Fjölskyldan Ingólfur ásamt Bryndísi og börnum þeirra árið 2016.
Fjölskyldan Ingólfur ásamt Bryndísi og börnum þeirra árið 2016.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingólfur Steinar Sveinsson fæddist á Barðsnesi við Norðfjörð 1. febrúar 1939, sjöundi í röð níu systkina. „Fæðingardagurinn skolaðist til í opinberum gögnum og ég er skráður fæddur 2. febrúar. Ég reyndi að laga þetta en það var ekki…

Ingólfur Steinar Sveinsson fæddist á Barðsnesi við Norðfjörð 1. febrúar 1939, sjöundi í röð níu systkina. „Fæðingardagurinn skolaðist til í opinberum gögnum og ég er skráður fæddur 2. febrúar. Ég reyndi að laga þetta en það var ekki hægt.“

Sjávarjörðina Barðsnes höfðu foreldrar Ingólfs keypt árið 1922. Faðir hans, Sveinn Árnason frá Grænanesi í Norðfirði, átti hlut í bát og stundaði sjósókn. Sigríður Þórðardóttir móðir hans var frá Kálfafelli í Suðursveit, alin upp við búskap og hafði áhuga á að stunda hann. Þau höfðu kynnst í Vestmannaeyjum.

Ingólfur var í farskóla tvo vetur, frá sex ára aldri, þar sem kennt var annan hvern mánuð. Kennarinn dvaldi og kenndi á Gerði, næsta bæ við Barðsnes. Ingólfur var síðan tvo vetur í heimavistarskóla á Kirkjumel í Norðfjarðarhreppi og hálfan vetur í skóla á Hrollaugsstöðum í Suðursveit og dvaldi þá hjá ættingjum á Kálfafelli. Næstu tvö ár var hann á Barðsnesi og hjálpaði til við öll störf. Hann var svo tvo vetur í Alþýðuskólanum á Eiðum.

Eftir það, árið 1955, bregður fjölskyldan búi síðust ábúenda á svæðinu og flytur til Neskaupstaðar. Ingólfur var á sjó á mótorbát frá Neskaupstað. „Þá fékk ég bréf frá Reyni Eyjólfssyni félaga mínum frá Eiðum þar sem Reynir leggur til að við sækjum um skólavist í Menntaskólanum á Akureyri, lesum þriðja bekk utan skóla og byrjum í fjórða bekk.“ Það varð úr og Ingólfur fjármagnaði nám og heimavistardvöl á Akureyri með vinnu við sjósókn á sumrin.

Eftir stúdentspróf frá MA 1959 flutti Ingólfur til Reykjavíkur og hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði í febrúar árið 1966, tók kandídatsár á sjúkrahúsunum í Reykjavík og leysti af á landsbyggðinni. Á Kleppi þar sem hann var aðstoðarlæknir kviknaði áhugi hans á geðsjúkdómum. Ingólfur flutti til Cleveland í Ohio árið 1970, með fyrri eiginkonu og tveimur börnum og dvaldi þar rúm fjögur ár. Hann byrjaði að læra lyflækningar við Cleveland Clinic því hugur hans stóð til að verða heimilislæknir úti á landi. Honum snerist svo hugur og hann lærði geðlækningar.

Við heimkomu hóf Ingólfur störf á Kleppi og tók þátt í stofnun fyrstu endurhæfingardeildarinnar fyrir fólk með geðrænan vanda og leiddi þá deild. Hann vann á Landspítala til ársins 1995. Vann í hlutastarfi á Reykjalundi frá 1974 og þar til hann varð sjötugur. Ingólfur stofnaði ásamt fleirum Lækninga- og sálfræðistofuna árið 1986 sem lengst af var í Skipholti 50c og vann þar allt til ársins 2023 þegar stofan var lögð niður.

Ingólfur var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi um tíma. Hann hefur ritað greinar í blöð bæði um pólitík og geðheilsu.

