Reynir Sveinsson fæddist í Sandgerði 2. júní 1948. Hann lést á HSS í Keflavík 21. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Sveinn Aðalsteinn Gíslason frá Reykjavík, f. 11. september 1914, d. 19. maí 1982, og Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir frá Reykjavík, f. 22. október 1914, d. 2. febrúar 1998.

Systkini Reynis eru Ásdís, f. 22. janúar 1942, d. 12. febrúar 2018, Gísli, f. 15. janúar 1943, d. 16. maí 1970, Guðmundur, f. 28. júní 1946, Sigurður, f. 28. júní 1949, Aðalsteinn, f. 12. janúar 1952, og Sólveig, f. 29. apríl 1955.

Þann 25. október 1975 kvæntist Reynir Guðmundínu Þorbjörgu Kristjánsdóttur (Díu), en foreldrar hennar voru Sigríður Sigurðardóttir frá Hafnarfirði, f. 25. ágúst 1917, d. 20. júní 2002, og Kristján Sumarliði Jón Andrésson frá Lindarbrekkum á Hellnum, f. 16. nóvember 1909, d. 24. júní 1987.

Börn Reynis og Díu eru: 1) Gísli, f. 20. ágúst 1975. Börn hans frá fyrra hjónabandi með Helenu Maríu Johnsen eru Elísabet Lena, f. 19. júlí 2005, og Una Rós, f. 20. júlí 2007. Sambýliskona Gísla er Hrefna Björk Sigurðardóttir, börn hennar eru Thelma Ögn, f. 13. febrúar 2009, og Reynir Hörður, f. 27. október 2011. 2) Sigríður, f. 14. júlí 1980. Börn með fv. maka, Bjarka Tý Gylfasyni, eru Garðar Freyr, f. 27. janúar 2001, Úlfar Þór, f. 5. ágúst 2002, Embla María, f. 11. mars 2010, Ýmir Breki, f. 2. október 2012, og Natan Leví, f. 16. ágúst 2016. 3) Guðbjörg, f. 15. október 1985. Sambýlismaður hennar er Gunnar Daníel Sæmundsson, f. 11. apríl 1985. Börn þeirra eru Hilmar Þór, f. 2. september 2019, og Ragnar Óli, f. 5. nóvember 2022.

Reynir bjó alla sína tíð á Bjarmalandi 5 í Sandgerði, en það hús hafði bróðir hans Gísli byggt og bjó í því. Gísli fórst í sjóslysi í maí árið 1970 þegar báturinn Steinunn gamla KE sigldi í gegnum trilluna Ver sem Gísli var á.

Reynir rak verkstæðið Rafverk ehf. í um 30 ár, en tók við sem forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði sem í dag heitir Þekkingarsetur Suðurnesja. Var forstöðumaður þess þar til hann hætti að vinna 70 ára. Reynir var í björgunarsveitinni Sigurvon í um 30 ár og formaður í nokkur ár. Hann var í slökkviliðinu í Sandgerði í 40 ár og þar af formaður í níu ár. Hann var í bæjarstjórn Sandgerðis í 20 ár og í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár. Reynir var í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár og þar af formaður í um 30 ár.

Samhliða því var Reynir leiðsögumaður um Reykjanesið og mikill náttúruunnandi. Reynir ljósmyndaði mikið og eftir hann eru tugþúsundir af ljósmyndum.

Útför hans fer fram frá Sandgerðiskirkju í dag, 1. febrúar 2024, klukkan 14.

