Glansrulla „Stjarna Ásthildar Úu Sigurðardóttur er rísandi og Lúna er glansrulla. Persónan þar sem hjarta verksins slær,“ segir í rýni. Með Ásthildi Úu á myndinni er Hilmir Snær Guðnason í hlutverkinu sem Heiðar snyrtir.
Glansrulla „Stjarna Ásthildar Úu Sigurðardóttur er rísandi og Lúna er glansrulla. Persónan þar sem hjarta verksins slær,“ segir í rýni. Með Ásthildi Úu á myndinni er Hilmir Snær Guðnason í hlutverkinu sem Heiðar snyrtir. — Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Lúna ★★★★· Eftir Tyrfing Tyrfingsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Gunnar Hildimar Halldórsson. Tónlist og hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Leikendur: Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sigrún Edda Björnsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 19. janúar 2024.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Þar sem við stöndum í rúmgóðu anddyrinu og búum okkur undir að setjast við Litla sviðið er rétt að fara nokkrum orðum um fílinn sem rúmast ekki þar.

Ég fæ ekki betur séð en aðstandendur Lúnu og talsfólk Borgarleikhússins hafi haldið heldur illa á málum þegar áformum um þessa sýningu var andmælt af fólki sem á um sárt að binda vegna brota Heiðars Jónssonar. Steininn tók þar úr dagana fyrir frumsýningu þegar í ljós kom að það var mjög orðum aukið að nafnabreyting verksins í kjölfar funda með þolendum nægði til að skapa sátt. Fram að því hafði ýmislegt virkað heldur klúðurslegt í viðbrögðunum og helst þótti manni, utan frá séð, eins og enginn hefði búist við neinum athugasemdum. Ekki hjálpaði sú bókmenntafræðilega þrætubók að tala um að persóna Heiðars snyrtis í verkinu væri ekki maðurinn sjálfur, heldur sköpunarverk höfundar, leikara og leikstjóra sýningarinnar. Sem er auðvitað rétt, en kemur málinu ekki við.

Það er hafið yfir vafa að fólk sem hefur ekkert til saka unnið telur að opinber sýning um þennan mann sé meiðandi í sjálfu sér. Það er jafnframt augljóst að leikhúsið telur að erindi sitt með sýningunni trompi þau óþægindi, en svo virðist sem það sé ekki vilji til að tala afdráttarlaust á þann hátt. Nema við viljum líta svo á að sýning verksins þrátt fyrir allt sé sú staðhæfing.

Það er í það minnsta auðskiljanlegt að það hafi ekki þótt góður kostur að slá þetta af. Lúna er afbragðsgott leikrit, með bestu verkum Tyrfings Tyrfingssonar, og þó að margt sverji sig í ætt við fyrri leikrit hans í efnistökum og stíl er hér líka nýjabrum. Fléttan mikilvægari og betur sinnt en stundum áður. Smá daður við pínu gamaldags stofukómedíu, en líka við nútímaharmleiki með yfirtónum úr fáránleikaleikhúsinu. Edward Albee kom mér nokkrum sinnum í hug. Og ekki bara fyrir barnleysið, sem er mikilvægt lykilatriði í framvindu þessarar jólanætur.

Nokkur spennusvið stýra gangi mála þegar Heiðar snyrtir birtist óvænt á mjög svo döpru aðfangadagskvöldi, sennilega því síðasta í sambandi Inga og Lúnu. Hún er á útleið, langþreytt á árangursleysi tilrauna þeirra til að eignast barn, búin að finna sannanlega frjóan elskhuga annars staðar, sem reyndar virðist ekki hafa margt við sig umfram virkar sáðrásir.

Heiðar er í klípu. Búinn að lofa fjölskyldunni jólaferð til Parísar en velgengni fyrri ára löngu fyrir bí og veskið tómt. Getur Ingi hjálpað, upp á gamlan vinskap? Sem reynist hafa rist dýpra en við höldum í upphafi. Eftir árangurslausar tilraunir til að koma þessum gesti úr fortíðinni burt biður örvæntingarfullur Ingi hann um nokkurs konar einkasjó fyrir Lúnu. Sem er fyrir fram síður en svo meðtækileg fyrir öldruðum – kannski úreltum – hugmyndum um kvenlega fegurð og framkomu, þó að hún gangi kaldhæðnislega með í leikinn.

En Heiðar og Lúna eru líka öndverðir pólar í heimspekilegum viðhorfum til fegurðarinnar og sannleikans. Hún er listakona og vinnur með hrörnun og ljótleika: allt sem við viljum hylja, fela og gleyma, eða kannski öllu fremur: allt sem karlstýrt samfélag okkar krefst að konur hylji og feli svo að við öll getum gleymt því. Sem er jú það sem Heiðar hefur helgað líf sitt.

