Jóhann Hinrik Níelsson fæddist 1. júlí 1931 á Ekru í Neskaupstað. Hann lést 11. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Níels Björgvin Ingvarsson yfirfiskmatsmaður, f. 21. september 1900, d. 5. mars 1982, og Guðrún Borghildur Hinriksdóttir húsfreyja á Ekru, f. 9. maí 1908, d. 17. nóvember 2001.

Bróðir Jóhanns var Ingvar, f. 1933, d. 2017, giftur Önnu Sigríði Hauksdóttur, f. 1931, d. 2014, og uppeldissystir hans var Guðlaug Lovísa Ólafsdóttir, f. 1924, d. 2020, gift Guðmundi Björnssyni, f. 1925, d. 1988. Jóhann átti einnig þrjár systur sem allar létust í frumbernsku.

Jóhann giftist 7. júlí 1956 Þórdísi Gústavsdóttur, f. 1. júlí 1931. Foreldrar hennar voru Gústav Adolf Jónasson ráðuneytisstjóri, f. 1896, d. 1961, og Steinunn Sigurðardóttir Sívertsen, f. 1900, d. 1973. Dætur Jóhanns og Þórdísar eru: 1) Steinunn, iðjuþjálfi og líffræðingur, f. 1961, hún er í sambandi með Torfa Þórhallssyni verkfræðingi, f. 1964. Steinunn á þrjá syni og einn stjúpson með fyrrverandi sambýlismanni sínum Jóni Einarssyni: a) Einar, f. 1982, d. 2020, móðir hans er Hafrún Lára Ágústsdóttir. b) Jóhann Hinrik, f. 1996, í sambúð með Victoriu Volcova. c) Ingimar, f. 1998, í sambúð með Kötlu Björk Ketilsdóttur, þau eiga eina dóttur, Júlíu Björt. d) Björn Gústav, f. 2000. Börn Torfa eru Egill, f. 1997, Ragnheiður, f. 2000, og Vilmundur, f. 2001. 2) Borghildur verkfræðingur, f. 1963, hún er gift Tryggva Þorsteinssyni verkfræðingi, f. 1964, dætur þeirra eru: a) Sandra, f. 1988, móðir hennar er Hulda Björk Pálsdóttir, Sandra er gift Atla Þór Agnarssyni, þau eiga tvö börn, Úlfhildi og Fálka. b) Þórdís, f. 1995. c) Ragnheiður, f. 1998.

Jóhann útskrifaðist sem stúdent frá MA 1952 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1960. Hann varð héraðsdómslögmaður 1965 og hæstaréttarlögmaður 1973. Jóhann var fulltrúi hjá Sakadómaranum í Reykjavík 1960-65 og framkvæmdastjóri Hjartaverndar 1966-78. Hann rak eigin lögmannsstofu frá 1969, fyrst einn og síðar með öðrum. Jóhann var félagi í Rótarýklúbbnum Görðum frá stofnun hans. Hann sat í stjórn Lögmannafélags Íslands 1981-83, sem formaður 1982-83 og sat í stjórn Menntasjóðs LMFÍ frá 1990 til 2004 auk þess sem hann gegndi ýmsum nefndarstörfum. Jóhann var kjörinn heiðursfélagi í Lögmannafélagi Íslands árið 2015.

Jóhann og Þórdís voru frumbyggjar á flötunum í Garðabæ, hann byggði hús þeirra á Stekkjarflötinni. Hann var mikill útivistarmaður og fór með fjölskyldunni í skíðaferðir á veturna og útilegur á sumrin. Jóhann stundaði golf og siglingar af miklum krafti og var stofnfélagi í golfklúbbnum Keili. Hann tók virkan þátt í uppbyggingu siglinga sem keppnisíþróttar á Íslandi og var kjörinn siglingamaður ársins 1978. Jóhann var mikill fjölskyldumaður og eftir að hann hætti í lögmennsku lagði hann áherslu á að vera með barnabörnunum.

Útför Jóhanns fer fram í Vídalínskirkju í dag, 1. febrúar 2024, klukkan 13.

Við byrjum þetta ár á að kveðja elsku afa okkar, afa Jonna.

Þegar við hugsum um afa, þá sjáum við hann fyrir okkur í sætinu sínu við eldhúsborðið á Stekkjarflötinni. Við barnabörnin nutum þeirra forréttinda að alast upp í göngufjarlægð frá afa og ömmu. Það voru ófá tilfelli þar sem við komum við hjá þeim, fengum afabrauð eða hafragraut með eplum og kanil og mjólkurglas, spiluðum við afa og þutum svo af stað í önnur verkefni.