Það er ansi erfitt að setjast niður og henda niður orðum um föður minn sem féll frá þann 21. janúar síðastliðinn. Okkar tími saman á jörðinni var mikið ævintýri. Ég byrjaði ungur að vinna hjá pabba í Rafverk hf. í Sandgerði og vann af og til með honum öll árin þangað til hann hætti með það fyrirtæki. Hluti af því voru ótal Reykjavíkurferðir til að sækja alls konar dót og fleira. Pabbi elskaði ferðalög og það var reglulegt að pabbi og mamma færu með okkur krakkanna í ferðalög um landið okkar og eftir að pabbi og mamma skildu þá hélt pabbi bara áfram að ferðast. Þegar ég og mín fjölskylda fórum í ferðalög þá elti pabbi okkur um allt land, eins og t.d. á Vestfirði tvær ferðir, Norðausturland og fleira. Held samt að stærsta ferðin sem við pabbi fórum í hafi verið í febrúar 2017 þegar við fórum alla leið til Póllands að sækja þar rútu og koma henni til Íslands. Var það mikið ævintýri. Pabba langaði alltaf til þess að sjá Brandenburg í Berlín og þá fórum við bara þangað á rútunni og þar sem við vorum á rútu þá gátum við bara lagt svo til beint fyrir utan Branderburgarhliðið í rútustæði sem er þar. Fólk sem var þarna á gangi rak upp stór augu þegar út úr rútunni stigu bara tveir farþegar. En pabbi var rosalega þakklátur og ánægður með að sjá þetta.

Alltaf fylgdist pabbi með mér. Þegar ég var á sjónum þá var það alltaf þannig að þegar ég kom í land í Sandgerðishöfn þá beið pabbi á bryggjunni og vildi fá vita hvernig hefði gengið. Sama var eftir að ég fór að keyra með ferðamenn á rútu um landið okkar, þá hringdi pabbi í mig á hverju kvöldi milli kl. 21 og 22 og vildi frá að vita hvernig hefði gengið, hvert ég hefði farið og fleira. Það verður erfitt í komandi ferðum að fá ekki þetta símtal frá pabba, en ég lofaði honum að hann yrði með mér í komandi ferðum.

Pabbi bjó alla sína tíð í Sandgerði og þótti mikið vænt um bæinn sinn. Víðsvegar um Sandgerði má sjá ummerki um hluti sem pabbi vann að og átti hugmyndir að, svo sem Hvirfil og útsýnisbrekkuna við löndunarkranana á Norðurgarði í Sandgerðishöfn. Síðan allt í sambandi við Hvalsneskirkju, en hann var sóknarnefndarformaður í 35 ár og þótti mjög vænt um kirkjuna sína. Allra síðasta verkið hans var göngustígur frá sáluhliðinu að þjónustuhúsunum en hann náði aldrei að sjá þann stíg.

Þín er sárt saknað elsku pabbi en þú veist að nýja húsið mitt mun halda uppi nafni þínu.

Takk fyrir allt elsku pabbi. Ég enda þetta á orðunum sem ég sagði við þig: „Ég kem aftur á sunnudaginn.“ Já, við munum hittast aftur elsku pabbi og þá kem ég aftur á sunnudaginn.

Gísli Reynisson.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast föður míns. Faðir minn var mikil veislukarl og hafði mjög gaman af því að hafa líf og fjör í húsinu sínu að Bjarmalandi í Sandgerði. Í hvert skipti sem kíkt var í heimsókn tæmdi hann nánast allt úr kexskúffunni og bar það fram, hann var alltaf svo glaður og talaði um allt sem boðið var upp á. Flestar heimsóknar enduðu á kvöldmat og það var ekkert slor. Yfirleitt var grillað, enda elskaði faðir minn grillveislur, og þá var yfirleitt grillað mikið. Hann hafði mjög gaman af hundinum Brúnó sem ég á, og hundurinn var búinn að átta sig á hvað kexskúffan hans pabba var, og sat við hana því hann vissi að pabbi ætti eitthvað gott og pabbi gaf honum alltaf.

