Fundur Bjarni Benediktsson ásamt Hersi Ólafssyni aðstoðarmanni.
Fundur Bjarni Benediktsson ásamt Hersi Ólafssyni aðstoðarmanni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Útilokað var að Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra hefði getað metið sérstakt hæfi sitt gagnvart hverjum og einum þeirra tilboðsgjafa sem þátt tóku í útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór í mars 2022

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Útilokað var að Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra hefði getað metið sérstakt hæfi sitt gagnvart hverjum og einum þeirra tilboðsgjafa sem þátt tóku í útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór í mars 2022.

Þetta kom fram hjá Bjarna á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær þar sem fjallað var um upplýsingagjöf til ráðherrans um stöðu Bankasýslu ríkisins sem sjálfstæðrar stofnunar og um framkvæmd hæfisreglna stjórnsýsluréttar við undirbúning að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Svo sem kunnugt er gaf Umboðsmaður Alþingis út það álit sitt í október sl. að Bjarna hefði skort hæfi til að samþykkja tillögur Bankasýslunnar um sölu bréfanna, þar sem einkahlutafélag föður hans var á meðal kaupenda að 22,5% hlut ríkisins í bankanum. Bjarni sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra í kjölfar þess að álitið kom fram.

„Það var útilokað af minni hálfu að fara yfir sérstakt hæfi mitt gagnvart hverjum og einum bjóðanda,“ sagði Bjarni á nefndarfundinum í gær og bætti því við að það hefði þá þurft að gerast með leifturhraða um miðja nótt.

Ekki hefði aðeins fjöldi þátttakenda í útboðinu skipt máli, heldur einnig hraði aðgerðanna. Opnað var fyrir tilboð eftir lokun markaða og tekið hefði verið við tilboðum alla nóttina ásamt því að greitt var úr því hvernig úthluta ætti, en fallist hefði verið á tillögur Bankasýslu ríkisins í aðalatriðum hvernig standa ætti að úthlutun til fjárfesta.

Á fundinum sagði Bjarni að eins hefði verið staðið að ákvarðanatöku sinni í báðum útboðum ríkisins á hlutabréfum í bankanum, bæði hve mikið af hlutabréfum væri selt sem og hvaða verð ætti að miða við. Hann hefði síðan ákveðið með hvaða hætti Bankasýslan myndi skipta þeim hlutabréfum sem til skipta voru á milli bjóðenda. Ekki hefði verið fundið að hæfi hans í fyrra útboðinu.

Á fundinum sagi Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að í sínum gögnum fyndi hún ekkert um það að Bjarni hefði þegið þau ráð að hann þyrfti ekki að gæta að hæfi sínu, sem hún sagði að Bjarni hefði haldið fram.

Því vísaði Bjarni á bug og kvaðst hvergi hafa haldið því fram að hæfisreglur ráðherra ættu ekki við. Enda hefði hann ákveðið að stíga til hliðar úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra í kjölfar álits Umboðsmanns Alþingis.

Nokkrar orðahnippingar urðu manna á milli á fundinum og fann Bjarni að því að svo virtist sem hann væri mættur í almenna yfirheyrslu.

Höf.: Freyr Bjarnason