Afi var einstaklega barngóður og það var augljóst að afahlutverkið var honum mjög kært, enda kallaði hann sig lengi vel lang-afa áður en við fæddumst, því hann langaði svo að verða afi. Hann gaf sér alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin, spjallaði við okkur, kenndi okkur að tefla, og smitaði okkur af ást sinni á náttúrunni og garðinum. Sama hvort það var í útilegum eða í garðinum heima, þá naut hann þess að vera úti í sólinni með fólkinu sínu.

Amma og afi á Stekkjó hafa verið fastur hluti af heimsmynd okkar og það er sár veruleiki að horfast í augu við að nú sé afi farinn. Við erum þakklát fyrir þau forréttindi að hafa átt hann sem afa og að hafa fengið að hafa hann svona lengi hjá okkur.

Kveðja frá barnabörnunum,

Þórdís, Jóhann Hinrik, Ragnheiður, Ingimar og Björn Gústav.

Í dag kveðjum við heiðursmann, yndislegan mág minn, sem hefur lifað löngu farsælu lífi. Mér er minnisstætt þegar ungur maður frá Norðfirði fór að gera hosur sínar grænar fyrir systur minni, bjartur yfirlitum, brosmildur, fjörugur og bar með sér ferskan andblæ. Þau trúlofuðust á gamlársdag 1955 og giftust í Dómkirkjunni 7. júlí 1956. Þau hafa verið gift í 68 ár, samhent hjón, jafnræði milli þeirra, kærleikur og vinátta.

Þau voru frumbyggjar á Stekkjarflöt í Garðabæ, sköpuðu vinalegt og fallegt heimili með fallegum garði og útipalli. Jonni var ekki bara góður lögfræðingur heldur líka listasmiður. Að loknum vinnudegi í Sakadómi fór hann í Garðabæinn til að vinna í húsinu. Unga fjölskyldan flutti í september 1963 í húsið með tvö lítil börn. Hamingjan var á hápunkti. Þau héldu áfram að vinna í húsinu, voru útsjónarsöm og listfeng, allt varð svo fallegt í kringum þau.

Þau voru mikið fjölskyldufólk, samhent um að ala upp tvær yndislegar dætur og sinna barnabörnum af alúð og ástríki, sýndu stórfjölskyldunni líka gestrisni og góðvild. Fjölskylduboð á jólum voru tilhlökkunarefni. Eftirminnilegar eru afmælisveislur þeirra hjóna, fædd sama dag og ár. Oftast gott veður fyrir garðveislu þegar vinir og vandamenn fögnuðu með afmælisbörnunum.

Þau deildu mörgum áhugamálum, útivistarfólk og náttúruunnendur innan lands og utan, nutu þess að ferðast um landið í tjaldvagni. Þau stunduðu saman sund, skíðaferðir og golf. Jonni hafði líka brennandi áhuga á siglingum, var keppnismaður í þeirri grein og stundaði hana með ungu fólki í Kópavogi. Eitt sinn var hann kosinn siglingamaður ársins.

Þau ferðuðust til framandi landa, heimsóttu Ingvar bróður hans og Önnu í Singapúr og voru fastagestir hjá okkur í Gautaborg. Þau kunnu að njóta lífsins og voru líka sérlega barngóð. Jonni sat með þeim yngstu á gólfinu, galdraði og lék alls kyns kúnstir. Þetta fengu öll börn í fjölskyldunni að upplifa og börnin mín nutu þess að eiga þennan skemmtilega frænda á Íslandi. Þau hjónin voru nánast staðgenglar afa og ömmu í lífi barnanna. Fjölskylda mín bjó í Gautaborg í 42 ár, en þau gerðu okkur kleift að halda tengslum við Ísland, eiga samastað og vera velkomin, voru alltaf mætt á flugvellinum, svo var brunað heim á Stekkjarflöt. Oft var búið að skipuleggja ferðir um landið. Þeim var annt um að börnin lærðu íslensku og kynntust landinu.