Pabbi var æðislegur afi og gerði allt fyrir barnabörnin, hvort sem um var að ræða skutl, pössun eða bara fíflalæti. Ein sterkasta minningin mín um fíflalæti hjá pabba var þegar tvö yngstu börnin mín voru að leika sér í húsinu hjá pabba með sparkbíl og þríhjól, með tilheyrandi hávaða og skríkjum. Pabbi vildi endilega taka þátt í fjörinu en hafði ekkert farartæki inni. En hann dó ekki ráðalaus því hann reddaði því snarlega, í stofunni var ryksuga með rana, og hann tekur í ranann á ryksugunni og hleypur á eftir börnunum með ryksuguna í eftirdragi.

Pabbi vildi allt gera, og eitt skipti vorum við í sumarbústað á Ólafsfirði og sonur okkar Úlfar Þór bað pabba um að skutla sér í Reykjavík svo hann gæti tekið rútuna norður. Úlfar hafði verið í vinnu og ekki komist með þegar við lögðum af stað. Ekkert mál sagði pabbi og sótti Úlfar, en í stað þess að aka á rútustöðina ók pabbi alla leið til Ólafsfjarðar og gisti eina nótt með okkur. Þarna var pabbi orðinn yfir 70 ára gamall.

Elsku pabbi, þú varst yndislegur faðir og afi og vildir allt gera fyrir alla í kringum þig. Við elskum þig mikið og ég sakna þín mikið. Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Sigríður Reynisdóttir.

Mig langar í nokkrum orðum að kveðja tengdapabba minn, en minningar um hann eru mjög miklar, til dæmis öll matarboðin, ferðalögin og allar sögurnar sem þú hefur sagt okkur. Það var alltaf gleði og hlátur í kringum þig og þú varst duglegur í að elta okkur Gísla um allt land sama hvar við vorum. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú hringdir í mig þegar ég bjó á neðri hæðinni á Bjarmalandi 5 í Sandgerði og þú bjóst á efri hæðinni. Þú hringdir í mig og baðst mig að koma upp því þú talaðir um að þú værir svo slappur. Þegar ég kom upp stóðstu í ganginum og grést mikið því þú skildir ekki hvað væri að. Það tók mikið á mig að sjá þig gráta svona. Ég fór með þig á sjúkrahúsið í Keflavík og það var í síðasta skipti sem þú fórst út úr húsinu á Bjarmalandi 5.

En trúin þín á að þú værir að koma heim aftur var mikil og sterk og þú varst búinn að plana ýmislegt sem þú ætlaðir að gera þegar heim væri komið, þar á meðal að halda stóra grillveislu handa öllum. Það var nefnilega þannig að tengdapabbi elskaði grillveislur og vildi hafa nóg af þeim, og vildi hafa fólkið sitt í kringum sig.

Tengdapabbi var með okkur Gísla og börnum hver einustu jól síðan 2016, og er mikill missir að hafa hann ekki lengur með okkur á jólunum.

Takk fyrir allar samverustundirnar og tímann sem við höfum átt saman, þín verður ávallt saknað.

Kær kveðja, þín tengdadóttir,

Hrefna Björk.

Mörg samfélög njóta þess að eiga einstaklinga sem sífellt eru reiðubúnir að þjóna því, ýmist með mikilli sjálfboðavinnu eða með því að taka að sér krefjandi verkefni sem unnin eru um kvöld eða helgar. Reynir Sveinsson var slíkur einstaklingur, ætíð reiðubúinn að þjóna nærumhverfi sínu og samfélaginu í Sandgerði.

