Ljósadýrð Hátíðin einkennist iðulega af mikilli ljósadýrð.
Ljósadýrð Hátíðin einkennist iðulega af mikilli ljósadýrð.
Vetrarhátíð verður haldin dagana 1.-3. febrúar í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. „Tilgangur Vetrarhátíðar er að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka menningarlega þætti sem allir tengjast…

Vetrarhátíð verður haldin dagana 1.-3. febrúar í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. „Tilgangur Vetrarhátíðar er að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka menningarlega þætti sem allir tengjast þema hátíðarinnar, ljósi og myrkri,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hátíðin verður sett í dag í klukkan 19 fyrir framan Hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Einar Þorsteinsson borgarstjóri mun opna hátíðina með því að kveikja á ljóslistaverkinu „Absorbed by light“. Ljóslistaverk mynda gönguleið frá Hallgrímskirkju að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Sundlauganótt er haldin í dag. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt og verða alls 13 sundlaugar opnar og er aðgangur ókeypis. Safnanótt verður síðan haldin annað kvöld, föstudaginn 2. febrúar, en þá verða um 40 söfn opin almenningi og ýmsir óhefðbundnir viðburðir á dagskrá.

Í Kópavogi verður m.a. boðið upp á miðausturlenska músíkveislu, spádóma Siggu Kling og nýtt ljósaverk við Kópavogskirkju. Í Hafnarfirði verður boðið upp á barnatónleika, galdratáknasmiðju og leiðsögn um sýningar í Hafnarborg, svo eitthvað sé nefnt. Í Mosfellsbæ verður Álafoss sveipaður fjólubláum bjarma alla daga hátíðarinnar og í Garðabæ og á Seltjarnarnesi verður boðið upp á fjölbreytta viðburði fyrir alla fjölskylduna.

Nánari upplýsingar má finna á vefnum vetrarhatid.is.