Tyrfingur vinnur af talsverðri fimi með þessar orkustöðvar lengst af. Miðlar upplýsingum eftir þrautreyndu resepti hins vel mótaða leikrits. Skapar spennandi baksögur sem afhjúpast smátt og smátt í framvindunni. Skrifar brilljant tilsvör, sérstaklega upp í Heiðar, sem er með svarta beltið í varnarháttum „camp“-menningarinnar, en líka fyrir Lúnu og hinn fjarverandi elskhuga sem vaknar ljóslifandi fyrir okkur í stórkostlega durgslegum textaskilaboðum. Skáldið heldur líka vel utan um samband sviðs og salar, rífur raunsæisblekkinguna en drepur hana ekki. Öll þessi fimi, og form hins vel gerða stofudrama, vekur hins vegar væntingar um fullnægjandi leikslok, sem ekki er síðan boðið upp á. Verkið endar á endanum óþarflega oft. Leikstjórinn Stefán Jónsson hefur haldið utan um framsetningu þessa bitastæða verks af fagmannlegri virðingu, án þess að stimpla það af krafti með túlkandi fingraförum, sem betur fer.

Þetta form, og þessi texti, er auðvitað kjarnfóður fyrir flinka leikara. Sennilega er það Sigurður Þór Óskarsson sem sýnir okkur helst óvæntar hliðar á sér. Hlutverk Inga er ekki glansrulla til jafns við hinar en það er alvörugefin kyrrð yfir túlkuninni sem Sigurður er ekki oft beðinn um, enda mikill garpur í að túlka úthverf skrítimenni. Gerir þetta mjög fallega.

Hilmir Snær Guðnason er aftur á móti allur á mjög kunnuglegum stórleikaranótum í hlutverki Heiðars. Og það er nákvæmlega það sem þarf. Hann neglir fyndnina, sýnir inn í kvikuna, nýtur sín í samleik með salnum, fer hæfilega langt í átt að eftirhermunni. Það væri gaman ef Hilmir reyndi að dempa næstum-flámælgina sem hann hefur tamið sér í textameðferð, en hér er hvorki staður né stund fyrir þá vinnu.

Stjarna Ásthildar Úu Sigurðardóttur er rísandi og Lúna er glansrulla. Persónan þar sem hjarta verksins slær. Lengst af þótti mér hún mjög sannfærandi en þótti túlkunin verða á full-almennum nótum upp úr miðbiki, þegar áföllin og átakaspennan fara að ganga nærri persónunni. Lúna varð síðan aftur heilsteypt og áhrifarík þegar leið á seinni hlutann.

Sigrún Edda Björnsdóttir á stutta innkomu sem móðir Inga, og fipast hvergi í þeirri smámynd af yfirgengileika sem Tyrfingur gæti sennilega skrifað í svefni.

Leikmynd Barkar Jónssonar er í grunnformi rökrétt og raunsæisleg umgjörð fyrir stofudrama, þó að veggirnir og áferð þeirra geti eins vísað í nýrunnið hraun, einhvers konar rústir eða jafnvel dæmi um húsin sem Ingi vinnur við að brjóta niður. Sé þetta hugsað sem hjálp fyrir áhorfendur til að skilja hve illa er komið fyrir þessu fólki er hún vel meint en óþörf. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur þjóna verkinu af trúmennsku, lýsing Gunnars Hildimars Halldórssonar skotheld, en hangikjötsilmurinn verður sennilega langlífasta einkenni umgjarðarinnar í huga þess áhorfanda sem hér skrifar.

Það er ekki mitt að meta hvort það er betra eða verra fyrir umræðuna um réttmæti sýningarinnar hvað brot Heiðars Jónssonar og hans persónulega uppgjör við gerðir sínar gegna litlu hlutverki í Lúnu. Þetta er hvorki varnarræða né annar opinber dómur. Hér er það Heiðar snyrtir sem menningarfyrirbæri sem er notaður til að skoða flókið samband yfirborðs og þess sem undir býr, konur að reyna að lifa af í heimi skilgreindum af körlum og þörfum þeirra. Og auðvitað eftirskjálftana af æskuáföllum. Þetta er kröftugt, áleitið og að mestu vel smíðað verk, skilað til áhorfenda af listfengi á öllum póstum. Leikhús að gera það sem við ætlumst til af því.

Samtalinu um hvort það erindi trompi tillitsemi við fólk sem á um sárt að binda og hvernig eigi að meta og meðhöndla þau mál verður sennilega seint lokið, en það þarf að hefjast.