Ég kynntist Reyni árið 1992, þegar hann sinnti viðgerðum og endurbótum á rafmagni á Garðvegi 1, gömlu frystihúsi sem búið var að fá nýtt hlutverk sem rannsóknastöð fyrir rannsóknaverkefnið Botndýr á Íslandsmiðum. Húsið hýsti síðar Fræðasetur á vegum Sandgerðisbæjar, rannsóknasetur á vegum Háskóla Íslands, Náttúrustofu Suðvesturlands og að lokum Þekkingarsetur Suðurnesja. Eftir að Reynir varð forstöðumaður Fræðasetursins urðu samskipti okkar tíðari, enda þurfti ég ítrekað að leita til Reynis með margvíslegar spurningar eða aðkallandi vandamál. Hann var lausnamiðaður og ráðagóður og leysti fljótt og vel úr öllum mínum vanda. Þegar Háskóli Íslands og Sandgerðisbær settu upp á Garðvegi 1 sýninguna Heimskautin heilla, sem fjallar um franska lækninn og heimskautafarann Jean-Baptiste Charcot, fékk Reynir það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmdum. Það verkefni leysti hann með einstakri prýði og sýningin varð sérlega vel heppnuð, öllum aðstandendum til sóma.

Rannsóknaaðstaðan að Garðvegi 1 hefur á liðnum áratugum verið áfangastaður fjölda fræðimanna frá ýmsum löndum. Reynir hafði mikil afskipti af flestum þeirra og tengdist mörgum þeirra sterkum vináttuböndum. Hann var ætíð reiðubúinn að aðstoða fræðimennina við hvaðeina sem kom upp á, hvort sem það var innan eða utan hefðbundins vinnutíma. Ófáa fræðimenn sótti Reynir upp á flugvöll síðla kvölds eða fyrri hluta nætur. Reynir naut þess að umgangast fræðimenn og gesti frá ólíkum menningarheimum og varð hann minnisstæður öllum þeim sem kynntust honum. Það er eftirsjá að þessum öðlingi. Ég sendi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jörundur Svavarsson

Ég kynntist Reyni Sveinssyni fljótlega eftir að ég fluttist á Suðurnesin árið 1990. Reynir var eftirtektarverður maður á margan hátt og hafði sínar skoðanir á málunum og leyndi þeim ekki þó svo að hann færi þar á móti straumnum. Leiðir okkar lágu saman í gegnum sveitarstjórnarmálin í fyrstu og áttum við góð samskipti við ýmis tækifæri þegar sveitarstjórnarmenn hittust til skrafs og ráðagerða um málefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Þá voru ýmsar nýjungar í öryggismálum svæðisins til skoðunar, m.a. að styrkja raforkukerfi Suðurnesja með lagningu Suðurnesjalínu. Það kom okkur og mörgum á óvart hve mikil andstaða var við lagningu nýrrar línu yfir hraunin frá Hafnarfirði að tengivirkinu á Fitjum í Njarðvík. Sagði Reynir eitt sinn í umræðu um Suðurnesjalínu að þegar hann sæi stórt raforkuvirki stoppaði hann gjarnan til að taka af því mynd, fátt væri fallegra og merkilegra myndefni. Rafmagnslínur væru ekki að trufla ferðamannastrauminn til Íslands, en tekið skal fram að Reynir var rafvirki og vissi hvað þyrfti til að tryggja raforkuöryggi Suðurnesja. Við sáum eitt sinn japanskan ferðamannahóp á ferð um 100 gíga garðinn að Gunnuhver. Það vakti athygli okkar að Japanirnir vildu stoppa við lagnakerfið frá borholunum að Reykjanesvirkjun og taka myndir af pípunum að stöðvarhúsinu. Stöðvarhúsið sjálft og frárennslið hefur einnig verið mikið aðdráttarafl ferðamanna frá því að virkjunin var reist og eiga forystumennirnir þar heiður skilinn fyrir hönnun Reykjanesvirkjunar og útfærslur að og frá þeirri virkjun, sem og stöðvarhúsi Svartsengisvirkjunar. Við Reynir unnum lengi saman í Ferðamálasamtökum Suðurnesja og lögðum grunn að stofnun Markaðsstofu Suðurnesja. Við fórum víða saman þegar við störfuðum fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum, m.a. til Færeyja og Belgíu í höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel, að ógleymdum ferðunum um Reykjanesið við undirbúning ýmissa verkefna, m.a. að stígagerð um svæðið, skiltagerð við Gunnuhver, Reykjanesfólkvang, aðgengismál hreyfihamlaðra að ferðamannastöðum að Suðurnesjum og margt fleira. Reynir var afskaplega tryggur starfsfélagi og mátti treysta honum í hvívetna þegar kom að því að verja uppgang Suðurnesjamanna. Hvar sem við komum var Reynir hrókur alls fagnaðar enda frábær sögumaður og fáir sem komust í skóna hans hvað varðaði leiðsögn um Reykjanesið og að kynna Hvalsneskirkju. Enda var það aldrei vafi í hans huga þegar við vorum með „kirkjurallíið“ um kirkjur á Suðurnesjum að þemað í Hvalsneskirkju yrði Hallgrímur Pétursson og fengjum við Megas til að syngja um Hallgrím af sinni alkunnu snilld. Votta ég aðstandendum Reynis og Sandgerðingum mína dýpstu samúð vegna fráfalls þessa mikla höfðingja.