Síðustu árin hafa alvarleg veikindi sett svip sinn á heimilið. Jonni missti líkamlegan og andlegan kraft en var samt inn á milli sjálfum sér líkur, húmorinn á sínum stað. Það var unun að sjá og einstakt hversu vel systir mín, dætur, tengdasynir og barnabörn tókust á við veikindin og gerðu honum mögulegt að vera heima í því umhverfi sem hann elskaði, umvafinn sínu fólki. Hann naut þess að sitja í fallegu stofunni og dást að garðinum: „Sjáið hvað þetta er fallegt.“ Oft benti hann á konuna sína og sagði: „Sjáið hvað hún er falleg.“ Það var kærleikur i loftinu.

Við Karl Gustaf, Sigrún og Björn þökkum innilega einlæga og trygga vináttu og ástríki í áratugi.

Kristín Gústavsdóttir.

Fallinn er frá á 93. aldursári einstakur maður, svili og uppáhalds-„frændi“ okkar, Jóhann Hinrik Níelsson hdl.

Alla tíð hefur verið mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar en maðurinn minn og pabbi okkar, Jónas Gústavsson, var bróðir Þórdísar, eiginkonu Jóhanns.

Það var alltaf svo gott að koma til þeirra Þórdísar og Jóhanns á Stekkjarflötina. Þau voru einstaklega góðir gestgjafar og móttökurnar ávallt svo hlýjar og heimili þeirra fallegt. Innandyra stjórnaði Þórdís af röggsemi en garðurinn var staðurinn hans Jóhanns og í honum var allt svo snyrtilegt og fallegt. Hugað var að hverju smáatriði og grasflötin sú grænasta og sléttasta í bænum. Jóhann naut þess að sýna okkur garðinn og segja frá hvað hann var að hugsa með þessu tré, þessum blómum og runnum. Allt hafði sinn tilgang.

Í gamla daga voru haldin stór fjölskylduboð á Stekkjarflötinni bæði með okkar stórfjölskyldu og fjölskyldunni hans Jóhanns sem við hugsum til baka til með hlýju.

Jóhann var mikill fjölskyldumaður og það var enginn eins og hann. Við krakkarnir hændumst að honum því hann var göldróttur, gat galdrað peninga inn í handlegginn á okkur og tekið hann út bak við eyrað án þess að okkur yrði illt. Svo var hann líka svo skemmtilegur. Spjallaði við okkur og spurði hvað við værum að fást við, hlustaði og sýndi því áhuga. Hann keppti líka í siglingum, var með tattú og skíðaði manna best.

Við Jónas ferðuðumst mikið með Þórdísi og Jóhanni bæði innanlands og utan. Fórum í skíðaferðalög til Evrópu, ferðir á framandi slóðir og óteljandi ferðir í tjaldvögnunum okkar innanlands.

Einu sinni í ferð okkar um gömlu Sovétríkin kom afi stórfjölskyldu í Georgíu að máli við Jóhann og vildi að hann yrði guðfaðir nýfædds barns í fjölskyldunni. Hann sá greinilega eitthvað traust og vinalegt í fari Jóhanns. Hann var líka svo óskaplega skemmtilegur og hafði áhuga á svo mörgu. Alúðlegur, víðsýnn, útsjónarsamur og heilt yfir ákaflega góð manneskja, prýddur þeim mannkostum sem við öll viljum hafa.

Það var gott að eiga Jóhann að og alltaf var hægt að leita til hans bæði með persónuleg málefni og lögfræðileg enda vel sjóaður, ekki bara í lögfræðinni heldur í lífinu og hefur hann reynst fjölskyldum okkar einstaklega vel. Hann vildi hafa hlutina einfalda og ef það voru stór og flókin mál, þá vildi hann einfalda þau. Það var kannski líka þess vegna sem honum vegnaði vel í starfi sem lögfræðingur enda einstaklega greindur og yfirvegaður.

Elsku Þórdís, Steina, Bogga og fjölskyldur, hlýjar kveðjur til ykkar. Við eigum eftir að sakna Jonna.

Kristín, Guðrún Helga, Steinunn, Einar, Daníel og fjölskyldur.

Í dag er kvaddur Jóhann H. Níelsson. Hann átti farsælan lögmannsferil frá 1969 allt fram til ársins 2004. Fjölbreytt viðfangsefni öfluðu honum mikillar þekkingar og reynslu. Hann ávann sér einnig traust kollega sinna og annarra samferðamanna og var meðal annars oft leitað til hans þegar kom að stórum og vandasömum verkefnum við skiptastjórn.

