Samkomulag Óttarr Makuch framkvæmdastjóri Landnýtingar og Halldór Pálsson stjórnarformaður. Á milli þeirra er Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri, en myndin var tekin þegar samkomulag var gert við sveitarfélagið.
Samkomulag Óttarr Makuch framkvæmdastjóri Landnýtingar og Halldór Pálsson stjórnarformaður. Á milli þeirra er Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri, en myndin var tekin þegar samkomulag var gert við sveitarfélagið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Góður gangur er í undirbúningi þess að reist verði stóriðja í grænmetisrækt nærri Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í fyrsta áfanga stendur til að reisa gróðurhús sem verður af stærri gerðinni á íslenskan mælikvarða

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Góður gangur er í undirbúningi þess að reist verði stóriðja í grænmetisrækt nærri Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í fyrsta áfanga stendur til að reisa gróðurhús sem verður af stærri gerðinni á íslenskan mælikvarða. Áætlanir miðast annars við að reisa byggingar þar sem ræktunarsvæði undir gleri yrði allt að 27 hektarar. Þetta yrði innan 10 ára. Þá yrði framleiðslugetan um 300 tonn af tómötum á viku, svo dæmi sé tekið um eina grænmetistegund. Að þessu verkefni stendur fyrirtækið Landnýting ehf. og framkvæmdastjóri þess er Óttarr Makuch.

„Stóra viðfangsefnið nú er að ljúka fjármögnun og stilla allar áætlanir af. Þetta tekur allt sinn tíma,“ segir Óttarr um verkefnið, sem vonast er til að bæði innlendir og erlendir fjárfestar komi að. Heildarfjárfesting á þessu 10 ára tímabili, miðað við þau tilboð sem liggja fyrir að utan, gæti numið um 22 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Vænst er að framkvæmdir hefjist síðar á þessu ári.

Miklir möguleikar í matvælaframleiðslu

„Verkefnið allt byggist allt á góðum áætlunum. Einnig því að þekkja markaði, og hafa kannanir okkar staðfest að samkeppnishæfni okkar er ágæt. Uppbygging okkar miðast við að öll framleiðslan fari á erlendan markað og þá til Norður-Evrópu og Bretlands,“ segir Óttarr. „Frá Árnesi til Þorlákshafnar er ekki nema um rúmlega klukkustundar akstur, sem gerir alla flutninga mjög þægilega um Þorlákshöfn. Einnig um Reykjavík og Keflavíkurflugvöll. Þetta er verkefni sem sýnir mjög vel hve miklir möguleikar og tækifæri felast í matvælaframleiðslu á Íslandi.“

Þess má geta að heildarframleiðsla á tómötum á Íslandi árið 2022 var 1.460 tonn. Sé sú tala höfð til samanburðar verður framleiðslan í Árnesi á fullum afköstum um tífalt meiri, eða um 15.600 tonn á ári miðað við 300 tonn á viku.

Gróðurhúsin við Árnes yrðu reist sunnan þjóðvegarins sem liggur þvert í gegnum Gnúpverjahreppinn gamla Á umræddum stað er 36 ha. atvinnulóð sem er merkt grænni atvinnustarfsemi. Þá er í grennd, í landi jarðarinnar Þjórsárholts, borhola sem skilar um 100 l/sek. af 70° heitu vatni sem í dag nýtist ekki nema að litlu leyti. Þetta gerir Árnessvæðið góðan stað fyrir risastórt gróðurhús og ræktun þar.

Græn framtíð

Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segist trúa að í næstu framtíð verði hafist handa um fleiri græn verkefni í þessum dúr á Íslandi. Hér á landi séu aðstæður til slíks mjög góðar, þar sem landgæði, hreint rafmagn og vatn séu til staðar.