örsögur um nokkur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þeirra. Ein sagan var til dæmis um stúlku sem lent hafði í kynferðislegu ofbeldi og hin um barn sem upplifði stríð og missti fjölskyldu sína. „Ég skrifaði í fyrstu persónu svo að skilaboðin kæmust vel á framfæri,“ segir Eybjört, sem kveðst hafa verið sískrifandi frá því að hún man eftir sér. Móðir hennar hafi svo hvatt hana til að taka þátt í keppninni nú og því sjái hún ekki eftir. „Já, ég held að flestir krakkar viti af heimsmarkmiðunum, enda er vel farið yfir þetta í efstu bekkjum grunnskóla,“ segir Eybjört.

Hvað ef allt hverfur?

Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, nemandi í Giljaskóla á Akureyri, hlaut aukaverðlaun fyrir ritgerðina Hvað ef allt hverfur? Þá fengu nokkur aukaverðlaun, nemendur sem skrifuðu um mikilvægi heimsmarkmiðanna og vongóðar vangaveltur sínar um að breyta mætti heiminum til góðs.