Fyrstu kynni mín af Jóhanni voru í ágúst 1993 þegar ég var ráðin sem laganemi til að aðstoða við gjaldþrotaskipti sem þá stóðu yfir og Jóhann stýrði ásamt Ástráði Haraldssyni. Ráðningin átti aðeins að vera í nokkra mánuði en einhvern veginn gerðist það að við Jóhann störfuðum saman fram til þess að hann lét af lögmennsku árið 2004. Þetta var ný staða fyrir okkur bæði; ég hafði aldrei stigið fæti inn á lögmannsstofu og Jóhann hafði aldrei starfað með fulltrúa. Við fundum þó fljótlega taktinn í samstarfi okkar og bar þar aldrei skugga á. Það var gott að starfa með Jóhanni og ekki spillti þar fyrir leiftrandi hugsun hans, rík frásagnargáfa og oftar en ekki dæmisögur sem stundum komu úr óvæntum áttum.

Jóhann tók ríka ábyrgð á uppfræðslu hins unga lögfræðings. Mildilega las hann yfir drög bréfa, greiddi úr orðaflækjum og merkti við alla „grænjaxla“. Þar fyrir utan fannst honum bréf þola ágætlega að bíða yfir nótt enda gerðist þá oft að lýsingarorð urðu óþörf og þau sem lifðu af voru færð niður um stig. Bréf samin í ójafnvægi eða fljótfærni væru auk þess síst vænleg til sátta. Svo voru það reglurnar. Til að mynda ætti helst aldrei að flýta ákvarðanatöku ef einhver þrýsti á um það. Það væri alltaf nægur tími. Varast ætti að gera gagntilboð í samningaviðræðum en heldur reyna að kalla fram betra tilboð. Mikilvægast var þó að undir öllum kringumstæðum ætti að segja skjólstæðingum hið rétta í hverju og einu máli. Ekki mætti taka undir óraunhæfar væntingar þeirra um niðurstöðu dómsmáls. Það væri hlutverk lögmanns að tryggja að ákvörðun um málsókn ætti að vera tekin á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga.

Starf lögmanns getur á tíðum verið vandasamt. Jóhann hafði sérstaka náðargáfu í mannlegum samskiptum og átti auðvelt með að nálgast einstaklinga þannig að honum var treyst. Með hreinskiptni og rólegu fasi lagði hann einfaldlega til lausnir sem voru bæði raunhæfar og réttlátar. Hann var enda sanngjarn maður í eðli sínu, réttsýnn sem og heiðarlegur í samskiptum. Það mátti treysta því sem hann lagði til.

Það er sérstök gæfa mín að hafa fengið tækifæri til að kynnast Jóhanni og starfa með honum um árabil. Vinátta hans og velvild í minn garð hefur verið mér ómetanleg. Alltaf gat ég leitað til hans með stór og smá málefni og alltaf hafði hann nægan tíma. Hann tók þá skynsömu ákvörðun að hætta lögmennsku í lok árs 2004. Nú var komið að því að verja meiri tíma með Þórdísi og fjölskyldunni og rækta áhugamálin. Það reyndist honum farsælt.

Nú kveð ég Jóhann og þakka honum kynnin. Þau voru mér dýrmæt og munu fylgja mér áfram um ókomna tíð. Ég votta Þórdísi, Borghildi og Steinunni sem og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Ása Ólafsdóttir.

Ég var svo heppinn að fá leigða skrifstofuaðstöðu hjá Jóhanni H. Níelssyni hæstaréttarlögmanni er ég var að byrja í lögmennsku upp úr 1980. Átti Jóhann hluta af 4. hæð, að Lágmúla 5, Reykjavík, fjögur rúmgóð skrifstofuherbergi, með breiðum gangi og góðri aðstöðu fyrir ritara, og síðan kaffistofu, rétt við innganginn.

Var gott að vera hjá Jóhanni. Veitti hann margs konar ráð og leiðbeiningar í lögmennskunni. Hafði hann á orði, að í lögmennskunni yrði maður vitni að því hvað lífið væri margslungið. Mörg mál væru þessi eðlis að engin leið hefði verið að gera grein fyrir atvikunum í skáldsögu.

Jóhann var aldrei með mörg mál, en vann bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og hélt vel utan um sína skjólstæðinga og kláraði málin. Einnig sá hann um skipti dánarbúa og þrotabúa, en Jóhann var reikningsglöggur og athugull. Síðari árin sem ég var í Lágmúlanum upp úr 1990 var Jóhann með nokkur stærstu þrotabúin sem komu við við sögu hér á landi á þeim tíma, með öðrum valinkunnum lögmönnum.

