Vonbrigði Snorri Steinn Guðjónsson á erfitt með að leyna vonbrigðum sínum í leik Íslands og Frakklands í Lanxess-höllinni í Köln á dögunum.
Vonbrigði Snorri Steinn Guðjónsson á erfitt með að leyna vonbrigðum sínum í leik Íslands og Frakklands í Lanxess-höllinni í Köln á dögunum. — AFP/Ina Fassbender
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Eitt af því sem ég lærði á þessu stórmóti er hversu mikið ég brenn fyrir Ísland og landsliðið okkar,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Eitt af því sem ég lærði á þessu stórmóti er hversu mikið ég brenn fyrir Ísland og landsliðið okkar,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins.

Íslenska liðið hafnaði í 10. sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi sem lauk um síðustu helgi, en þetta var fyrsta stórmót Snorra Steins með liðið.

Hann tók við þjálfun íslenska liðsins síðasta sumar og vat yfirlýst markmið liðsins fyrir Evrópumótið í janúar að tryggja sér sér sæti í undankeppni Óiympíuleikanna, sem tókst ekki.

„Þegar hlutirnir ganga ekki upp er engin ástæða til þess að gleyma þeim. Það er okkar að læra af þeim mistökum sem við gerðum á EM, vinna með þau og læra af þeim. Ég horfi á þetta mót sem vonbrigði og við þurfum að nýta þessi vonbrigði til góðra verka. Við náðum ekki markmiðum okkar, spilamennskan var ekki nægilega góð og hún var kaflaskipt. Það vantaði mikið upp á og að komast ekki í undankeppni Ólympíuleikanna var mikil vonbrigði,“ sagði Snorri Steinn.

Eins og áður sagði var Snorri Steinn á fyrsta stórmóti sínu sem þjálfari liðsins, en hann lék alls 257 landsleiki fyrir Ísland sem leikmaður og vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á EM í Austurríki árið 2010.

Gríðarlega mikil reynsla

„Þetta var erfitt og tók alveg á, bæði á mig og fólk í kringum mig, en ég brenn hættulega mikið fyrir þetta ef svo má segja. Ég lærði milljón hluti um sjálfan mig, hvernig það er að vera á svona móti sem þjálfari, og það er ótrúlega margt sem ég tek með mér út úr þessu. Þetta var gríðarlega mikil reynsla fyrir mig og gerði mér mjög gott.“

Til stendur að íslenska liðið spili vináttulandsleiki í komandi landsleikjaglugga í mars og þá mætir liðið annaðhvort Eistlandi eða Úkraínu dagana 9. og 11. maí í umspili um sæti á HM 2025, sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi, en leikið verður heima og að heiman.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að hittast aftur og halda áfram. Ég er ekki alveg kominn það langt að vera byrjaður að skipuleggja þessa vináttulandsleiki og hvernig ég muni nálgast þá. Það eru svo umspilsleikir í maí, þannig að það er nóg fram undan hjá okkur, sem er bara jákvætt. Við fórum aðeins út af sporinu og það er mitt núna að koma okkur aftur inn á sporið.

Þá er ég ekki bara að tala um einhverja spilamennsku í vináttulandsleikjum heldur að koma okkur aftur á réttan stað og að það sé einhver framtíðarsýn í gangi hjá liðinu. Við þurfum að vera með ákveðna sýn á hlutina, við þurfum að hafa eitthvert markmið og einhvern draum að elta. Undankeppni Ólympíuleikanna fór á EM og nú er bara að finna nýjan draum.

Leikmenn þurfa að hafa eitthvað fyrir framan sig, enda eyða þeir miklum tíma í þetta og fórna líka miklu. Við verðum því að hafa eitthvað til þess að stefna að, því annars náum við aldrei inn þessum aukakrafti sem þarf til þess að ná árangri,“ sagði Snorri Steinn meðal annars, en þátturinn er aðgengilegur á hlaðvarpssíðu mbl.is, mbl.is/hladvarp, sem og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Höf.: Bjarni Helgason