Haukur Árnason fæddist 13. ágúst 1934 á Akureyri. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 22. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Árni Guðmundsson læknir, f. 3. desember 1899, d. 10. október 1971, og Ingibjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 2. apríl. 1907, d. 1. desember 1999. Systkini hans eru Guðmundur Örn, f. 18. júní 1930, d. 18. febrúar 2010, Þórunn, f. 11. júní 1941, d. 20. september 2011, og Svava, f. 22. maí 1948.

Haukur kvæntist fyrri konu sinni Aldísi Þuríði Ragnarsdóttur 3. september 1960, þau slitu samvistir. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Þórir, f. 28. mars 1963, maki hans er Oktavía Jóhannesdóttir, börn hans eru Hrafnhildur, f. 1990, maki Jason Rånes, Haukur Þór, f. 1995, og Gréta Björt, f. 1997. 2) Ingibjörg, f. 1. apríl 1969, gift Ingþóri Ásgeirssyni, börn þeirra eru Valtýr, f. 1990, Aldís Anna, f. 1995, maki Daníel Örn Arnarson, og Eyrún Eva, f. 1995.

Þann 27. ágúst 1983 kvæntist Haukur Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 7. janúar 1949, barn þeirra er Valgerður Helga, f. 19. október 1984, gift Atla Unnarssyni, börn þeirra eru Haukur Kristinn, f. 2010, Alexía Ösp, f. 2014, Árni Sveinbjörn, f. 2017, og Unnar Páll, f. 2017. Uppeldisdætur Hauks eru: 1) Guðrún Ólína Ágústsdóttir, f. 8. apríl 1968, gift Arnari Páli Michelsen, börn þeirra eru Ágúst Frank, f. 1991, giftur Camillu Holst, Elísa, f. 1993, maki hennar Þórir Már Guðnason, og Íris, f. 2001. 2) Ásta Ágústsdóttir, f. 18. janúar 1972, gift Halldóri Guðmundssyni, börn hennar eru Brynja, f. 1995, gift Heiki Orra Snorrasyni, og Guðrún, f. 2007. 3) Elísabet Ágústsdóttir, f. 30. júlí 1976, maki hennar er Gunnar Þór Guðmundsson. Haukur á sjö langafabörn.

Haukur ólst upp á Akureyri og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1953. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1961. Haukur hlaut almennt lækningaleyfi á Íslandi 1963 og 1968 í Svíþjóð og sérfræðingsleyfi í bæklunarskurðlækningum 1971. Á árunum 1961-1963 starfaði Haukur sem læknir á ýmsum stöðum á Íslandi áður en hann hélt til Svíþjóðar í sérnám í bæklunarskurðlækningum. Á árunum 1963-1971 var Haukur við störf og í sérnámi í Svíþjóð og Englandi. Sérfræðingur við slysadeild Borgarspítalans 1971. Árið 1980 sótti Haukur fyrstu alþjóðaráðstefnu um björgun sjúkra og slasaðra með þyrlu í München. Á árunum 1971-1973 starfaði Haukur sem stundakennari við Háskóla Íslands, hann var aðjunkt við læknadeild Háskóla Íslands frá 1975-1977 og lektor frá 1979. Meðan á læknanámi stóð var Haukur í ritstjórn Læknanemans frá 1959-1960. Á árunum 1985-2004 starfaði Haukur jafnt á slysadeild og bæklunardeild Borgarspítalans, en hafði einlægan áhuga á bráðatilfellum. Hann var ritari Félags íslenskra bæklunarlækna frá stofnun þess 1972-1985 ásamt því að sitja í stjórn læknaráðs Borgarspítalans frá 1973-1975. Haukur hafði mikinn áhuga á hvers konar útivist og var mikill stangveiði- og skotveiðimaður, skíða-, skauta- og hestamaður.

Útför Hauks verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 1. febrúar 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi minn, þau voru erfið sporin út af Eir að morgni mánudags 22. janúar, daginn sem þú kvaddir okkur.

Í huga mér er hvað minnisstæðust sagan af fæðingu minni, hvernig öll fæðingardeildin hló af því ég fæddist sköllótt með kraga og lifandi eftirmynd þín. Á uppvaxtarárunum hafði ég ekki gaman af þessari sögu en á fullorðinsárum hefur hún orðið mér kær, ekki síst þegar ég eignaðist eftirmynd okkar í nafna þínum og afabarni.

Ég mun alltaf minnast hinna fjölmörgu samverustunda okkar og ótal ferða okkar saman upp í hesthús, á skíði, skauta eða í sund.