Eftir að ég kom í Lágmúlann til Jóhanns hitti ég aðra lögmenn sem komu reglulega á kaffistofuna. Einn af þeim var Ólafur Axelsson, sem var góður vinur Jóhanns og afbragðslögmaður, sem ég kynntist vel. Fóru þeir ákveðna daga í viku hverri út að hlaupa og síðan í æfingasal til lyftinga. Fljótlega fór ég að fara með þeim. Fyrst fórum við niður í Jakaból í Laugardalnum, en þar æfði líka Ólafur Sigurgeirsson, öðru nafni Óli sterki, sem þá starfaði hjá sýslumanninum í Reykjavík, og var góður vinur Ólafs Axelssonar. Eftir að Jakaból lagðist af fórum við í Æfingastöðina Engihjalla, sem Óli sterki átti hlut í. Eftir æfingar var oft farið á góðan stað og borðað.

Jóhann var á þessum tíma vel á sig kominn líkamlega og stundaði hlaup, sem þá var ekki komið í tísku. Einnig stundað hann siglingar reglulega. Sagði hann að bestu ár ævinnar hefðu komið upp úr fimmtugu.

Jóhann bar sterkan persónuleika. Ef ég fór á ráðstefnur eða aðrar samkomur á vegum lögmannafélagsins, brást ekki að alltaf myndast hópur í kringum Jóhann, þar sem málin voru rædd og farið var með góðlátlegt grín.

Einn af þeim sem komu reglulega á kaffistofuna til Jóhanns var Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður. Er Guðmundur Ingvi mætti var lögfræðin ekki rædd, heldur önnur veraldleg mál. Farið var með ljóð og annan kveðskap, stundum blautlegan.

Eitt sinn er Guðmundur Ingvi var á kaffistofunni, var Jóhann byrjaður að setja saman vísu um Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann. Var fyrri partur Jóhanns á þessa leið: Staðfastur er hann Jón Steinar og stendur við það sem hann meinar.

Gekk eitthvað erfiðlega hjá Jóhanni að klára vísuna. Bað hann okkur Guðmund Ingva um aðstoð. Varð seinni hluti okkar á þessa leið: Og líkurnar á, að hann falli því frá, eru sko alls ekki neinar.

Samþykkti Jóhann seinni hlutann og komst limra þessi á eitthvert flug um skeið og þótti eiga vel við.

Er Jóhanni þakkaður tíminn í Lágmúlanum. Blessuð sé minning hans.

Steingrímur Þormóðsson.

Það er lífsgæfa að fá að vera innan um gott fólk. Ekki síst ef það er líka skynsamt og skemmtilegt. Jói Níels var þannig fólk. Það var gæfa mín að fá að setjast við fótskör hans í júní 1993 og vinna undir leiðsögn hans að umfangsmiklum og mikilvægum verkefnum í mörg ár. Þetta var mitt framhaldsnám. Þolinmæði hans og lagni við að koma viti fyrir ungt fólk með öra lund var einstök. Þau okkar sem þess nutu búa að því síðan.

Jói var nefnilega áhrifavaldur. Þó ekki þess háttar áhrifavaldur sem birtir glannalegar myndir á samfélagsmiðlum og segir fólki til um megrunarmál. Hann var áhrifavaldur með því að það voru í hans tíð ekki mörg mál afráðin í hópi lögmanna án þess að ráðgjafar hans væri leitað. Ég man að stundum reyndi á þolinmæðina þegar við vorum í önnum og hann sat í miðjum storminum og átti löng símtöl við lögmenn úti í bæ til að leiðbeina þeim um þeirra mál. Auðvitað alveg ókeypis. Þegar ég var að nöldra út af þessu sagði hann ævinlega að það græddi enginn eins mikið á þessu og hann sjálfur. Sem er auðvitað alveg rétt. Svona var Jói og svona á maður að vera.

Þannig var Jói Níels fyrirmynd og leiðtogi. Hann var líka íþróttamaður og kraftakarl. Hann hafði ríka kímnigáfu og átti þess konar hógværð og auðmýkt gagnvart verkefnum sínum og samferðamönnum sem aðeins djúpviturt fólk hefur yfir að ráða. Það er verðugt markmið í lífinu að reyna að vera eins og hann. Ég er forsjóninni ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Jóhanni H. Níelssyni.

Ástráður
Haraldsson.