Helsta áhugamál Ingólfs er víðavangshlaup, hann hefur hlaupið mörg maraþon og hálfmaraþon bæði hér heima og erlendis. Hann stofnaði Barðsneshlaupið árið 1997 sem varð hluti af dagskrá Neistaflugs. Það er 27 km langt og hlaupið frá Barðsnesi til Neskaupstaðar um þrjá firði; Viðfjörð, Hellisfjörð og Norðfjörð. Ingólfur hljóp árlega fram til 2018. Fjöldi fólks hefur hlaupið það með honum í gegnum árin. Ingólfur á aldursmetið í Laugavegshlaupinu, 55 km utanvegahlaupi, hljóp það síðast árið 2014 þá 75 ára gamall. Hann er ennþá virkur í hlaupahópnum Laugaskokki. „Ég hleyp þar með Gunnari J. Geirssyni sem ég kalla áttavitann minn.“

Systkinin og afkomendur þeirra hófu að gera upp æskuheimilið Barðsnes árið 1989, vinna sem stendur enn yfir. Þau hafa fengið viðurkenningu frá umhverfismálanefnd Fjarðabyggðar „fyrir lofsvert framtak í uppbyggingu staðarins og góðan stuðning við ferðaþjónustu á svæðinu“.

Fjölskylda

Eiginkona Ingólfs er Bryndís Berg, f. 20.11. 1961, geðhjúkrunarfræðingur. Þau hafa búið í Vogahverfinu í Reykjavík síðastliðin 30 ár. Foreldrar Bryndísar voru hjónin Friðbjörg Friðbjörnsdóttir frá Húsavík, f. 1922, d. 2009, húsfreyja og verkakona, og Ágúst Berg, f. 1910 í Vesturheimi, d. 1979, forstjóri Smjörlíkisgerðar Akureyrar, AKRA. Þau bjuggu á Akureyri.

Fyrri eiginkona Ingólfs var Sigurlaug Kristjánsdóttir, f. 1940, kennari. Börn Ingólfs og Sigurlaugar eru 1) Elísabet, f. 20. 2. 1963, sálfræðingur. Börn hennar með Guðmundi Daníelssyni lækni, f. 1962, eru Benedikt, f. 1996, og Andrea Birna, f. 2003. Þau skildu; 2) Kristján Sturlaugur, f. 1.9. 1965, kennari, kvæntur Steinunni Rósu Einarsdóttur, f. 1972, háskólanema. Þeirra synir: a) Einar Sveinn Kristjánsson, f. 1990, kvæntur Sigríði Laufeyju Gunnlaugsdóttur, f. 1991, börn þeirra eru Steinunn Björg, f. 2013, og Sveinþór Andri, f. 2016; b) Ágúst Ingi, f. 1993; c) Skarphéðinn Andri, f. 1995, d. 2014; 3) Ingólfur Sveinn geðlæknir, f. 1.3. 1977, kvæntur Hjördísi Halldóru Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1981. Þeirra börn eru Lísa, f. 2010, Selma, f. 2013 og Hilmar, f. 2019. Ingólfur á Iðunni, f. 2005, með fyrri eiginkonu, Áslaugu S. Bjarnadóttur, f. 1978.

Börn Ingólfs og Bryndísar eru 1) Steinarr, f. 24.7. 1993, grafískur hönnuður, býr og starfar í París, kvæntur Victoriu Allakhverdyan, f. 1997, grafískum hönnuði; 2) Vala Sigríður, f. 13.5. 1996, nemi í rafvirkjun, búsett í Reykjavík.

Systkini Ingólfs: Þorbergur Sveinsson, smiður og sjómaður, f. 30.12. 1923, d. 8.7. 2016, Þórður Sveinsson, smiður og sjómaður, f. 15.2. 1927, d. 24.12. 2005, Árni Guðgeir Sveinsson verkamaður, f. 27.9. 1928 d. 4.5. 1998, Ólafur Sveinsson smiður, f. 5.9. 1930, d. 24.11. 2007, Guðrún Sveinsdóttir húsfreyja, f. 7.12. 1934, d. 24.8. 2011, Alda Ármanna Sveinsdóttir, kennari og myndlistarkona, f. 2.4. 1936, Auður Sveinsdóttir læknaritari, f. 8.3. 1940, og Ingunn Sveinsdóttir verkakona, f. 20.9. 1942.

Foreldrar Ingólfs voru hjónin Sigríður Þórðardóttir, húsfreyja og bóndakona, f. 14.11. 1899, d. 29.10. 1988, og Sveinn Árnason, sjómaður og bóndi, f. 29.6. 1889, d. 11.10. 1947.