Haukur Ágústsson fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1937. Hann lést að heimili sínu, Galtalæk á Akureyri, 15. janúar 2024.

Foreldar Hauks voru Ágúst Jónsson vélstjóri í Reykjavík, f. 1.5. 1901, d. 5.7. 1976, og Guðbjörg Helga Vigfúsdóttir húsfreyja, f. 10.4. 1913, d. 7.1. 1969. Systir Hauks er Katrín Helga Ágústsdóttir, f. 11.8. 1939, gift Stefáni Halldórssyni. Þau eiga tvö börn.

Haukur kvæntist 11.7. 1970 Hildu Torfadóttur, f. 26.10. 1943, d. 8.10. 2019, kennara og talmeinafræðingi. Foreldrar Hildu voru Torfi Jónsson lögreglumaður og Ragnhildur Helga Magnúsdóttir, húsfreyja og kennari.

Sonur Hauks og Hildu er Ágúst Torfi Hauksson, f. 31.5. 1974, kvæntur Evu Hlín Dereksdóttur. Dætur þeirra eru Ragnhildur Edda, Bryndís Eva og Hilda Kristín.

Haukur gekk í Menntaskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan árið 1959. Hann lauk guðfræðiprófi árið 1968, prófi í uppeldis- og kennslufræðum 1970 og kennaraprófi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1977, auk þess að sækja ýmis námskeið erlendis.

Haukur vann ungur að árum meðal annars við síldveiðar, sem dagmaður í vél og sem vélamaður í vegavinnu á námsárum sínum. Hann starfaði sem kennari á Patreksfirði 1959-1960 og við Langholtsskóla í Reykjavík 1962-1971. Hann var veðurathugunarmaður á Hveravöllum ásamt konu sinni 1971-1972. Haukur var vígður til prests að Hofi í Vopnafirði árið 1972 og þjónaði þar til 1980. Hann var skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum 1980-1981 og Héraðsskólans á Laugum 1981-1985. Fjölskyldan flutti til Akureyrar 1985 og kenndi Haukur þar við Gagnfræðaskóla Akureyrar til 1989 og Verkmenntaskólann á Akureyri frá 1989 til starfsloka árið 2002. Hann kom á fót fjarkennslu við Verkmenntaskólann og var frumkvöðull á því sviði. Samhliða kennslu á Akureyri vann hann við dagskrárgerð fyrir útvarp, m.a. svæðisútvarp Norðurlands. Haukur fjallaði um listviðburði á Norðurlandi um langt skeið bæði í dagblaðinu Degi á Akureyri og öðrum miðlum.

Haukur starfaði mikið að félags- og menningarmálum. Hann var í æskulýðsnefnd Þjóðkirkjunnar og sýslunefndarmaður í Norður-Múlasýslu 1974-1978. Hann var söngstjóri Samkórs Vopnafjarðar 1972-1980 og Árnesingakórsins í Reykjavík 1977. Haukur stundaði dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla um trúfræðslu og með frumsömdu efni. Hann var formaður Menor, Menningarsamtaka Norðurlands, 1986-1992 og stóð fyrir útgáfu blaðs, skemmtidagskrám og öðrum menningarviðburðum. Haukur var ritstjóri Súlna, rits Sögufélags Eyjafjarðar, 2005-2012.

Haukur samdi fjölda laga og söngleikja sem flutt voru bæði af börnum og kórum sem hann stjórnaði. Þekktustu verkin voru Litla Ljót, sem gefin var út á hljómplötu og tekin upp fyrir sjónvarp, Poppmessa, Kristniþáttur og Helgileikur. Hann gaf einnig út skáldsögu og þýddar bækur.

Haukur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2017 fyrir störf sín að menningar- og menntamálum.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 1. febrúar 2024, klukkan 13.

Tengdafaðir minn Haukur Ágústsson kvaddi okkur þann 15. janúar. Hann fékk ósk sína uppfyllta um að kveðja þennan heim á Galtalæk, heimili sínu, og þó að okkur hafi þótt hann fara of snemma þá hafði hann sagt okkur oftar en einu sinni að hann væri sáttur. Hann mátti líka vera það.

