Á Spáni Eiríkur Orri Guðmundsson, áhugamaður um allt sem snýr að víni, í kynnisferð um vín í Rioja.
Á Spáni Eiríkur Orri Guðmundsson, áhugamaður um allt sem snýr að víni, í kynnisferð um vín í Rioja.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þvagfæraskurðlæknirinn Eiríkur Orri Guðmundsson er sérstakur áhugamaður um allt sem viðkemur víni og hefur haldið úti netsíðu (vinsidan.is) í 26 ár. Þar má sjá ýmsan fróðleik um vín og vínrækt, víndóma og ábendingar um góð kaup, vín ársins hverju sinni að mati sérfræðingsins og fréttir um vín og heilræði í tengslum við vín.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þvagfæraskurðlæknirinn Eiríkur Orri Guðmundsson er sérstakur áhugamaður um allt sem viðkemur víni og hefur haldið úti netsíðu (vinsidan.is) í 26 ár. Þar má sjá ýmsan fróðleik um vín og vínrækt, víndóma og ábendingar um góð kaup, vín ársins hverju sinni að mati sérfræðingsins og fréttir um vín og heilræði í tengslum við vín.

Í fyrra tók Eiríkur Orri þriðja stig af fjórum í alþjóðlegu námi á netinu um vín og vínfræði, svonefndu WSET-námi í umsjón Wine & Spirit Education Trust (wsetglobal.com). Um áramótin byrjaði hann á öðru námskeiði, French Wine Scholar, hjá Wine Scholar Guild (winescholarguild.com). Hann hefur hug á að taka kampavínsnámskeið, Champagne Master, og jafnvel önnur námskeið hjá sama skóla í náinni framtíð. „Nú er ég á kafi í franskri víngerð og get, ef vel gengur, orðið viðurkenndur fræðingur í frönskum vínum.“ Til þess þurfi hann að kynna sér sögu hvers vínhéraðs í Frakklandi með tilliti til vínræktar, skoða landafræðina og jarðveg á mismunandi svæðum og svo framvegis.

Stöðluð lýsing

„Á fyrrnefnda námskeiðinu, sem tók tíu vikur, lærði ég meðal annars að lýsa vínum á staðlaðan hátt,“ segir Eiríkur Orri og bendir á að slíkar lýsingar séu mjög upplýsandi um viðkomandi vín. Fjórða stigið, sem er diplómanám, taki tvö ár og það bíði betri tíma.

Áhugi Eiríks Orra á víni hófst af alvöru eftir að hann gekk í vínklúbb árið 1997. „Upphaflega hugmyndin með Vínsíðunni var að ég gæti fengið prufur og skrifað um vín.“ Lítið hafi reynt á hugmyndina en hann hafi samt haldið áfram að skrifa um vín eftir að hann fór í framhaldsnám erlendis. „Til að byrja með var þetta einföld umfjöllun um áhugasviðið.“ Hafi hann smakkað gott vín eða fundið löngun hjá sér til að skrifa um áhugavert efni hafi hann skrifað um það. „Þetta vatt meira upp á sig eftir að ég flutti aftur heim 2012 og ég fór að skrifa með það að leiðarljósi að miðla fróðleik um efnið.“

Félagar í vínklúbbnum hittast einu sinni í mánuði og smakka sex til átta vín í hvert sinn. Eiríkur Orri smakkaði yfir 200 vín á liðnu ári og þar af um 60 á námskeiðinu en hann birti 84 umsagnir á netsíðu sinni. Hann segir skrifin tímafrek, því að mörgu þurfi að hyggja, en hann nýti frídaga í áhugamálið. „Heimildavinnan tekur mestan tíma.“

Eiríkur Orri fór fyrst í vínsmökkunarferð 2018 og segir breytilegt hvaða vín og svæði höfði helst til hans. „Sagt er að þegar menn smakki vín eignist þeir nýtt uppáhaldsvín hverju sinni en eins og sjá má á vínsíðunni hef ég verið mikið á Spáni vínfræðilega séð undanfarin ár.“ Áhugaverðast sé að smakka vín frá nýjum svæðum eða úr þrúgum sem hann hafi ekki prófað áður. „Þannig læri ég líka mest.“

Vín ársins hjá Eiríki Orra er ekki endilega það besta sem hann smakkaði á viðkomandi ári heldur frekar besta vínið miðað við verð. „Svo er gjarnan eitthvað spennandi og heillandi við það sem vekur meiri athygli en margt annað.“