Kristján Pálsson

Reynir Sveinsson var formaður sóknarnefndar Hvalsneskirkju þegar ég kynntist honum fyrst vorið 1995.

Ég hafði verið ráðin til þess að skrifa leikrit um Guðríði Símonardóttur, eiginkonu Hallgríms Péturssonar, og setja upp á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju.

Mér bauðst að dvelja um hríð við skriftir í nágrenni Hvalsness og langaði í framhaldinu að kynna leikurunum þessar söguslóðir umræddra hjóna frá 17. öld.

Hallgrímur vígðist til sóknarinnar 1644 og hann og Guðríður deildu kjörum með íbúum þessa litla útróðrapláss til 1651. Ég sótti um leyfi til þess að hafa fyrsta samlestur á Heimi Guðríðar í Hvalsneskirkju og það reyndist auðsótt mál hjá formanninum. Dagurinn í kirkjunni varð leikhópnum ómetanleg reynsla.

Og þarna hófst vinskapur okkar Reynis Sveinssonar. Hann reyndist vera hafsjór af fróðleik um sögu staðarins og kirkjunnar, sem hlaðin er úr tilhöggnu grjóti úr nágrenninu og var vígð 1887. Kirkjan geymir fágætan dýrgrip, legstein Steinunnar litlu Hallgrímsdóttur, sem fannst á hvolfi í gangstétt við kirkjuna haustið 1964. Í steininn er höggvið nafn stúlkubarnsins sem prestshjónin í Hvalsnesi misstu á fjórða ári. „hálft fjórða ár alls var ævi/ eigi þó fullkomin,“ orti skáldið.

Nafn hennar og dánarár hefur Hallgrímur hamrað með eigin hendi. En því miður hefur verið höggvið utan af steininum svo hann félli betur inn í fyrrnefnda gangstétt þannig að hvorki nafn né ártal sést til fulls. Það breytir ekki því hversu snortinn maður verður við að virða fyrir sér áletrunina í þessari voldugu grjóthellu.

1997 var ég beðin að skrifa grein um stein Steinunnar fyrir tímaritið Bautastein. Ég hafði oft velt fyrir mér stærð og þyngd steinsins og hvílíkum kröftum skáldið hefði þurft að beita í viðureigninni við hann. Og ég hringdi í Reyni og spurði hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Svo var ekki.

En Reynir dó ekki ráðalaus. Hann fór með baðvigtina sína í kirkjuna og lyfti steininum með aðstoð sóknarnefndarkonunnar, Bryndísar Gunnarsdóttur, upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kíló! Og þyngri var hann áður en höggvið var af honum.

Þau eru ófá skiptin sem ég hef hitt Reyni í Hvalsneskirkju, sem hann helgaði svo stóran hluta ævinnar. Stundum höfum við sameinast um að taka þar á móti áhugahópum um sögu staðarins, Hallgrím, Guðríði og Steinunni, stundum hef ég verið þar með fyrirlestra fyrir erlenda sem íslenska gesti. Alltaf var Reynir reiðubúinn að opna kirkjuna fyrir mér og þeim sem mér fylgdu.