Fyrstu árin mín með Ágústi Torfa komum við oft norður til foreldra hans og þá var Haukur enn kennari við VMA. Hann lagði mikinn metnað og tíma í kennsluna og því kynntist ég honum ekki af alvöru fyrr en hann hætti að kenna og fór á eftirlaun. Þau hjónin fluttu inn á Galtalæk fyrir 24 árum og þá komum við Ágúst Torfi til að aðstoða þau við flutningana. Eitt af því sem við gerðum var að sækja fornbílana, sem þeir feðgar áttu í geymslum hingað og þangað, og flytja þá inn á Galtalæk. Ég sat þá með Hauki í Scout-jeppanum hans, en Ágúst Torfi sat í einhverjum bremsulitlum fornbílnum sem við drógum. Haukur var virðulegur lífsreyndur kennari og prestur og hann sá því að mestu um spjallið í þessum ferðum okkar og ég hlustaði. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hann sagði mér að hann skildi ekki hvað hann hefði gert til að njóta slíkrar gæfu að eignast bestu eiginkonuna og besta soninn sem nokkur gæti hugsað sér. Þetta samtal hafði mikil áhrif á mig en ég lærði síðar að þetta sagði Haukur ansi oft því hann var þakklátur fyrir fólkið í kringum sig og það var honum mjög ofarlega í huga. Hann notaði hvert tækifæri til að hrósa fólki og reyndi ávallt að hvetja fólk áfram, hvort sem það var í umsögnum hans um menningarviðburði, í kennslustofunni eða í spjalli við eldhúsborðið, nú eða í bíltúrum á Scout-jeppa.

Nú í seinni tíð hafði hann mikinn áhuga á því hvað við fjölskyldan værum að gera eða skipuleggja. Honum fannst alltaf áhugavert að heyra af ferðalögum okkar, hvort sem það var dagsbíltúr eða lengri utanlandsferð, og hvatti okkur til að njóta tímans með dætrum okkar. Þegar sonardæturnar fóru að hafa aldur til að spjalla við afa sinn spurði hann þær út í áhugamálin, námið og vinina og hann var óspar á hrós og hvatningu. Maður sá það í brosi hans þegar hann spjallaði við þær hvað hann var stoltur af því að vera afi þeirra og sjá þær þroskast og dafna, og hann var líka duglegur að segja þeim það. Við skírn þeirra allra orti hann til þeirra ljóð sem hann skrifaði niður og setti inn í Biblíur sem hann gaf þeim. Í dag eru þessi ljóð meðal margra dýrmætra minninga um hjartahlýjan og hæfileikaríkan föður og afa.

Hans er sárt saknað en við kveðjum hann þakklát.

Eva Hlín Dereksdóttir.

Haukur, kæri bróðir.

Nú er okkar samfylgd svo snögglega lokið. Þú sem aldrei varðst veikur og varst kletturinn í lífi mínu. Margs er að minnast frá æviskeiði okkar og æskuárum sem ég minnist nú í fáeinum orðum.

Á Njálsgötu 35, Laugateig 18 og ekki síst í sumarbústaðnum sem pabbi byggði árið 1942 við Súluholt í Flóa þar sem Vilborg systir hans bjó. Þar dvöldum við með mömmu sumarlangt fyrstu árin okkar.

Pabbi var í siglingum hjá Eimskip og var því langdvölum að heiman. Hugurinn reikar til þessa tíma þegar við lékum okkur í móanum kringum húsið með leggi og kjálka sem við höfðum fyrir búfé. Seinna lékum við okkur með litla bíla sem pabbi keypti handa okkur. Við ristum þúfurnar sundur til að leggja vegi og byggðum brýr úr spýtum. Helguðum okkur þúfur og bjuggum rausnarbúi.

Þú varst hugmyndasmiðurinn. Já, þú varst góður í að finna upp leiki og þrautir fyrir okkur að fást við.

