Þjónusta Sólblómaböndin segja starfsfólki að gefa góðan tíma.
Þjónusta Sólblómaböndin segja starfsfólki að gefa góðan tíma.
Isavia hefur aukið þjónustu við farþega með ósýnilegar fatlanir á fjórum flugvöllum innanlands, í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Hugmyndin er að gera ferðareynsluna eins þægilega og hægt er fyrir viðkvæma hópa sem bera ekki fötlun…

Isavia hefur aukið þjónustu við farþega með ósýnilegar fatlanir á fjórum flugvöllum innanlands, í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Hugmyndin er að gera ferðareynsluna eins þægilega og hægt er fyrir viðkvæma hópa sem bera ekki fötlun sína endilega utan á sér, en glíma kannski við einhverfu, lesblindu eða heilabilun. Nú geta þau sem upplifa að það sé áskorun að fara í flugferð sótt sér sólblómaband og fengið betri upplifun á flugvellinum.

Böndin eru á innritunarborði

Sólblómabönd eru kennimerki sem hægt er að nálgast á þessum flugvöllum við innritunarborð og bera á ferð sinni um flugvöllinn. Ekki þarf að panta þau fyrir flugið. Böndin eru kennileiti fyrir starfsfólk flugvallanna og gefa til kynna að þau sem beri böndin þurfi lengri tíma, meiri tillitssemi, þolinmæði og skilning.

Ferðamenn með ósýnilega fötlun þurfa ekki að tilgreina skerðingu sína eða fötlun þegar þeir biðja um sólblómabandið og þótt starfsfólk flugvallanna sé ekki sérþjálfað í sértækri þjónustu við viðkvæmari hópa er það upplýst um að vera sérstaklega skilningsríkt og hjálpsamt við þau sem bera sólblómaböndin og veita betri tíma við almenna þjónustu.

Ekki ávísun á forgang

Sólblómaböndin eru ekki hugsuð sem sérstök hraðferð í gegnum flugvöllinn eða ávísun á forgang, heldur miða þau fyrst og fremst að því að upplifun notanda á flugvellinum sé eins þægileg og best verður á kosið. Það ætti því ekki að vera áskorun fyrir neinn að fara á flugvöllinn.