Mér er fullkunnugt um að Reynir Sveinsson var afar þarfur maður í fæðingarbæ sínum Sandgerði. Listinn yfir þau sjálfboða- og trúnaðarstörf sem hann gegndi í þágu sveitunga sinna og nágranna er langur, auk þess sem hann var forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði um árabil.

En það eru sóknarnefndarformaðurinn Reynir Sveinsson og Hvalsneskirkja sem verða hér eftir sem hingað til órjúfanlega tengd í mínum huga. Ástríða hans og elja og trúnaður við þessa dýrmætu og fögru kirkju er okkur öðrum unnendum hennar til eftirbreytni.

Blessuð sé minning Reynis Sveinssonar.

Steinunn Jóhannesdóttir.

Samstarfsmaður okkar til margra ára, Reynir Sveinsson, er nú fallinn frá. Reynir var frábær starfsfélagi, alltaf hress og kátur og til í spjall. Hann var úrræðagóður og einstaklega hjálplegur, sama hvert verkefnið var sem þurfti að leysa. Reynir hafði unnið á Garðvegi 1 í mörg ár og var þar lengi forstöðumaður Fræðasetursins í Sandgerði. Þegar Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað árið 2012 og Fræðasetrið sameinaðist því urðu talsverðar breytingar á starfsumhverfi Reynis. Hann tók þeim öllum af mikilli ánægju og jafnaðargeði, enda sáum við hann aldrei skipta skapi. Hann var alltaf jafn glaðlyndur og hjálpsamur, og lagði sig fram við að koma nýju fólki inn í starfsemina. Eitt af þeim verkefnum sem Reynir sinnti árum saman voru heimsóknir skólahópa í Fræðasetrið, og síðar Þekkingarsetrið. Á hverju vori koma yfir þúsund nemendur leik- og grunnskóla í heimsókn og tók Reynir á móti þeim með miklum glæsibrag, fræddi þá um starfsemina í húsinu og sýndi mikla þolinmæði þegar mikið gekk á. Oft fékk hann hrós frá kennurum fyrir móttökurnar.

Reynir var Sandgerðingur af lífi og sál. Hann var mjög fróður um nærsamfélagið og umhverfi þess sem og vinnustaðinn okkar á Garðvegi 1 enda hafði hann unnið þar lengi. Eftir að hann lét af störfum fyrir fáum árum var hann duglegur að kíkja við og fylgjast með starfseminni, og munum við sakna þeirra heimsókna. Reynir var mjög afkastamikill áhugaljósmyndari og eftir hann liggja líklega tugþúsundir mynda af bæjarlífinu, umhverfinu og starfseminni á Garðveginum, sem reynst hafa Þekkingarsetrinu einstaklega mikilvægar.

Reynir sinnti börnum sínum og barnabörnum af mikilli alúð og færði okkur reglulega fréttir af fjölskyldunni, sem var skemmtilegt. Missir þeirra er mikill og sendum við þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiða tíma.

F.h. starfsfólks Þekkingarseturs Suðurnesja, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands,

Hanna María
Kristjánsdóttir.

Það var hópur fólks sem settist saman á skólabekk fyrripart þessarar aldar til að læra leiðsögn. Hópurinn var samansettur af fólki sem átti það sameiginlegt að eiga mjög sérstakan áhuga og skýra sýn um náttúru og sérstöðu Reykjanesskaga. Flest okkar voru að stíga sín fyrstu skref í leiðsögn, oft kvíðin og óörugg, en það átti ekki við um Reyni, sem kom í hópinn með mikla þekkingu og stórt hjarta og studdi við okkur af öryggi og kærleika.