Síðar gerðist þú snúningadrengur á búinu og ég fékk að elta þig við að reka kýrnar í hagann og sækja. Ná í brúkshestana þegar þess var þörf. Við héldum á beislinu fyrir aftan bak og læddumst að þeim, þeir voru styggir. En að lokum leyfðu þeir okkur að ná sér. Svo voru ýmsir aðrir snúningar sem féllu til. Ekki mikil tími til að leika sér í önnum dagsins í sveitinni.

Við dvöldum oft langtímum saman hjá frænku og fjölskyldu hennar. Afi og amma dvöldu þar, eins sagt var í þá daga, í horninu hjá dóttur sinni og tengdasyninum Guðmundi. Það var fjölmennt við matarborðið hjá Vilborgu. Við nutum dvalarinnar hjá þeim og þar var aldrei hallað orði en ef eitthvað var ekki rétt var bent á og leiðbeint. Við lærðum að virða landið, dýrin, heyskapinn og að gera það sem gera þurfti.

Á þessum árum voru komnar hestasláttuvélar. En orfið, ljárinn og hrífan voru enn í fullu gildi. Heyið var reitt heim á hestum af engjunum. Já, mikið hefur breyst síðan þá með tækninni.

Barnaskóla- og framhaldsnám sóttum við í Reykjavík en þú laukst stúdentsprófi frá Laugarvatni. Vannst við kennslu, gerðist prestur, skólastjóri og svo kennari aftur, meðal annars við Verkmenntaskólann á Akureyri. Á þeim árum varst þú frumkvöðull í fjarkennslu og þótti sú aðferð við að koma þekkingu áfram til nemenda mikil nýlunda. Sú tækni hefur síðan rutt sér til rúms í skólakerfinu og víðar. Mörgu fleiru komst þú að á þínum ferli og áhugasviðin lágu víða.

Það var alltaf gott að renna í heimsókn til þín og Hildu og njóta góðra stunda sem og að fá ykkur í heimsókn. Ræða heimsmálin og sjaldan lást þú á skoðunum þínum.

Kæri Haukur bróðir. Ég kveð þig með þessum fáu minningabrotum.

Elsku Ágúst Torfi, ég og fjölskyldan vottum ykkur Evu og telpunum okkar dýpstu samúð.

Guð blessi minningu bróður míns Hauks Ágústssonar.

Katrín Helga Ágústsdóttir.

Öllu er afmörkuð stund.

Þessi orð úr Prédikaranum eru auðskilin og þau eiga nú við, þegar við kveðjum séra Hauk Ágústsson. Honum hefur nú verið afmörkuð stund. Langri ævi er lokið og við sem kynntumst honum minnumst nú verka hans, mikils dugnaðar og starfsorku sem var fáum lík. Harmur dagsins víkur brátt fyrir minningunni um góðan mann og félaga.

Ég þekkti lítið til þeirra hjóna Hauks og Hildu áður en þau fluttu til Akureyrar og hófu þar kennslu. Haustið 1989 gerðist Haukur kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri og var þar til starfsloka. Með okkur tókst góð vinátta, enda skólamál eitt af hans mýmörgu áhugamálum. Til hans sótti ég mörg góð ráð og það var líka gott, í dagsins önn að skjótast inn til hans og fá sér kaffisopa og taka í nefið, enda Haukur góður neftóbaksmaður.

Eitt af því sem Haukur hafði áhuga á voru bréfaskólarnir sem nú voru liðnir undir lok. Haukur var einnig áhugamaður um þessa nýju tækni, tölvutæknina, sem hann hafði náð góðum tökum á. Þarna sá hann ný tækifæri, tækifæri til að gefa nemendum kost á námi, sem ekki var til staðar á þeirra heimaslóðum, hvort sem þeir vildu efla færni sína í einni grein eða stunda nám til lokaprófs. Þar við bættist að tölvutækni eyddi öllum fjarlægðum. Það sem nemandinn þurfti, auk áhugans, var góð tölva og góð nettenging. Áhugasama kennara hafði Verkmenntaskólinn og tölvubúnað. Þegar hugmynd Hauks var fullburða komu hann og kerfisfræðingur skólans, Adam Óskarsson, og við héldum fund. Niðurstaðan varð sú að hefjast strax handa, láta á það reyna hvort þetta væri viðráðanlegt. Svo varð og var fyrsti nemendahópurinn fámennur eins og vænta mátti en þegar fólki varð ljóst að hér var um nýjung í skólastarfi að ræða fjölgaði nemendum önn eftir önn og skiptu brátt hundruðum. Haukur bar hitann og þungann af þessari nýskipan og ég veit að starfsdagurinn var oftlega mjög langur. Þeir félagar, Adam og Haukur, fóru nokkrar kynnisferðir til Norðurlandanna og Bandaríkjanna og sýndu fjarkennslukerfið. Svo tóku allmargir framhaldsskólar upp svona kerfi. Þetta var einhver mesta nýjung í skólakerfinu og metin að verðleikum þegar forseti Íslands sæmdi Hauk fálkaorðunni fyrir brautryðjendastarf hans í skólamálum.

Árið 2003 vorum við Haukur beðnir að taka að okkur starf við frágang á handriti að bókinni Eyfirðingar í samvinnu við tvo aðra. Það gerðum við og næstu 3-4 veturna unnum við saman á Galtalæk, virka daga frá 9-15 og þegar okkar hlutverki var lokið höfðum við unnið rúmar 2.000 klst. hvor. Um sama leyti lét Hilda af kennslu vegna parkinsonsjúkdóms, sem hafði ágerst síðustu árin og mótaði öðru fremur líf þeirra fram að dánardegi hennar 2019. Haukur sagði mér í spjalli okkar að hann ætti aðeins eitt viðfangsefni, að láta Hildu líða sem best, og það gerði hann af mikilli ást og natni.

Þau hjón voru gestrisin og vinamörg. Nokkrum sinnum á vetri buðu þau heim vinum og kunningjum og buðu upp á tónlist og kaffi og meðlæti. Þetta var skemmtileg nýbreytni og bætti bæjarlífið.

Nú er Haukur Ágústsson allur, ljósin á Galtalæk slökkt. Ég sendi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Bernharð Haraldsson.

Síra Haukur var í báðar ættir afkomandi Jóns yngra Bjarnasonar, bónda og hreppstjóra á Vindási í Landmannahreppi, og konu hans, Ástríðar Jónsdóttur í Bolholti Þórarinssonar. Var Jón yngri sonur Bjarna Halldórssonar hreppstjóra á Víkingslæk, ættföður Víkingslækjarættar, og Guðríðar Eyjólfsdóttur frá Reyðarvatni. Jón Þórarinsson var ættfaðir Bolholtsættar; lifði einn af 10 systkinum í Stórubólu. Kona hans var Guðrún Auðunsdóttir frá Austur-Sámsstöðum í Fljótshlíðarhreppi. Af Bolholtsætt er komin Langholts- og Birtingaholtsætt.

Það fæðast ekki allir með þeirri vöggugjöf að vera af slíkum stofni. Ættarmark á niðjum þessa fólks er oftlega skýrt; sést ósjaldan svipur með sex- og sjömenningum, þótt kallaðir séu lítt skyldir. Ættfræðingur íslenskur mun hafa rakið spékopp í hægri kinn aftur um 400 ár. Um síra Hauk gilti, að hjá honum fóru saman miklir hæfileikar með viti og hreinu hjarta.

Vilmundur landlæknir lét svo ummælt, að besta læknislyfið væri að láta sér aldrei verk úr hendi falla. Óhætt er að segja um svo vinnusaman mann og Hauk Ágústsson, að honum féll aldrei verk hendi firr, enda afrekaði hann margt og mikið um dagana og var löngum við góða heilsu.

Síra Haukur var vinfastur; missti aldrei sambandið við neinn. Síma- og frímerkjakostnaðurinn hlýtur að hafa verið tilfinnanlegur, að ekki sé talað um tíma og fyrirhöfn. Og aldrei nema ágætt að frétta; alltaf gott veður á Akureyri.

Frú Hilda var annáluð dugnaðar- og atorkukona. Þegar þau hjón stækkuðu við sig fóru þau búnaði sínum af Gilsbakkaveginum að Galtalæk, býlinu, sem blasir við ferðalangnum uppi í fjallshlíðinni, þegar stigið er út úr flugvélinni á Akureyrarvelli. Því sem áður var fimmtíu kúa fjós breyttu þau í glæsilegar stássstofur og tónleikasal með flygli og öllu saman. Þau höfðu sinn kontórinn hvort, og voru áður mjólkurhús og fóðurgeymsla; þurfti háan stiga til þess að komast í efstu bókahillurnar. Bílskúr hjónanna var heyhlaða fólksins sem átti þarna heima á undan þeim.

Meðal þess sem haft var í árbít á Galtalæk var hræringur að fornum sið; þá er skyri og hafragraut blandað saman; þetta var dásamlegt og óviðjafnanlegt hnossgæti, enda hafði síra Haukur látið skyrið súrna í búrinu um tveggja mánaða skeið, áður neytt var.

Á Akureyri verða veitingahús viðhafnarlegri en í flestum stöðum og aldrei brást, að gestir fengju voldugan skatt á einhverju þeirra, er degi tók að halla. Einu sinni ók síra Haukur gistivinum sínum meira að segja alla leið til Húsavíkur. Þá var farið yfir Vaðlaheiði og fram hjá hefðarsetrinu Grenjaðarstað, þar sem dr. Einar heitinn Sigurbjörnsson var drengur í sveit hjá prestinum, og bóndagarðinum Laxamýri, þar sem borinn var í þennan heim Jóhann skáld, sem kvaðst í ljóði vera fæddur úti á eyðiskaga, en krjúpa að knjám fátæku lífi og grípa geisla þess fórnandi höndum.

Með söknuði er síra Haukur kært kvaddur og Guð beðinn að unna honum ásamt oss á efsta degi upprisu lífsins og ævinlegs fagnaðar í ríki sínu. Guð blessi minningu hans og oss öll sem syrgjum. Guð gefi alla himneska blessun og náð, bæði hér og í komandi heimi.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus.

Með tímans þunga nið hverfa vinirnir einn af öðrum og nú hefur kvatt einn af bestu vinum okkar, Haukur Ágústsson. Kynni okkar hófust þegar hann tók við skólastjórastöðu á Laugum í Reykjadal og þau hjónin settust þar að. Þá var Ágúst Torfi ungur að árum. Haukur og Hilda, Hilda og Haukur, voru ávallt nefnd í sama orðinu. Þegar þau svo fluttu til Akureyrar átti kunningsskapurinn eftir að eflast enn frekar. Haukur og Völundur náðu mjög vel saman og nánast í hverri Akureyrarferð var komið við hjá þeim hjónum á Gilsbakkaveginum. Síðar festu þau hjón kaup á Galtalæk og komu sér vel fyrir þar. Gríðarmikið bókasafn Hauks sómdi sér vel í stórri bókastofu. Í aðalrýminu var svo flygill Hauks sem hann lék á og söng með þegar svo horfði, ekki síst negrasálma. Hann söng mér til heiðurs á 70 ára afmæli mínu í Ýdölum við góðar undirtektir. Eftir Hauk liggur fjöldi leikrita, söngleikja, sönglaga og sálma. Á Galtalæk voru líka haldnir tónleikar af ýmsum toga, margt listafólk kom þar að með söng og hljóðfæraslætti.

Haukur var einnig umhyggjusamur eiginmaður, en eftir að sjúkdómur Hildu ágerðist varð erfiðara að sinna henni. Allt fram á síðasta ár hennar hugsaði hann þó um hana af mikilli natni og þrautseigju þar til hún flutti á Hlíð þar sem hún lést sama haust 2019. Ég hef engar forsendur til að telja upp allt það sem Haukur tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni, en þar á meðal var hann sóknarprestur í Hofsprestakalli í Vopnafirði frá 1972-1980. Fjölfróðari og víðlesnari mann en Hauk veit ég ekki, það var nánast alveg sama upp á hverju var bryddað, alltaf var hægt að fræðast meira og betur. Áður en maður vissi af var gjarnan spjallað í 1-2 klukkustundir og meðan Völundur lifði fylgdi því ávallt svolítill vindlakeimur. Allt fram á síðasta dag sat hann lengi dags við tölvuna og fylgdist með fréttum víðs vegar að úr heiminum. Það verður undarlegt að geta ekki tilkynnt sig í kaffi í Galtalæk þegar maður er á ferðinni. En allt er í heiminum hverfult og nú er þessum kafla lokið og það ber að þakka á sinn hátt.

Ágúst Torfi og fjölskylda, Katrín og Stefán, innilegar samúðarkveðjur.

Halla Lovísa.

Nú þegar Haukur Ágústsson er fallinn frá rifjast upp hjá mér kærar minningar. Leiðir okkar lágu fyrst saman í guðfræðideild Háskóla Íslands. Hann kom í deildina með dálitlum hvelli því hann tók fyrri hluta guðfræðinámsins utan skóla. Mér er ógleymanlegt þegar hann gekk að prófborði í munnlegu prófi hjá prófessor Birni Magnússyni. Þá stóð Björn upp, kynnti sig með nafni, rétti Hauki höndina og bauð hann velkominn. Þeir voru þá að sjást í fyrsta skipti. Haukur tók prófið og náði því. Ég hygg þetta nánast einstakt og segir nokkra sögu af Hauki. Sjálfstraustið var öruggt, viljinn einbeittur og markið skýrt. Vel getur verið að þarna hafi farið að gerjast í honum áhugi hans á fjarkennslu en á því sviði varð hann frumkvöðull er hann skipulagði og kom á fót fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri og hlaut riddarakross fyrir frumkvæði sitt.

Haukur var kennari og tónmenntakennari og samdi texta og tónlist við fjölmörg lög og söngleiki. Þekktasti söngleikur hans var sennilega Litla ljót sem gefin var út á hljómdiski 1969. Á árunum 1968-1970 sat hann í nefnd fyrir æskulýðsdag þjóðkirkjunnar og samdi þá sérstaka og framsækna guðsþjónustu í tilefni af æskulýðsdeginum 1969. Hann samdi sjálfur allt mál og tónlist og kallaði Dægurtíðir. Haukur lék undir og stjórnaði kórum og söngvum. Þetta var frábærlega vel gert hjá honum og sum laganna úr þessu verki voru sungin áfram í barnastarfi kirkjunnar. Ég nefni þar lagið: Ó leið mig þá leið sem prentað var í söngbókinni Í lífi og leik. Dægurtíðir voru verðug tilraun Hauks til að ná til breiðari hóps fólks sem þá hafði annan smekk fyrir tónlist og messuflutningi. Verkið var flutt tvisvar í Háteigskirkju fyrir fullu húsi og síðan í útvarpi á skírdag. Flytjendur með Hauki voru ungt fólk og hafði ég þar hlutverk. Einnig var í þeim hópi Hilda Torfadóttir er síðar varð eiginkona Hauks.

Ekki er þó svo að skilja að Haukur hafi ekki haft áhuga á sígildri messu. Sigurður Pálsson vígslubiskup hélt fram sígildum gömlum messusöng og gaf út bók með honum árið 1972. Það var sérstakt við þessa bók að í henni voru tveir messusöngvar. Tónlistin við þann síðari frumsamin af Hauki Ágústssyni. Mikill aldursmunur var á höfundum bókarinnar og enn meiri aldursmunur á tónlistinni.

Síðar á ævinni lágu leiðir okkar Hauks aftur saman er við þjónuðum báðir við útför Vigfúsar Jónssonar oddvita, sem var þekktur borgari á Eyrarbakka en hann var föðurbróðir Hauks.

Ég færi fram mínar hjartans þakkir fyrir mjög góð kynni og ánægjulegt samstarf á löngu liðnum árum.

Guð blessi Hauk Ágústsson, minningu hans og alla ástvini.

Úlfar Guðmundsson.