Ég man eftir ótal stundum þar sem þú kenndir mér hinar ýmsu íþróttir enda varstu lunkinn í þeim öllum. Sundið var okkar helsta íþrótt og er mér minnisstætt þegar þú sagðir við mig um níu ára gamla: „Daginn sem þú syndir hraðar en ég, þá verð ég orðinn gamall.“

Aldrei varðstu gamall, meira að segja hættir þú að syngja í kór eldri borgara af því þér fannst þú ekki orðinn nógu gamall til að syngja með þessu gamla liði, eins og þú orðaðir það.

Elsku pabbi minn, mikið finnst mér samt erfitt að kveðja þig, að fá ekki að sjá þig meira og heyra rödd þína. En minning þín lifir um ókomna tíð. Það er þó huggun harmi gegn að vita að þú ert kominn aftur í Hellatún með hestunum þínum Blossa, Dreka og Ófeigi, foreldrum þínum, Völu, Guðna og ömmu á Akureyri.

Við kveðjum þig með tregans þunga tár

sem tryggð og kærleik veittir liðin ár.

Þín fórnarlund var fagurt ævistarf

og frá þér eigum við hinn dýra arf.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Þín dóttir,

Valgerður Helga (Vala).

Leiðir okkar Hauks Árnasonar lágu fyrst saman í 5. bekk Barnaskóla Akureyrar, þegar hann kom ásamt Aðalgeiri Pálssyni í hóp „Arnarunganna“ – kennari var Örn Snorrason.

Augljós áhrif skátastarfs með Tryggva Þorsteinssyni frá barnsaldri komu m.a. fram í áhuga okkar á fjallgöngum og jöklaferðum. Lengsta ferð menntaskólaáranna var vorið 1952, þegar við ásamt Aðalgeiri og Ólafi Hallgrímssyni gengum frá Bakkaseli yfir Öxnadalsheiði og gistum hjá nafna mínum á Silfrastöðum; þaðan inn Kjálka í veislukost og gistingu hjá Moniku á Merkigili. Lögðum svo á Nýjabæjarfjall (yfir 1.000 m) sunnan Tinnárdals. Gangan sóttist seint á fjallinu, skíðalausir, en lengst af snjór upp á miðja leggi; náðum að Villingadal í Eyjafirði eftir u.þ.b. 20 klst. ferð frá Merkigili.

Af MA-stúdentum 1953 fórum við, níu skólabræður, í læknisfræði. Sumarið 1955 gengum við Haukur ásamt Aðalgeiri úr Hörgárdal um Barkárdal, yfir Tungnahryggsjökul til Hóla. Um páska sóttum við kraft til fjalla með góðum félögum; 1954 á Tindfjallajökul, 1955 á Fimmvörðuháls og í Þórsmörk. 1956 vorum við sex á ferð (24.-29. mars), þrír aðrir læknanemar, Eiríkur Sveinsson, Óli Björn Hannesson og Leifur Jónsson ásamt Magnúsi Hallgrímssyni verkfræðinema. Þetta var göngu- og skíðaferð frá Gullfossi norður yfir Hofsjökul til Akureyrar. Gist var í Hvítárnesi og Kerlingarfjöllum. Þriðji áfanginn var langur og strangur, upp Blágnípujökul, norðaustur yfir hábungu jökulsins, tæplega 1.800 m, með stefnu austan Illviðrahnjúka að Laugafellsskála. Þangað náðum við eftir um 80 km göngu í 23 klst., þar af um 40 km á jöklinum í niðaþoku.

Ferðabúnaður var 35-40 kg á mann, allt borið á bakinu. Eftir góða hvíld í Laugafelli var svo gengið niður í Eyjafjörð og ekið til Akureyrar.

Við vorum 12 sem lukum prófum í læknisfræði vorið 1961. Næsta ár réðum við Haukur okkur á FSA og fylltum þar þrjár stöður kandídata hjá Guðmundi Karli og Ólafi Sigurðssyni.

Fram undan voru sex ár í sérnámi erlendis. Fjallaferðum hefur farið fækkandi og lækkandi en vináttan haldist. Árið 2006 fórum við 50 ára afmælisferð yfir Hofsjökul í mesta jökladreka landsins, ICECOOL. Margt breytist, jöklarnir óðum að hverfa og að gamlingjum farið að sverfa.

MA-stúdentar '53 fögnuðu 70 ára afmælinu þann 15. júní síðastliðinn. Þar var Haukur mættur með Guðrúnu sinni. Nokkrir „Arnarungar“ hittust á kaffihúsi 4. janúar '24, níræðir á þessu ári. Þar var „skarð fyrir skildi“, Haukur ekki ferðafær. Nú er hann farinn í sína hinstu för og stefnir hátt.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Guðrúnar og fjölskyldu.

Jóhann Lárus
Jónasson og
Hlaðgerður Laxdal.