Hann kenndi okkur að nota húmor í leiðsögn og þá list að taka sjálfan sig ekki hátíðlega. Reynir var afar fjölhæfur og gegndi ábyrgðarstöðum fyrir sitt bæjarfélag. Einn nemandi lýsti fyrstu kynnum sínum af Reyni svona: „Ég mætti með nemendahóp í Fræðasetrið í Sandgerði þar sem Reynir var forstöðumaður. Hann tók vel á móti nemendum og fræddi þá um starfsemina. Einn nemandinn braut brunaboða og brunaviðvörunarkerfið fór í gang með miklum hávaða. Þá stökk Reynir fram eins og í farsaleikriti og var orðinn slökkviliðsstjóri. Hann slökkti á brunabjöllunni eftir að hafa kannað hvort um hættuástand væri að ræða. Nokkru síðar var ég á ferðamálanámskeiði þar sem farið var í Hvalsneskirkju. Þar tók Reynir á móti hópnum og þá sem formaður sóknarnefndar þar sem hann fræddi fólk um kirkjuna og sögu staðarins af sinni alkunnu snilld.“ Reynir tók af heilum hug þátt í öllu sem hópurinn tók sér fyrir hendur. Lagði vel af mörkum og veitti okkur öllum mikinn innblástur með nærveru sinni og einstökum sögumannshæfileikum.

Við kveðjum góðan vin og vottum fjölskyldu Reynis innilega samúð.

Leiðsögumenn Reykjaness,

Rannveig Lilja
Garðarsdóttir.

Deyr fé, deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Reynir var formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í yfir 30 ár og sinnti því starfi af lífi og sál. Hann var mikill heimamaður og lét menn og málefni bæjarfélagsins sig varða. Þrátt fyrir að sinna mörgum hlutverkum þá bar hann hag sóknarinnar ávallt fyrir brjósti og fylgdi verkefnum varðandi viðhald og umhverfi kirknanna og kirkjugarðsins vel eftir. Reynir var góður sögumaður og hafði sérstaklega gaman af því að taka á móti gestum í Hvalsneskirkju þar sem hann sagði þeim meðal annars frá sögu kirkjunnar og veru sr. Hallgríms í Hvalsnesi.

Þrátt fyrir erfið veikindi síðustu mánuði var hann með hugann við starfið og aflaði sér frétta af gangi mála í sóknarnefndinni við hvert tækifæri sem gafst en það var hans hjartans mál að starfið gengi áfram vel fyrir sig þrátt fyrir fjarveru hans.

Reynis verður sárt saknað af okkur í sóknarnefndinni, því sóknarnefndarfundir voru oft á tíðum hin mesta skemmtun enda Reynir orðheppinn með eindæmum.

Blessuð sé minning kæra Reynis, við sendum börnum hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning um einstakan mann lifir áfram.

F.h. sóknarnefndar Hvalsnessóknar,

Sigurbjörg Eiríksdóttir.

Reynir Sveinsson var einn af þessum mönnum sem láta verkin tala, en Reynir var öflugur og trúfastur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og sem sóknarnefndarformaður í Hvalsnessókn vann hann meðal annars ötullega að ýmsum endurbótum við Hvalsneskirkju, sem var honum afar hjartfólgin. Hún er ógleymanleg minningin þegar við í Bessastaðasókn lögðum leið okkar í Hvalsneskirkju og nutum leiðsagnar Reynis.

Í gegnum tíðina studdi hann með ráð og dáð allt það góða starf sem unnið hefur verið í Hvalsnessókn og ekki síður var hann góður liðsmaður á vettvangi Kjalarnessprófastsdæmis. Við sem unnum með honum á vettvangi kirkjunnar erum afar þakklát fyrir hans óeigingjarna starf í þágu kirkju og kristni.

Fyrir hönd okkar í Kjalarnessprófastsdæmi vil ég votta fjölskyldu, vinum og samferðafólki Reynis samúð mína.

Góður Guð blessi minningu Reynis Sveinssonar.

Hans Guðberg
Alfreðsson prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi.